Ég hef verið frekar upptekin eftir vinnu þessa síðustu daga og lítið orðið úr eldamennsku. Það stendur nú kannski til bóta um helgina – en mér datt í hug að setja hér inn dæmi um það sem ég geri stundum þegar ég kem seint heim og er kannski ekkert rosalega svöng en langar í nýbakað brauð og snarl. Eða þegar ég vakna seint og ætla að flýta mér út …
Ég hef oft áður talað um hvað það er þægilegt að eiga yfirleitt brauðdeig í krukku í ísskápnum. Oftast tek ég það út 30-60 mínútum áður en ég baka það og læt það volgna og lyfta sér dálítið áður en það fer í ofninn. En það er reynar ekki nauðsynlegt, ekki ef maður ætlar að baka flatbrauð. Eða öllu heldur steikja það á pönnu. Þá fer heldur enginn tími í að hita ofninn.
Hér kemur lýsing á tvenns konar flatbrauði (ekki mjög ólíku þó) sem ég hef bakað nýlega. Ég notaði í báðum tilvikum bara deig sem ég átti; annað var úr brauðhveiti og heilhveiti til helminga, hitt var ef ég man rétt eingöngu heilhveiti – þó getur verið að það hafi verið smávegis brauðhveiti í því líka. Annars var þetta bara grunnuppskriftin, 750 ml vatn, 1 msk ger, um 1 kg af mjöli (hveiti, brauðhveiti, heilhveiti, spelt, og má svo blanda einhverju rúgmjöli eða öðrum brauðgerðarefnum saman við eftir smekk) og rúmlega matskeið af salti.
Þetta deig var heilhveiti og brauðhveiti til helminga, búið að vera í viku í ísskápnum (og búið að taka af því nokkrum sinnum) og var komin dálítið súrdeigslykt af því. Sem er ekki verra. Það var botnfylli eftir í krukkunni og mig langaði í brauð.
Eins og sjá má var deigið frekar blautt og alls ekki hægt að hnoða það með höndunum. Ég stráði vænum slatta af heilhveiti á bretti, setti deigið þar á, stráði meira hveiti yfir og lét það bíða í svona tíu mínútur.
Svo hnoðaði ég hluta af hveitinu upp í deigið, skipti því í þrjár kúlur (eða eftir því hvað magnið er mikið og hvað maður vill mörg brauð) og notaði afganginn af hveitinu til að fletja þær út í svona 2 mm þykkt. Sirka; ég var ekki með reglustikuna á þeim.
Svo hitaði ég þykkbotna pönnu vel, setti eina flatbrauðskökuna á hana og steikti hana við frekar háan hita. Líklegt er að gufuþrýstingurinn sem verður inni í deiginu þegar það hitnar myndi stórar loftbólur og ef maður vill ekki hafa kökurnar útblásnar er best að þrýsta oft ofan á þær með spaða til að pressa loftið út.
Spaðinn þarf ekkert að vera svona stór, þessi er bara mjög hentugur til þessa brúks. Ég sneri brauðinu líka oft – þá bakast það jafnar og brennur síður.
Ég bakaði flatbrauðið þar til það var farið að taka lit á báðum hliðum, það gæti tekið 3-4 mínútur fyrir hverja köku.
Volgt heilhveitiflatbrauð með smjöri, klettasalati og grafinni gæsabringu. Alls ekki sem verst …
Hitt brauðið var enn fljótlegra; ég lýg því ekki að ég var sest niður og byrjuð að borða af því tíu mínútum eftir að ég kom inn úr dyrunum. Þetta var heilhvetitideig (kannski með smávegis brauðhveiti, er ekki alveg viss), mjög svipað hinu og ég tók bara eina frekar litla kúlu af því.
Ég byrjaði á að kveikja undir pönnunni og svo flatti ég út tvær litlar, kringlóttar kökur úr deiginu, eins þunnt og ég mögulega gat (miðað við hvað deigið var blautt).
Þegar pannan var orðin vel heit setti ég brauðin á hana og steikti þau við mjög háan hita. Sneri þeim nokkrum sinnum – þau eru tilbúin þegar þau hafa tekið góðan lit og komnir smávegis brunablettir á þau.
Eins og ég sagði, tilbúin tíu mínútum eftir að ég kom heim.
Heit og með hálfbráðnu smjöri. Mmmm.