Mér finnst ágætt að hafa ekki þurft neitt út í dag, veðrið er svo leiðinlegt. Reyndar er ég búin að vera alla helgina að grúska í íslenskri matarsögu, sem er nú alltaf skemmtilegt, og hefur ekki langað vitundarögn út. Það er svo margt áhugavert þar að finna.
En það er ekki hvaða fiskur sem er sem á við í svona veðri. Ekki eitthvað létt og sumarlegt, allavega. Hér er samt uppskrift sem mér finnst smellpassa, sterk og rífandi. Og hún á ekkert skylt við íslenska matarsögu, satt að segja, heldur fer ég alla leið til Indlands.
Héraðið Goa á vesturströnd Indlands var öldum saman portúgölsk nýlenda og það hefur sett svip á matargerðina. Fiskur og annað sjófang er mjög vinsælt og sósurnar eru gjarna ögn súrsætar.
Uppskriftin birtist í MAN fyrir tæpum tveimur árum. Ég tók myndir af undirbúningnum en þær hafa líklega verið á meðal þeirra sem hurfu í tölvuhruninu mínu, að minnsta kosti finn ég þær ekki. Svo að hér er uppskriftin bara. – Ég hef reyndar áður birt svipaða uppskrift en þó aðeins aðra útfærslu, hún er hér. Þessi er ekki síðri.
Kókoskarrífiskur frá Goa
500–600 g fiskur, roð- og beinlaus (ég notaði þorsk og lax)
2 msk olía
1/2 tsk fennelfræ
1/2 tsk sinnepsfræ
4–5 kardimommur
3–4 negulnaglar
1 tsk paprikuduft
1 tsk kummin
1 tsk túrmerik
smáklípa af chiliflögum
salt
2–3 hvítlauksgeirar, saxaðir
2–3 cm biti af engifer, saxaður
1 laukur
1 rautt chilialdin
1 dós kókosmjólk
3 msk tómatþykkni
2 msk hvítvínsedik
1 tsk hunang, eða eftir smekk
Ég skar fiskinn í munnbita og setti til hliðar. Hitaði 1 msk af olíu á pönnu, setti heila kryddið á hana, hrærði og lét krauma við meðalhita þar til kryddið ilmaði vel og fræin voru farin að ,,poppa”. Þá hrærði ég hinu kryddinu saman við og lét krauma í 1 mínútu eða svo. Hellti öllu saman í mortél, bætti við söxuðum hvítlauk og engifer og steytti þar til allt var orðið að mauki.
Svo saxaði ég laukinn fremur smátt. Hitaði 1 msk af olíu á pönnunni og lét krauma í um 5 mínútur, þar til laukurinn var orðinn mjúkur. Hrærði þá kryddmaukinu saman við, ásamt chili. Síðan bætti ég við kókosmjólk, tómatþykkni, ediki og hunangi og lét malla við vægan hita í um 10 mínútur. Ef sósan er mjög þykk má bæta við svolitlu vatni.
Ég smakkaði svo sósuna og bragðbætti eftir þörfum. Hækkaði hitann dálítið, setti fiskinn út í, hrærði vel og lét malla í 3–4 mínútur.
Svo bar ég fiskinn fram með hrísgrjónum eða naanbrauði og e.t.v. grænu salati.
[…] líka misjafnt; uppskriftirnar sem ég hef birt hér hafa innihaldið þorsk, meiri þorsk, lax, þorsk og lax saman, bleikju, löngu, hörpudisk, rækjur (forsoðnar, tvisvar, og hráar), túnfisk, ýsu, […]