Konudagstrít handa mér

Konudagur, já. Hann hefur nú aldrei verið mikið stikkorð í mínu dagatali og ég held bara svei mér þá að enginn hafi nokkru sinni gefið mér neitt á konudaginn, fært mér blóm, bakað handa mér, boðið mér út að borða né bara gert nokkurn skapaðan hlut fyrir mig. Nema kannski sonur minn, það getur verið, hann er oft huggulegur við móður sína og það má vel vera að hann hafi einhverntíma vikið einhverju að mér á konudaginn.

Ekki að ég sakni þess neitt, neinei. En ég sé á Facebook og víðar að sumar konur eru alveg að drukkna í huggulegheitum manna sinna og þá finnst mér að ég þurfi nú eiginlega að vera með. En þar sem ekki er öðrum til að dreifa en sjálfri mér – ja, þá varð úr að ég bakaði handa mér. Ekki nenni ég út í blómabúð …

Ég átt fallegt og vel þroskað mangó sem ég skar flís af í gær til að nota út í salat svo að mér fannst upplagt að nota afganginn af því í eitthvert bakkelsi. Var að velta fyrir mér mangóböku og fleiru en ákvað á endanum að baka múffur. Mér fannst þó vanta eitthvað með mangóinu og ákvað að bæta við bláberjum – þurrkuðum reyndar, en það má nota frosin. Ég vildi þó frekar þurrkuð því þau frosnu smita dálítið út frá sér í deigið.

Mér fannst svo þegar ég var að hugsa þetta að kókos gæti passað vel með og þá þyrfti líklega ekki önnur bragðefni. Það reyndist rétt en það mætti alveg bæta ögn af annaðhvort vanillu eða rifnum sítrónuberki út í deigið, mér fannst það óþarfi.

IMG_3127

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 190°C. – Ég hef bakað svo mikið af múffum um dagana að ég styðst nánast aldrei við uppskrift, hlutföllin þurfa bara að vera sæmilega rétt og þá koma góðar múffur út úr þessu, nokkurn veginn sama hvað maður gerir … Svo að ég byrjaði á að hella 250 ml af hreinni jógúrt í skál og bætti svo við 100 ml af olíu (Isio) og einu ansi stóru eggi, sem reyndist svo vera með tvær rauður, þannig að ef maður er með venjuleg egg er best að nota tvö. Ég hrærði þetta lauslega saman, bara þar til blandan var slétt.

IMG_3130

Svo blandaði ég saman 175 g af hveiti, 75 g af kókosmjöli, 100 g af sykri, 2 1/2 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda og ögn af salti, hellti út í jógúrteggjablönduna og blandaði lauslega saman með sleikju.

IMG_3134

Deigið ætti að vera frekar þykkt en samt ekki þurrt. – Deig sem inniheldur matarsóda á helst aldrei að bíða en ef þetta þarf að bíða eitthvað gæti það orðið enn þykkara því að kókosmjölið drekkur í sig vætuna.

IMG_3136

Ég var búin að flysja mangóið og skera það í litla bita. Þetta voru slétt 250 g en það er nú ekki svo nauið með magnið. Svo bætti ég við 75 g af þurrkuðum bláberjum; ef notuð eru frosin er líklega best að hafa ívið meira.

IMG_3140

Ég blandaði mangóinu og berjunum saman við deigið með sleikjunni. Tók svo múffuform úr málmi og raðaði 12  silíkonformum í það (en það má alveg eins nota pappírsform til að klæða málmformið)  og setti deigið í formin með tveimur matskeiðum.

IMG_3144

Mínar múffuuppskriftir eru yfirleitt miðaðar við 12 múffur og að formin séu vel fyllt. Stundum sér maður einhverjar ,,reglur“ um að það eigi bara að fylla múffuform að 2/3 eða 3/4 en það á helst við þegar deigið er frekar þunnt og gæti flotið út fyrir barmana þegar það lyftir sér í stað þess að mynda topp eins og múffur eiga að gera – og svo auðvitað ef notuð eru pappírsform eingöngu, þá er líklega best að fylla þau ekki nema að hálfu.

IMG_3151

Ég bakaði svo múffurnar á næstneðstu rim í ofninum í 18 mínútur.

IMG_3213

Ég losaði svo múffurnar úr formunum og lét þær kólna á grind. Eða næstum kólna, ég gat ekki beðið svo lengi …

IMG_3187

Þetta var bara alveg ágætis konudagstrít.

One comment

  1. Enda þú þín eigin kona (og reyndar margra bóka líka) eins og Vilborg Davíðssdóttir kemst svo skemmtilega að orði á blogginu sínu;)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s