Ekki alveg ósæt en samt …

Ég var með hér í fyrrasumar eða haust uppskrift að formköku þar sem ég notaði butternut-kúrbít. Þetta var alveg ágæt kaka þótt ég væri ekki alveg sátt við útlitið á henni en mig langaði alltaf að breyta uppskriftinni, nota næstum því sömu hráefnin og hlutföllin en fara öðruvísi með þetta. Og núna um helgina lét ég verða af því og bakaði köku sem svipaði nokkuð til hefðbundinnar gulrótaköku en þó heldur minna óholl en slíkar kökur vilja oft vera – minni sykur bæði í köku og kremi og eintómt heilhveiti. Þetta er nú ekki beint hollusta samt, seiseinei …

En vinnufélagarnir voru allavega nokkuð ánægðir með kökuna og ekki síst fyrir það hvað hún var lítið sæt. Eins og kannski hefur komið fram er ég sjálf ekki mjög gefin fyrir dísætar kökur og síst af öllu sætar kökur með  miklu smjörkremi (ég held að ég hafi aldrei getað klárað heila bollaköku). Þessi er ekki þannig.

IMG_2672

Ég átti tæplega hálfan butternut-kúrbít, um 400 g, sem ég flysjaði, skar í frekarl litla bita og setti í pott. Svo hellti ég 200 ml af appelsínusafa yfir, hitaði að suðu og lét malla þar til butternut-kúrbíturinn var meyr, eða í svona 12-15 mínútur.

IMG_2681

 

Á meðan hitaði ég ofninn í 175°C og tíndi til afganginn af hráefninu: 425 g heilhveiti, 175 g púðursykur, 150 ml af hreinni jógúrt, 100 ml af olíu, 3 egg, 100 g af þurrkuðum apríkósum, 100 g valhnetur, 1 tsk kanel, 3/4 tsk engiferduft, 3 tsk lyftiduft og 1/2 tsk af matarsóda.

IMG_2683

 

Þegar butternut-kúrbíturinn var meyr tók ég hann af hitanum og lét aðeins rjúka úr honum (má líka gera þetta fyrirfram og láta hann kólna alveg). Á meðan setti ég eggin, olíuna og jógúrtína í matvinnsluvélina og svo hellti ég kúrbítnum og appelsínusafanum sem hann var soðinn í út í skálina, setti vélina strax af stað og lét hana ganga þar til allt var maukað vel saman.

IMG_2684

Svo blandaði ég saman hveilhveiti, púðursykri, kryddi og lyftiefnum, hellti út í skálina og lét matvinnsluvélina blanda þessu saman; notaði púlshnappinn á vélinni og reyndi að hræra sem allra minnst.

IMG_2688

 

Að lokum grófsaxaði ég apríkósurnar og hneturnar og blandaði saman við með sleikju.

IMG_2690

 

Ég var búin að klæða eldfast form (þetta er líklega svona 20×35 cm) að innan með bökunarpappír og svo hellti ég deiginu í formið, jafnaði með sleikju og bakaði kökuna svo á næstneðstu rim í 25 mínútur, eða þar til kakan hefur stífnað (bökunartíminn fer annars m.a. eftir stærðinni á forminu og þar með þykktinni á kökunni).

IMG_2703

 

Ég lét kökuna kólna nokkra stund í forminu og lyfti henni svo upp úr og lét hana kólna alveg á grind. Síðan hefði verið gáfulegt að hvolfa henni, losa pappírinn af og setja hana svo á fat áður en kremið var sett á hana en slík fyrirhyggja er mér ekki alltaf gefin.

Það má líka sleppa kreminu, kakan er vel æt án þess.

IMG_2769

 

Kremið: Ég notaði 350 g af rjómaosti. Oftast er gert ráð fyrir í uppskriftum að osturinn sé mjúkur, þ.e. hafi verið tekinn úr kæli með góðum fyrirvara, en þegar notuð er matvinnsluvél finnst mér eiginlega betra að hann sé nærri kaldur; ég læt þá bara vélina ganga þar til hann er alveg sléttur. Ég hrærði svo 175 g af flórsykri, 2 msk af hlynsírópi (má sleppa) og 4 msk af Royal vanillubúðingsdufti saman við.

IMG_2799

 

Svo smurði ég kreminu á kökuna með spaða og grófmuldi að lokum 100 g af valhnetukjörnum og stráði yfir. Það má líka alveg sleppa hnetunum.

IMG_2818

 

Þetta var bara alls ekkert slæm kaka.

Kremið verður ekki mjög stíft; ef þið viljið stífara og sætara krem má bæta við slatta af flórsykri. Ef þið viljið dísætt krem alltsvo.

 

Butternut-kúrbítskaka með rjómaostskremi

400 g butternut-kúrbítur

200 ml appelsínusafi (soðið ca. 10 mín)

3 egg

150 ml hrein jógúrt, súrmjólk eða ab-mjólk

100 ml olía

400 g heilhveiti

175 g púðursykur

3 tsk lyftiduft

½ tsk matarsódi

1 tsk kanell

¾ tsk engifer

100 g valhnetukjarnar

100 g þurrkaðar apríkósur

 

Kremið:

350 g rjómaostur, hrærður mjúkur

175 g flórsykur

4 msk Royal vanillubúðingsduft

2 msk hlynsíróp

50-100 g valhnetur

5 comments

  1. Mér lýst líka vel á þessa 🙂 Þegar apríkósu/döðlubrauðið og appelsínukakan eru búin þá skeli ég í þessa… eitthvað ávaxtabakstursæði í gangi! Heldurðu að ég gæti ekki líka breytt til og notað graskersmaukið sem ég á?

    • Jú, alveg pottþétt. Ef það er mjög þykkt þarf kannski að þynna það aðeins, annaðhvort með appelsínusafa, mjólk/jógúrt eða bara svolitlu vatni.

    • Já, ég ,,mæli“ með þessari mælikönnu … Ég hef átt svipaða könnu áður en hún eyðilagðist fljótt, líklega komst vatn í mælibúnaðinn, Kosturinn við þessa er að það er hægt að losa skálina af og setja hana í uppþvottavélina.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s