Ég er heima hjá mér í sóttkví, eða reyndar nær algerri einangrun. Ekki vegna þess að ég sé með covid-19-smit eða hafi komist í snertingu við einhvern smitaðan – nei, þetta er algjörlega sjálfskipað, einfaldlega vegna þess að ég er ekkert unglamb og er með undirliggjandi kvilla sem setja mig í áhættuhóp. Svo að ég ætla að reyna að forðast smit eins og mér er unnt, ekki bara mín vegna, heldur líka til að gera mitt til að draga úr álagi á heilbrigðiskerfið. Ég á nefnilega mjög auðvelt með að einangra mig, mun auðveldara en margir aðrir; ég get unnið heima, er vön að vera ein, þarf enga hjálp við neitt en það er heldur enginn sem þarf sérstaklega á mér að halda.
Og fyrst ég er nú að þessu, þá ákvað ég líka að gera matartengda tilraun – eða hvað á að kalla það: mig langar til að komast að því hvað ég kemst lengi af með það sem ég á í ísskápnum og frystinum og skápum og skúffum. Nei, ég hamstraði ekki neitt. Ég gerði pöntun hjá Nettó (ég hef í hátt í tvö ár gert mestöll matarinnkaup mín á netinu) á fimmtudaginn, þegar ég byrjaði í sóttkví, en það var bara venjuleg helgarpöntun – kartöflur, blaðlaukur, sveppir, mjólk, rjómi, eitthvað svoleiðis. Jú, og tvær steikur sem ég ætlaði að eiga í frysti en hvorug þeirra var til í búðinni svo að þær komu ekki.
En ég er alltaf vel birg, á margs konar kornvöru, grjón, pasta, bökunarvörur og annað slíkt; safn af niðursuðudósum sem hefur gengið undir nafninu jarðskjálftabirgðirnar síðustu 20 árin eða svo (en er í sífelldri notkun og endurnýjun) og grænmetisskúffan í ísskápnum er eiginlega alltaf full. Ég var reyndar að þrífa hana um helgina og gerði þá birgðakönnun í leiðinni:
Jújú, það er ýmislegt til þarna. Geymsluþolið er auðvitað mismikið. En ég byrja náttúrlega á að nota aðallega það sem endist styst, annað getur alveg legið þarna í einhverjar vikur. Og svo er til slatti af frosnu grænmeti og ávöxtum og ýmiss konar kjöt- og fiskmeti; kannski óvenju lítið af einhverju exótísku núna, en þó …
Þannig að mig langar að sjá hvað ég get gert mér úr þessu á næstunni. Ég reikna með að vera a.m.k. fjórar vikur í einangrun, kannski töluvert lengur. Auðvitað kemur að því að mig fer að bráðvanta eitthvað og þá ætla ég auðvitað annaðhvort að panta hjá Heimkaup eða Nettó eða fá einhvern ættingja minn til að versla fyrir mig og skilja eftir á stigapallinum (til dæmis hefði ég kannski átt að hamstra kaffi en ég á þó einn óopnaðan pakka). En sjáum til. Ég geri það ekki fyrr en full þörf er á.
Það var ekki planið að blogga neitt um þetta en ég hef sett myndir af kvöldmatnum mínum á Facebook og Twitter síðustu daga og var beðin um uppskrift að svepparisottoinu sem ég var með í gær. Svo að kannski nota ég uppskriftirnar í blogg. – Reyndar er þetta ekki alveg einfalt með risottoið því að ég eldaði það í hrað/hægsuðupotti (ég nota hann samt eiginlega bara til þrýstisuðu svo að ég kalla hann hraðsuðupott) sem gefur, merkilegt nokk, næstum sömu útkomu og hefðbundið risotto. Það eru ekki margir sem eiga svoleiðis og þess vegna gef ég leiðbeiningar um hvort tveggja hér. En þetta er ekki mjög nákvæm uppskrift.
