Smjörbaunirnar sem voru eitthvað annað

Ég eldaði saltfisk um helgina, sem ég geri nú nokkuð oft. Byrjaði á að skoða í ísskápinn en fékk enga brilljant hugmynd við það. Opnaði nokkrar bækur og fann ýmislegt áhugavert en ekkert samt beinlínis það sem mig langaði að gera. Ég var samt komin niður á það að mig langaði í einhvers konar saltfiskplokkfisk, þó ekki alveg franskt brandade – eða allavega með einhverjum tilbrigðum. Svo að ég fór á netið og skoðaði nokkrar uppskriftir. Eða öllu heldur nokkrar myndir, til að leita að hugmyndum.

Ég fann meðal annars mynd á minnir mig amerískri síðu af einhvers konar saltfiskplokkara; myndin var ekki af fullbúnum rétti, heldur var verið að hræra í jukkinu og ég sá að það voru smjörbaunir í þessu. – Hmm, það hefði mér ekki dottið í hug, gæti verið sniðugt, hugsaði ég. Prófaði bragðið í huganum og leist ekkert illa á. Svo að ég ákvað að gera gratíneraðan saltfiskplokk með smjörbaunum – átti einmitt nokkrar dósir í jarðskjálftabirgðunum.

Ég leit ekkert á sjálfa uppskriftina á síðunni, geri það sjaldan þegar ég finn hugmyndir á þennan hátt því ég vil ekki binda mig við uppskriftir annarra, reyni miklu frekar að leita mér að hugmyndum og vinna út frá þeim án þess að vita hvernig aðrir hafa unnið úr sömu hugmynd. Myndin dugði mér.

Ég lít hins vegar stundum á uppskriftina eftir á, bara til að athuga hver mismunurinn er. Og þegar ég var búin að elda og borða þennan ágæta saltfiskplokkfisk með smjörbaunum skoðaði ég uppskriftina sem fylgdi myndinni sem ég varð fyrir innblæstri af. Og þá rann upp fyrir mér að smjörbaunirnar sem ég hafði séð voru ekkert smjörbaunir, heldur hvítlauksgeirar. Margir. Ég hef grun um að upphaflegi rétturinn hafi verið nær því að vera gratíneruð hvítlaukskássa en saltfiskur. Svo ég var dauðfegin að hafa ekki lesið uppskriftina.

IMG_2952

Það var samt alveg hvítlaukur í plokkaranum mínum, en bara þrír geirar. Og ég notaði 350 g af saltfiski, 1 væna bökunarkartöflu, 1/2 dós af smjörbaunum (má nota aðrar baunir, eða bara sleppa), 250 ml af mjólk, 3 msk af ólífuolíu, 1 lárviðarlauf, timjangrein og piparblöndu (eða bara svartan eða hvítan pipar). Ögn af salti ef þarf. – Ég mundi svo eftir því þegar ég var að elda að ég átti basilíku og ákvað að nota hana en hún komst ekki á myndina. Það má líka sleppa henni.

Ég flysjaði kartöfluna, skar hana í fremur litla teninga og sauð þá í potti þar til þeir voru meyrir. Hitaði á meðan ofninn í 220°C.

IMG_2955

Ég setti fiskinn í lítinn pott með mjólkinni, hvítlauknum (skornum í bita) kryddjurtunum og piparnum (það sjást olíublettir þarna en þeir eiga ekkert að vera, það skvettist óvart svolítið af olíunni á fiskinn). Hitaði þetta að suðu, lækkaði hitann og lét malla rétt við suðu í svona 5 mínútur og lét svo standa í nokkrar mínútur. Ég sneri reyndar flakinu þegar það var hálfsoðið af því að það var svo þykkt.

IMG_2961

Ég athugaði svo hvort fiskurinn væri hæfilega soðinn, þ.e. hvort hann losnaði auðveldlega sundur í flögur – sem hann gerði – og tók hann þá upp úr með spaða og setti á disk. Ég veiddi líka þá hvítlauksbita sem ég sá upp úr og setti þá hjá fiskinum. Svo síaði ég mjólkursoðið og mældi það.

IMG_2965

Ég hellti svo mestallri olíunni í pottinn (sem ég var búin að skola og þerra) og þegar kartöflurnar voru orðnar meyrar hellti ég vatninu af þeim og stappaði þær með olíunni. Ég stappaði hvítlauksbitana með; þeir fóru ekkert í mauk en krömdust dálítið.

IMG_2966

Ég roðfletti saltfiskinn, losaði hann sundur í flögur, setti hann út í og hrærði saman við með sleif.  Ég vildi ekki hafa fiskinn fínstappaðan en auðvitað má gera það líka. Svo hrærði ég mjólkinni saman við smátt og smátt þar til plokkarinn var hæfilega þykkur – ætli ég hafi ekki notað helminginn af henni (100 ml). Smakkaði og bætti við pipar (þetta á helst að vera vel piprað) og svolitlu salti.

IMG_2971

Að lokum hrærði ég 1/2 dós af smjörbaunum og slatta af saxaðri basilíku saman við. Ég penslaði svo lítið, eldfast mót með  því sem eftir var af olíunni, setti plokkfiskinn í það og bakaði hann í miðjum ofni í svona 10 mínútur.

IMG_2980

Þeir sem vilja plokkfiskinn meira gratíneraðan geta sett grillið á undir lokin og e.t.v. stráð osti yfir. En mér fannst þetta fínt svona.

IMG_2993

Þetta með smjörbaunirnar var alveg óvitlaust. Þótt það væri misskilningur.

IMG_3223

Afganginn borðaði ég svo í kvöldmatinn áðan – heimabakað brauð, þykkt lag (eða hrúga eiginlega) af plokkfiski, rifinn parmesanostur, sett undir grillið þar til allt er heitt í gegn og osturinn hefur tekið lit. Alveg ljómandi.

Saltfiskplokkfiskur með smjörbaunum

1 bökunarkartafla

350 g saltfiskur

3 hvítlauksgeirar

1 lárviðarlauf

1-2 timjankvistir

pipar

250 ml mjólk

3 msk ólífuolía

e.t.v. salt

1/2 dós smjörbaunir

nokkur basilíkublöð, söxuð (má sleppa)

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s