Í gær voru fimm vikur síðan einangrunin byrjaði og ég keypti síðast eitthvað í matinn. Reyndar vissi ég ekki þá að ég myndi fara í einangrun, ég fór heim úr vinnunni af því að ég var eitthvað slöpp en ætlaði svo að mæta í vinnu daginn eftir. Keypti þess vegna ekkert sérstaklega inn fyrir sóttkví en ákvað að gera helgarinnkaupin með pöntun úr Nettó þennan dag af því að þá væri ég heima. Hún kom upp úr hádegi. Svo var ég enn slöpp morguninn eftir, fór ekki í vinnuna – og þann dag var sett á samkomubann og ég ákvað að vera heima fyrst um sinn. Það var ekki fyrr en á sunnudag sem mér datt í hug að athuga hvað ég gæti komist lengi af án þess að kaupa inn, hélt það yrðu kannski tvær vikur – en þær eru semsagt orðnar fimm og verða sennilega sex. En kannski ekki fleiri, ég sé til.
Ég var ágætlega birg af grænmeti og ávöxtum (eins og ég er svosem alltaf) þegar ég hóf einangrunina …
… en það er dálítið mikið farið að ganga á það. Eftir eru tvær bökunarkartöflur, ein sæt kartafla, ein og hálf hnúðkálshnyðja, einn rauðlaukur (eða þrír fjórðu, ég notaði einn fjórðung áðan), nokkrir sellerístönglar, mjög ræfilslegur biti af rauðkálshaus, tveir jarðskokkar og þrjár radísur. Eitthvað get ég nú samt gert úr þessu næstu daga.
En ég átti nóg af rísottógrjónum og nokkrar og datt í hug að búa til rækjurísottó. Fannst samt að eitthvað vantaði og þetta eitthvað var ekki í grænmetisskúffunni svo að ég leit í niðursuðudósasafnið og sá spergildós. Grænir spergiltoppar og stönglar af tegund sem ég vissi að myndu líklega ekki fara alveg í mauk í suðunni. Ég nota reyndar sjaldan dósaspergil en nauðsyn brýtur lög. Svo að ég ákvað að gera rækju- og spergilrísottó.
Ég átti líka smábita af parmesanosti, sem er nú eiginlega alveg nauðsynlegur í rísottó. Þetta var reyndar endi sem ég fann á dögunum í ísskápnum, var búinn að vera þar í … hmm, hvenær var ég síðast á Ítalíu? allavega þrjú ár og hann var 30 mánaða þegar ég keypti hann. Þannig að sennilega svona sex ára gamall. Svolítið harður en ekki svo að það mætti ekki tálga hann.
Ég tók fram minn ágæta hraðsuðupott, sem er reyndar líka hægsuðupottur eins og áður hefur komið fram, vegna þess að nú orðið elda ég alltaf rísottó í honum. Ég hef lýst því áður hvað ég geri (og hvernig maður gerir ef svona handy-dandy pottur er ekki til staðar). Grunnurinn er sá sami. Nema núna byrjaði ég á að bræða andafitu (það er ekki mikið eftir af ólífuolíu og smjörið er alveg búið), lét saxaðan lauk og hvítlauk krauma í henni og skar niður einn sellerístöngul og setti út í ásamt svolitlu timjani, pipar og salti.
Á meðan hitaði ég 750 ml af vatni að suðu og vigtaði 200 g af arborio-grjónum. Setti grjónin út í pottinn og hrærði vel. Hellti svo hvítvínsskvettu út í (hálfu glasi undir venjulegum kringumstæðum en ég er að treina hvítvínsbirgðirnar, það þarf að vera eitthvað til handa mér að drekka með rísottóinu) svo að það var eitthvað minna. Hrærði vel og lét sjóða aðeins niður og svo hellti ég vatninu út í, bætti við 1 tsk af grænmetiskrafti og svo innihaldinu úr spergildósinni. Þar gerði ég reyndar mistök, ég sturtaði öllu úr dósinni út í án þess að minnka vatnið (og ég hafði einmitt notað meira en venjulega til að bæta upp hvítvínsleysið) svo að rísottóið varð fullblautt. En það bjargaðist.
Svo lokaði ég pottinum og stillti hann. Það tekur nokkrar mínútur að ná upp þrýstingi en sjálf suðan tekur bara 7 mínútur í þrýstipotti. Og þegar potturinn var búinn að hleypa af sér gufunni, hellti dálitlu soði af rísottóinu þegar ég sá hvað það var blautt (auðvitað fer dálítið af bragðinu með en þetta rísottó var samt alveg nógu bragðmikið) og hrærði svona 2-3 msk af parmesanosti saman við.
En já, ekki má gleyma rækjunum. Ég var búin að láta svona 175 g af risarækjum þiðna og kryddaði þær með pipar og salti, snöggsteikti þær í olíu við háan hita – svona 1 1/2 mínútu á hvorri hlið og raðaði þeim ofan á rísottóið. Stráði dálitlum háöldruðum parmesanosti yfir og puntaði með timjani úr eldhúsglugganum.
Og hvítvínsglas með, auðvitað.
*
Rísottó með rækjum og spergli
1 msk andafita (eða smjör eða olía)
1/4 laukur
1 hvítlauksgeiri
1 sellerístöngull
2-3 timjangreinar
pipar og salt
100 g arborio-grjón
600 ml vatn
1 tsk grænmetiskraftur
1 lítil dós grænn spergill (minnka vatnið ef lögurinn er notaður)
parmesanostur
200 g risarækjur, hráar en skelflettar