Indversk-portúgalskur fiskur

Þeir sem hafa farið til Portúgal kannast kannski við cataplana. Nema náttúrlega ef fólk hefur bara borðað á McDonalds og Pizza Hut og svoleiðis stöðum allan tímann. Cataplana er eins og tagine bæði ákveðin tegund rétta og ílátið sem þeir eru eldaðir í. Þetta er eins konar samlokupanna úr kopar, tveir íhvolfir helmingar, festir saman með hjörum, sem er svo hægt að loka og klemma saman.

Oftast er cataplana-pannan notuð til að elda skelfiskrétti, enda hentar þetta sérlega vel til að gufusjóða skelfisk. En á seinni árum sér maður oft rétti með öðru innihaldi, þó er yfirleitt eitthvað af skelfiski eða fiski með. Ílátið hentar best fyrir fljóteldaða rétti, ekki langsoðna pottrétti og slíkt.

Ég á cataplana. Nema hvað. En hef sjaldan notað hana. Keypti hana á markaði í London fyrir mörgum árum af því að ég varð svo skotin í henni og hef eiginlega aðallega haft hana fyrir punt. Og þegar ég flutti hingað á Grettisgötuna fór hún upp á skáp í eldhúsinu og ég hef eiginlega gleymt henni síðan, meira og minna. Rétt eins og ungverski bogrács-koparpotturinn við hliðina á henni.

Nema áðan var ég búin að ákveða að elda indverskan fiskikarrírétt og var að velta fyrir mér í hvaða potti eða pönnu væri sniðugt að matreiða hann. Og allt í einu mundi ég eftir cataplana-pönnunni. Sótti hana upp á skáp og viti menn, hún alveg smellpassaði … En það er auðvitað hægt að nota hvaða djúpu pönnu eða víðan pott sem er. Helst með loki en það má líka bara breiða álpappír yfir.

Ég ætlaði auðvitað að hafa hrísgrjón með þessu. En þegar ég fór að ná í þau til að sjóða komst ég að því að þau voru búin og ég hafði gleymt að birgja mig upp. Og það var hellirigning og ég nennti ekki aftur út í búð. Svo að ég ákvað að í dag (bara í dag) ætlaði ég bara að vera LCHF eða paleo eða eitthvað og sleppa grjónunum. Hafa bara salat.

IMG_2825

Fyrst þarf að búa til kryddblönduna, masala, sem er bragðgrunnurinn í réttinn. Það er ansi margt sem er hægt að nota en uppistaðan er (fyrir utan hvítlauk og engifer, kemur síðar) túrmerik, kóríanderfræ og chili. Annars notar maður bara það sem maður á og langar í og heldur að passi … Þurrkryddin þarna á diskinum eru kóríanderfræ (1 tsk), sinnepsfræ (1/4 tsk), piparblanda (1/2 tsk), fennikufræ (1/2 tsk), chiliflögur (1/4 tsk, en ég vildi hafa þetta milt), túrmerik (1 tsk) og kummin (1 tsk, ég átti bara malað en hefði notað heil fræ ef þau hefðu verið til).

IMG_2830

Ég setti kryddið í cataplana-pönnuna (þurra) og hitaði hana, ekki við of háan hita. Hrærði í kryddinu þar til það var farið að ilma en ekki brenna. Þá tók ég pönnuna af hitanum og hellti kryddinu í mortél.

IMG_2835

Ég bætti við 2 grófsöxuðum hvítlauksgeirum og smátt söxuðum engifer, svona 2 tsk, 1 msk af púðursykri og dálitlu grófu salti.

IMG_2836

Og steytti svo allt saman þar til komið var grófgert, ilmríkt mauk. Þá hrærði ég 1 msk af hvítvínsediki saman við.

IMG_2848

Svo hitaði ég 1 msk af olíu í pönnunni, saxaði 1 lauk, setti út í og steikti við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til hann var mjúkur. Hrærði svo kryddmaukinu saman við og steikti þar til allt var orðið vel ilmandi.

IMG_2859

Svo saxaði ég einn stóran, vel þroskaðan tómat og setti út í og hellti svo einni dós af kókosmjólk yfir. Hrærði vel, hitaði að suðu og lét malla í um 10 mínútur. Þá var sósan aðeins farin að þykkna (ef hún sýður of mikið niður má bæta svolitlu vatni við).

IMG_2861

Það má nota ýmsar tegundir af hvítum fiski en ég var með þykkan bita af steinbítsflaki, um 350 g, sem ég skar í stykki og setti út í.

IMG_2867

Svo lækkaði ég hitann, lokaði cataplana-pönnunni og lét malla í 5 mínútur.

IMG_2885

Reyndar passar ekkert illa að elda þennan karrírétt í cataplana því hann er í stíl við karrífiskrétti frá Goa á Indlandi, sem er einmitt gömul portúgölsk nýlenda og þar eru töluverð portúgölsk áhrif.

IMG_2908 - Version 2

Alveg ljómandi gott en ég saknaði hrísgrjónanna svolítið. Held að þetta LCHF sé ekkert fyrir mig …

Karrífiskur frá Goa

Masala (má breyta á ýmsa vegu):

1 tsk kóríanderfræ

1 tsk kummin

1 tsk túrmerik

1/2 tsk pipar

1/2 tsk fennikufræ

1/4 tsk sinnepsfræ

gróft salt

2 hvítlauksgeirar

saxaður engifer, svona 2 tsk

1 msk púðursykur

 

1 msk olía

1 laukur

1 vænn tómatur

1 dós kókosmjólk

350-400 g hvítur fiskur (t.d. steinbítur, þorskur, langa, ufsi …)

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s