Þorskur í dagsbirtu

Það er alltaf ákveðinn áfangi á hverju ári, finnst mér – eða í hverjum febrúarmánuði, væri líklega réttara – þegar ég get tekið mynd af kvöldmatnum mínum á virkum degi. Yfir háveturinn er löngu orðið dimmt og þá tek ég ekki myndir. Vissulega var kvöldmaturinn býsna snemma (sem hann er oft þegar ég er ein, þá elda ég bara um leið og ég kem heim úr vinnunni) og ég fór frekar snemma heim, en samt … Og svo þurfti ég að gera eitthvað fljótlegt því ég átti eftir að ljúka undirbúningi fyrir erindi sem ég hélt fyrr í kvöld á Bókasafni Garðabæjar um íslenskar matreiðslubækur, mínar og annarra.

En það er fiskbrúar hjá mér og eins og ég hef oft sagt, fiskur er hinn eini sanni skyndibiti. Og ég átti þorskhnakka og þurfti ekki að tefja mig á að fara í búð, svo að ég fór bara beint heim og byrjaði að elda. Það tók í mesta lagi korter og ég gat tekið myndir í björtu. Svona nokkurn veginn.

Uppskriftin er fyrir einn en ekkert mál að stækka hana.

Ég byrjaði á að setja hnetur í matvinnsluvélina – svona 5-6 valhnetukjarna og 1 msk af pistasíum, en það má í sjálfu sér nota hvaða hnetur/möndlur sem er. Og ef maður vill ekki eintómar hnetur má alveg blanda raspi saman við. Svo bætti ég við blöðunum af 2-3 timjangreinum (má vera svolítið þurrkað timjan en ferskt er betra), pipar og salti, og lét vélina ganga þar til þetta var orðið að mylsnu. Frekar fínni en ekki þó að dufti.

IMG_7912

Svo setti ég dálítið maísmjöl á disk, svona 2-3 matskeiðar. Það má líka nota hveiti en ég ákvað að hafa þetta glútenlaust – ekki að ég sé í neinum glútenlausum gír þó, vildi bara gera uppskrift sem glútenlausir gætu notað líka – og kryddaði það með ögn af pipar og salti. Setti hnetumylsnuna í skál og braut eitt egg í aðra skál og sló það aðeins með gaffli.

IMG_7913

Ég kveikti líka undir pönnunni og setti 1 msk af ólífuolíu á hana. Svo velti ég fiskinum (sem var í tveimur stykkjum) vel upp úr maísmjölinu og síðan upp úr egginu og loks hnetumulningnum.

IMG_7919

Svo steikti ég fiskinn við meðalhita í svona 3 mínútur á hvorri hlið (þykkari bitann, hitt stykkið var aðeins skemur á pönnunni). Hitinn má ekki vera of hár, þá brenna hneturnar, en heldur ekki of lítill.

Ég átti til sinnepsmajónes (1 eggjarauða, 1 tsk sítrónusafi, 1 1/2 tsk dijonsinnep, pipar og salt, þeytt saman og 50 ml af ólífuolíu og 100 ml af bragðmildri olíu þeytt smátt og smátt saman við) og hafði það með, fannst það koma ágætlega út. Svo stráði ég nokkrum graskersfræjum yfir af því að mér fannst eitthvað vanta – en það er svo sem ekki nauðsynlegt.

IMG_7927

Ég hafði bara grænt salat með en það mætti alveg eins hafa til dæmis hrísgrjón eða bygg. Nú, eða soðnar kartöflur þess vegna.

*

Þorskur í hneturaspi

200 g þorskhnakki

1 msk pistasíuhnetur

5-6 valhnetur

nokkrar timjangreinar

pipar

salt

1 msk ólífuolía (eða önnur olía)

2-3 msk maísmjöl eða hveiti

1 lítið egg

e.t.v. graskersfræ

*

Sinnepsmajónes

1 eggjarauða

1 tsk sítrónusafi

1 1/2 tsk dijonsinnep, eða eftir smekk

pipar

salt

50 ml ólífuolía

100 ml bragðmild olía

 

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s