Sveppir sem eru ekki að þykjast

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að það borgar sig einfaldlega að gera matinn sinn frá grunni ef maður vill vera viss hvað er í honum.

En það er nú samt ekkert fyrst og fremst þess vegna sem ég vil yfirleitt elda matinn minn sjálf, nota lítið af unnum matvörum, baka brauðið mitt og allt það. Nei, það er einfaldlega vegna þess að mér þykir heimagert oftast betra á bragðið – og mér finnst gaman að elda.

Ég er dálítið mikið fyrir kjöt og ég var einmitt að telja það saman áðan hvað ég hef borðað kjöt af mörgum dýrum – spendýrum, fuglum, skriðdýrum og froskdýrum. Var komin upp í 40 sem ég mundi eftir en er þó ekki 100% viss með úlfaldann; fékk óskilgreint kjöt í Marokkó sem ég taldi að gæti ekki verið neitt annað en fékk ekki skýr svör þegar ég spurði …  Þó eru ekki nema 32 af þessum tegundum sem ég hef eldað.

Ég er líka mikið fyrir fisk (ég er reyndar mikið fyrir mat ef út í það fer) og elda mun meira af fiski núna en ég gerði hér áður fyrr. Nema næstum aldrei ýsu, reyndar.

En svo elda ég líka grænmetisrétti af og til. Og hér er einmitt einn slíkur.

IMG_3022

 

Ég átti tvo væna portobello-sveppi sem ég ákvað að elda með fyllingu. Ég hef áður verið með uppskrift hér að fylltum portobello-sveppum en þessir eru töluvert öðruvísi. Mér þykja þessir sveppir býsna góðir og þeir eru svolítið ,,kjötmiklir“ án þess þó að líkjast kjöti á nokkurn hátt – sem getur verið ágætt fyrir fólk sem vill minnka við sig kjötát. Ég er ekkert sérlega hrifin af grænmetisréttum sem eru verið að reyna að láta likjast kjötréttum (nei, nú á ég ekki við vissar ,,nautakjötsbökur“). Grænmetisréttir eiga bara að vera á sínum eigin forsendum og ekki þykjast vera kjöt.

Allavega, ég stillti ofninn á 215°C og náði í sveppina. Í ísskápnum var líka hálf dós af smjörbaunum (afgangur frá því að ég eldaði saltfiskplokkfiskinn) en ég notaði reyndar ekki nema helminginn af þeim helmingi … Og einn vænn vorlaukur, hálft rautt chili-aldin, tvær matskeiðar af hreinum rjómaosti, einn mjög vel þroskaður plómutómatur, biti (svona 30 g) af parmesanosti, slatti af basilíkublöðum, 1/2 tsk af steyttu kóríanderfræi, 1/2  tsk af þurrkuðu timjani, pipar og salt. Og ólífuolía til að pensla.

IMG_3024

 

Ég tók leggina úr sveppunum og penslaði þá svo vel með olíu á öllum hliðum og setti þá í lítið, eldfast mót (penslað með olíu) með kúptu hliðina niður.

IMG_3027

 

Ég saxaði leggina af sveppunum, tómatinn, vorlaukinn og basilíkuna og setti í skál. Saxaði chili-aldinið mjög smátt og setti út í ásamt kryddinu og helmingnum af rifnum parmesanostinum og blandaði vel saman. Merkilegt nokk, þá notaði ég ekki hvítlauk. En það hefði hreint ekki komið að sök að bæta við einum hvítlauksgeira, svei mér þá.

Garlic makes it good. Eins og Alice á Alice’s Restaurant sagði. En þetta var reyndar ágætt án hans líka.

IMG_3029

 

Svo setti ég baunirnar út í (fjórðung úr dós alltsvo)  ásamt rjómaostinum og blandaði með gaffli. Þarf ekkert að vera mjög jafnt.

IMG_3033

 

Svo skipti ég fyllingunni jafnt á milli sveppanna. Þótt þeir væru stórir kom herjans mikill kúfur á þá.

IMG_3037

 

Svo stráði ég (eða hrúgaði) hinum helmingnum af parmesanostinum jafnt yfir. Setti þetta svo í ofninn á næstneðstu rim og bakaði í svona 15 mínútur.

IMG_3058

 

Þá ætti osturinn að vera bráðinn og fallega gullinbrúnn og sveppirnir meyrir og fínir.

IMG_3060

 

Þetta er nú töluvert girnilegra en flestir tilbúnir réttir sem ég veit af – hvort sem þeir eru kjötlausir (og eiga að vera það) eða með kjöti (sama kjöti og innihaldslýsingin segir eða einhverju allt öðru kjöti).

Ég mæli með því að elda frá grunni. Það er öruggara, miklu betra og þarf hvorki að vera flókið né seinlegt.

 

Fylltir portobellosveppir með smjörbaunum og fleiru

2 stórir portobellosveppir

1/4 dós smjörbaunir (svona 3-4 kúfaðar matskeiðar)

1 vorlaukur

1/2 rautt chili-aldin

2 msk hreinn rjómaostur

1 tómatur, vel þroskaður

nokkur basilíkublöð

30 g parmesanostur

1/2 tsk þurrkað timjan

1/2 tsk kóríanderfræ, steytt

pipar

salt

ólífuolía til penslunar

 

One comment

  1. Svo sammála með að elda sjálf frá grunni – miklu betra! Ég er mikill aðdáandi bloggsins þíns, finnst svo gaman að sjá hvað allt virðist áreynslulaust í eldamennskunni hjá þér.
    Kveðja, Þorbjörg (laumulesari)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s