En svo er líka hægt að gera svona …

Það eru margir kostir við að búa ein en líka ýmsir gallar. Einn þeirra er sá að það er stundum dálítið erfitt að kaupa í matinn fyrir einn. Maður hefur svosem ekki mikið að gera í Costco ef maður er einbúi – ekki nema maður fái þeim mun meira af matargestum. En jafnvel þótt maður versli bara í venjulegum kjörbúðum er sumt sem þarf að kaupa í stærri skömmtum en æskilegt væri. Þetta á til dæmis við um kjöt og fisk í seinni tíð, því að kjöt- og fiskborðum fer stöðugt fækkandi. Jú, maður getur farið í sérverslanir en þær eru ekki alltaf í leiðinni, ég tala nú ekki um fyrir bíllausa manneskju.

Þetta er semsagt víðast hvar bara selt í pakkningum í kæliborðum og þær eru sjaldnast fyrir einn þótt sífellt fleiri búi einir. Maður prísar sig oft sælan að finna pakkningar sem henta fyrir tvo. Ég elda stundum allt saman, borða helminginn en nota afganginn í einhvern allt annan rétt næsta dag. Breyti kannski pottrétti í súpu (eða öfugt), nota kjúklingaleifar kannski í salat eða karrírétt, sker kjötafgang smátt og nota í biximat eða eggjaköku eða rísottó eða eitthvað slíkt, nota fiskafgang í buff eða bollur eða eitthvað allt annað. Mér leiðist frekar að borða sama mat tvo daga í röð – það er að segja ef hann er eins.

En stundum elda ég bara helminginn af því sem ég keypti og hinn helminginn svo daginn eftir eða tveimur dögum seinna en reyni þá að hafa þann rétt frekar ólíkan. Og þannig var það einmitt núna; ég komst ekki í fiskbúð en keypti pakka með rúmlega 400 g af þorskhnakka, eldaði helminginn í gærkvöldi en afganginn núna. Það urðu ekkert mjög líkir réttir.

Þetta voru semsagt tveir u.þ.b. 100 g bitar af þorski. Ég blandaði saman á diski 1 msk af hveiti (má vera maísmjöl), 1/2 tsk af mildu karrídufti, pipar og salti, velti fiskbitunum upp úr blöndunni og þrýsti þeim vel ofan í hana.

IMG_8019

Ég átti þrjár mislitar paprikur sem búið var að taka eitthvað af. Skar svona sjötta hlutann af hverri þeirra og skar niður. Svo hitaði ég 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á pönnu, setti þorskinn á hana og stráði paprikunum í kring. Steikti þetta við meðalhita í svona 3 mínútur og hrærið aðeins í paprikunum.

IMG_8023

Þá sneri ég fiskstykkjunum gætilega við. Dreifði svona 50-60 g af rækjum yfir og síðan svolitlu fersku óreganói (það mætti líka nota basilíku eða aðrar kryddjurtir eftir smekk, eða sleppa bara). Steikti þetta áfram í svona 2 mínútur. Þá hellti ég 100 ml af rjóma á pönnuna og lét malla í svona 1 mínútu. Tók þá fiskinn af með spaða og setti á disk en lét hitt sjóða niður í 1-2 mínútur í viðbót.

IMG_8032

Svo jós ég rækjunum, grænmetinu og sósunni á diskinn hjá fiskinum. Hér hentar vel að nota frekar djúpan disk.

Svo er bara að hafa nóg af góðu brauði með, eða kannski hrísgrjón – allavega eitthvað sem drekkur í sig sósuna.

*

Þorskur í rækju-paprikusósu

200 g þorskhnakki

1 msk hveiti

1/2 tsk milt karríduft

pipar

salt

bitar af mislitri papriku (kannski svona 1/2 paprika samtals)

50-60 g litlar rækjur

nokkur lauf af óreganó eða annarri krydjurt (má sleppa)

100 ml rjómi

 

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s