Kjúklingur fyrir grasekkil

Einkasonurinn kom í kvöldmat af því að tengdadóttirin er í útlöndum að keppa á skylmingamóti; ég skaust út í Bónus seinnipartinn, alveg óákveðin í hvað ég ætlaði að gefa honum í matinn. Fékk engar hugmyndir þegar ég fór í gegnum grænmetiskælinn og eiginlega ekki í kjöt- og mjólkurkælinum heldur. Svo að ég endaði á að kaupa kjúklingabringur (ósprautaðar) því að það er jú alltaf hægt að gera eitthvað úr þeim …

(Mér finnst annars dálítið mikið um það nú orðið að fólk steiki kjúkling of lengi. Auðvitað þarf hann að vera steiktur í gegn, mikil ósköp, og áherslan sem hefur verið lögð á að kjúklingur sé fullsteiktur er nauðsynleg varúðarráðstöfun gegn salmonellu- og kamfýlósýkingum og því öllu. Þó nú væri. En þetta hefur orðið til þess að margir vilja hafa vaðið fyrir neðan sig og steikja fuglinn töluvert lengur en þarf, svo að hann verður þurr og bragðminni en hann ætti að vera.

Einhverntíma var ég með gest í mat þegar kjúklingur var á borðum. Hann var auðvitað gegnsteiktur … en gesturinn sagði á meðan verið var að borða: ,,Ég held að ég hafi aldrei fengið kjúkling áður sem ekki er þurr.“ Og það er náttúrlega verra …)

IMG_3099

En allavega, ég ákvað á röltinu heim að gera fylltar kjúklingabringur. Skoðaði í ísskápinn þegar heim kom og þar var ýmislegt til. Það voru fjórar bringur í pakkanum (um 750 g) en ég notaði bara þrjár.

Ég hitaði ofninn í 200°C og  setti 2-3 matskeiðar af rjómaosti, nokkur söxuð basilíkublöð, 1 saxaðan vorlauk, 1 msk af þurrkuðum trönuberjum, 1 msk af furuhnetum, 1 msk af ristuðum graskersfræjum og 2 saxaðar beikonsneiðar í skál. Kryddaði með pipar og salti og hrærði saman.

IMG_3103Svo skar ég djúpan vasa í hliðina á hverri bringu. Skipti fyllingunni í þrennt og setti hana inn í bringurnar.

IMG_3105

 

Ég lokaði bringunum svo með kjötnálum (ef þær eru ekki til má nota tannstöngla eða binda utan um bringurnar – eða vefja beikonsneiðum utan um, en mér fannst nóg að hafa beikonið í fyllingunni). Það þarf ekkert að loka þessu mjög þétt, bara svo fyllingin detti ekki öll út.

IMG_3108

 

Ég hitaði svo ögn af olíu á pönnu og brúnaði bringurnar við góðan hita á báðum hliðum – eða eiginlega á þremur hliðum því svona troðnar og bústnar bringur eru ekkert með tvær flatar hliðar til að brúna, sko.

IMG_3111

 

Svo raðaði ég þeim í eldfast mót, hellti olíunni af pönnunni yfir, og setti þær í ofninn í 20 mínútur. Kannski 25 ef þær eru mjög stórar.

IMG_3114

 

Þegar steikingartíminn var um það bil hálfnaður hellti ég 25o ml af rjóma í fatið til að gera sósu og steikti þetta svo áfram. Kryddaði rjómann með ögn af pipar og salti, þó ekki mikið því dálítið af fyllingunni rennur út í fatið og það kemur bragð úr henni.

IMG_3122

Ég bar þetta svo fram í sósunni með soðnum hrísgrjónum og salati. Alveg ágætt og mér heyrðist sonurinn sáttur.

 

Fylltar kjúklingabringur

3-4 kjúklingabringur

2-3 msk rjómaostur

nokkur söxuð basilíkublöð

1 vorlaukur, saxaður

1 msk furuhnetur

1 msk ristuð graskersfræ

2 beikonsneiðar, saxaðar

pipar og salt

1 msk olía til steikingar

250 ml rjómi

 

2 comments

  1. Sammála með þurrsteiktu bringurnar – ég þori voða sjaldan að panta mér bringur á veitingastöðum. Ótrúlega óspennandi matur þegar er búið að eyðileggja hann svona…

    • Æjá. Svosem auðvitað skiljanlegt að fólk vilji ekki taka neina sénsa. En það er til millivegur og hægt að nota kjöthitamæli eða aðrar aðferðir til að meta hvort fuglinn er nógu mikið steiktur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s