Til að gera lífið ögn bjartara

Ég var með fiskibollur í kvöldmatinn. Þær voru ágætar og ég ætlaði eiginlega að setja uppskriftina hér inn – það eru alltaf not fyrir fiskibolluuppskriftir – en svo horfði ég út um gluggann, það gekk einmitt yfir dimmt hríðarél, og mér fannst að það yrði að vera eitthvað litríkara. Og þá mundi ég eftir þessari uppskrift, eldaði þetta í fyrra en var ekki búin að birta, og fannst hún eiga vel við. Steikt bleikja á mangósalsa, akkúrat það sem þarf til að gera lífið ögn bjartara og litríkara. Uppskriftin er fyrir einn en mjög auðvelt að stækka hana. Voruð þið annars búin að sjá að ég bætti inn nýjum flokki (felliglugginn hér hægra megin) með uppskriftum fyrir einn?

Ég var með eitt bleikjuflak, ekki mjög stórt – passlegt fyrir mig í kvöldmatinn og svolítill afgangur til að hafa í nestið daginn eftir. Blandaði saman 1/4 tsk af paprikudufti, pipar og salti og kryddaði bleikjuna með því. Hitaði svo 1 msk af olíu á pönnu og steikti bleikjuna, fyrst í svona 2 mínútur með roðhliðina upp við nokkuð góðan hita, sneri henni svo við, lækkaði hitann (ekki að það skipti svo miklu máli á járnpönnu) og steikti í svona 3 mínútur í viðbót, eða þar til bleikjan var rétt gegnsteikt.

Á meðan (kannski betra áður ef maður er ekki þeim mun fljótari að saxa) tók ég vel þroskað mangó – notaði reyndar bara helminginn af því í salsað, hitt í annað – flysjaði það, fjarlægði steininn og skar það í teninga. Síðan flysjaði ég, steinhreinsaði og saxaði eina litla lárperu, og fræhreinsaði líka einn vel þroskaðan tómat og skar hann í teninga.

Svo tók ég eina límónu og fjórðung af blóðappelsínu (eða venjulegri appelsínu), kreisti safann úr þeim i stóra skál og þeytti 3 msk af ólífuolíu saman við, ásamt pipar og salti.  Setti svo mangóið, lárperuna og tómatinn út í ásamt lúkufylli af klettasalati og nokkrum grófmuldum pekanhnetum.

_MG_4183

Setti salsað svo á disk, tók bleikjuflakið af pönnunni og lagði ofan á.

*

Bleikja á mangósalsa

1 bleikjuflak, frekar lítið

1/4 tsk paprikuduft

pipar

salt

1 msk olía

½ mangó, þroskað

1 lítil lárpera, vel þroskuð

1 tómatur, vel þroskaður

 

safi úr 1 límónu

safi úr ¼ blóðappelsínu eða appelsínu

3 msk ólífuolía

 

lúkufylli af klettasalati

5-6 pekanhnetur

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s