Það var fyrir löngu …

Fiskbrúar gengur bara býsna vel; ég er búin að borða fiskmeti daglega í viku og líka setja fiskuppskrift hér inn á hverjum degi. Ekki alltaf af rétti dagsins, samt, og fyrir því eru ýmsar ástæður, oft vegna þess að ég hef ekki tekið mynd sem ég er ánægð með – oftast vegna birtunnar; þegar ég er ein í mat elda ég bara þegar ég kem heim og þá er allt í lagi en ef einhver kemur í mat er það yfirleitt um sjöleytið og á þessum árstíma er það allt of seint fyrir myndatöku. Fyrir utan það auðvitað að ég læt fólk ekki bíða eftir matnum á meðan ég er að stilla upp og vanda mig við myndatökur þótt ég smelli oft af mynd um leið og ég set matinn á borðið …

En ég á líka fullt af fiskmyndum og -uppskriftum á lager og þannig er einmitt með þennan rétt hér, ég eldaði hann í febrúar í fyrra (þá var ég líka með fiskbrúar) og hef greinilega ekki verið með neinn gest þá, og ég sé meira að segja á myndunum að það hefur verið sól … Þetta er ríflegur skammtur fyrir einn, dugði mér vel í nesti daginn eftir, en það má líka hafa aðeins stærri fiskbita og bæta e.t.v. svolítið við grænmetið og þá dugir þetta fyrir tvo. Nú, eða stækka uppskriftina meira.

Ég notaði perlukúskús (pearl cousocus, líka kallað ísraelskt kúskús). Það fæst a.m.k. í sumum stórmörkuðum en svo má líka nota t.d. bygg, bulgur eða bara hrísgrjón. Byrjaði á að sjóða hálfan pakka (100 g) samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.

Á meðan tók ég hálfan lítinn kúrbít og 1/4 af papriku (appelsínugulri, en liturinn skiptir auðvitað engu máli) og skar í fremur litla teninga. Skar líka niður tvo vorlauka og fræhreinsasði og saxaði hálft rautt chilialdin.

_MG_4350

Ég var með svona 300 g af blálöngu (mætti líka vera t.d. steinbítur eða þorskhnakki) í tveimur stykkjum. Kryddaði fiskinn með kóríanderdufti, pipar og salti, bræddi smjörið á pönnu og setti fiskinn á hana.

_MG_4352

Svo setti ég grænmetið í kring og steikti við ríflega meðalhita í svona 3 mínútur. Hrærði í grænmetinu af og til. Ég sneri fiskinum við eftir svona 3 mínútur og steikti á hinni hliðinni í svona 3 mínútur í viðbót (eða eftir þykkt stykkjanna). Þá tók ég fiskinn af pönnunni en steikti grænmetið aðeins lengur, þar til það var meyrt.

Nú var kúskúsið soðið og ég hellti því í sigti og hvolfdi því síðan í skál, sturtaði grænmetinu yfir og blandaði.

_MG_4354

Svo blandaði ég kóríanderlaufi saman við; það mætti líka nota klettasalat eða steinselju, bara eftir því hvað til er og mann langar að nota …

_MG_4359

Að lokum setti ég lófafylli af spínati á disk og ýtti því út til hliðanna, setti góða hrúgu af kúskúsi í miðjuna og lagði svo fiskstykki ofan á.

Þetta var nú alveg ágætt bara.

*

Blálanga með perlukúskús

½ pakki perlukúskús, soðið

½ lítill kúrbítur

¼ paprika

2 vorlaukar

½ rautt chili

300-400 g blálanga (eða annar fiskur)

¼ tsk kóríanderduft

pipar og salt

40 g smjör

lítil lófafylli af kóríanderlaufi (eða klettasalati eða steinselju)

spínat

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s