Ein stutt, af því að ég þarf svo vestur í bæ til að kenna seinna kvöldið á námskeiði sem ég er með hjá Endurmenntun um íslenska matarsögu og matarhefðir – en þessi hefur akkúrat ekkert með það efni að gera, er frekar óíslensk. Þegar ég var að alastu upp leit maður nú eiginlega hálfpartinn á rækjur sem hverjar aðrar pöddur … Og hvítlaukur og chili var nú ekki eitthvað sem venjulegt fólk borðaði.
Þetta var auðvitað ekki kvöldmaturinn minn en hann var fiskmeti líka – afgangurinn af fiskibollunum sem ég steikti í gærkvöldi, skorinn í bita og steiktur með kartöflum og sveppum. Og svo egg hrærð með basilíku yfir allt saman og breytt í eggjaköku. Fínt bara. Ég fór nefnilega út að borða í hádeginu með syninum og við fengum okkur auðvitað fisk. Nema hvað. Þó að fiskbrúarinn minn snúist bara um að elda eingöngu fisk, ég borða alveg kjöt ef mér er boðið það … En mig langaði bara meira í fisk þótt fiskur (og fiskmeti, því skelfiskur og svoleiðis telst með) verði á borðum hjá mér daglega næstu þrjár vikur.
Þetta er semsagt rækjuréttur sem ég gerði fyrir tapasþátt sem var í MAN fyrir hálfu öðru ári eða svo en ég hafði aldrei birt hér. Myndirnar af undirbúningnum virðast horfnar svo að hinar verða að duga.
Þetta getur verið tapasréttur fyrir x marga með mörgum öðrum smáréttum, forréttur fyrir fjóra eða svo eða aðalréttur fyrir tvo, þá með nógu af góðu brauði og salati. Ég steikti þær á pönnu en bar þær svo fram í litlum leirformum sem ég hafði hitað í ofni til að gera þetta tapaslegra. En auðviðta má bera þær fram á pönnunni eða á fati.
Steiktar risarækjur með hvítlauk og chili
400-500 g risarækjur, hráar
3 hvítlauksgeirar
2-3 chilialdin
100 ml ólífuolía
flögusalt
steinselja, söxuð
Ég var með skelflettar rækjur; ef þær eru í skel þarf að byrja á að skelfletta þær og hreinsa (og þá þarf líka heldur meira af þeim, annars þarf bara að láta þær þiðna). Svo saxaði ég þrjá hvítlauksgeira smátt og fræhreinsaðu 2-3 chilialdin (já, þetta er sterkt, það má nota minna) og skar þau í þunnar sneiðar. Einnig má nota þurrkuð chilialdin og mylja þau.
Svo hellti ég 100 ml af ólífuolíu á þykkbotna pönnu (eða í leirpott), setti hvítlauk og chili út í og hitað á hárri stillingu en passaði að þetta brynni ekki. Setti rækjurnar út í þegar hvítlaukurinn fór að taka lit og steikti þær í 1-1 1/2 mínútu á hvorri hlið. Stráði salti og saxaðri steinselju yfir og bar rækjurnar fram sjóðheitar í olíunni.
Flóknara var það nú ekki.
[…] þorsk, lax, þorsk og lax saman, bleikju, löngu, hörpudisk, rækjur (forsoðnar, tvisvar, og hráar), túnfisk, ýsu, rauðsprettu, saltfisk og karfa. Og nú er röðin komin að reyktum […]