Ég er auðvitað að elda fyrir einn. En það er eiginlega ekki hægt að elda svo litinn skammt af risottoi svo að uppskriftin er fyrir tvo eða þrjá. Afganginn notaði ég svo í risottobuff í hádeginu.
Þetta er svepparisotto svo að auðvitað eru sveppir. En það má líka sleppa þeim og nota eitthvað annað … Ég fékk fyrir skömmu þurrkaða kóngssveppi gefins (norður-ítalska, frá konu sem var þar á skíðum – en það var í janúar) og þeir gefa ansi mikið bragð svo að ég tók fáeina, setti þá í skál, hellti dálitlu heitu vatni (svona 100 ml) yfir og lét standa í hálftíma.
Svo hitaði ég hraðsuðupottinn (eða venjulegan pott á eldavélarhellu) og setti svona 25 g af smjöri í hann. Skar niður 100 g af ætisveppum og 10-15 cm bút af blaðlauk (eða 1/2 venjulegan) og saxaði 1 hvítlauksgeira smátt. Lét fyrst lauk og hvítlauk krauma í nokkrar mínútur og setti svo ætisveppina út í, ásamt timjankvisti og einu lárviðarlaufi (það má líka nota þurrkaðar kryddjurtir, eða einhverjar aðrar kryddjurtir eins og rósmarín), kryddaði með pipar og dálitlu salti og lét krauma áfram smástund. Hitaði á meðan svona 650 ml af vatni í skaftpotti og hrærði 2-3 tsk af grænmetiskrafti saman við (nú, eða kjúklingakrafti).
Svo setti ég 200 g af arborio-grjónum (risottogrjónum) út í og hrærði vel til að velta þeim upp úr smjörinu. Hellti svo sirka 75 ml af hvítvíni yfir (hvítvín er eiginlega nauðsynlegt í risotto en það má samt alveg nota vatn og kannski örlítinn sítrónusafa) og lét það sjóða nærri alveg niður. Að lokum saxaði ég þurrkuðu sveppina og setti út í ásamt vatninu sem þeir höfðu legið í.
Hingað til hefur þetta allt verið eins þótt eldunarílátin séu mismunandi en nú skilur leiðir.
Nú hellti ég nefnilega öllu soðinu í hraðsuðupottinn, lokaði honum, stillti á risotto og kveikti. Og þurfti ekki að gera meira. Hellti bara hvítvínsskvettu í glas og settist inn í stofu. Sjálf suðan tekur reyndar ekki nema 7 mínútur en potturinn þarf að hitna og ná upp þrýstingi svo að þetta er nú kannski ekkert fljótlegra en hefðbundna aðferðin. Bara fyrirhafnarminna.
Sé notaður venjulegur pottur byrjar maður á, þegar hvítvínið er soðið niður, að setja eina ausu af soði út í og hræra vel. Það þarf ekki að hræra alveg stanslaust en oft og rösklega, þar til næstum allur vökvi er gufaður upp. Þá setur maður aðra ausu út í og hrærir og þannig áfram, þar til grjónin eru passlega meyr; það gæti tekið svona 20 mínútur. Ef vökvinn virðist ætla að klárast bætir maður bara ögn meira heitu vatni út í. Maður sest semsagt ekkert inn í stofu með hvítvínsglasið, það er bara á eldhúsbekknum við hliðina á eldavélinni til að fá sér sopa við og við.
En svo endar maður þetta nú á sama hátt: rífur svona 50 g af parmesanosti fínt og hefur til 25 g af smjöri. Opnar hraðsuðupottinn, veiðir timjankvist og lárviðarlauf upp úr og hrærir smjörinu og lúkufylli af parmesanosti saman við. Eða setur parmesanost og smjör út í opna pottinn og hrærir vel.
Og svo er bara að bera þetta fram með afganginum af parmesanostinum og kannski ögn af saxaðri steinselju. En það var nú bara af því að hún var aðeins farin að slappast og hefði ekki enst öllu lengra inn í sóttkvína.
Svepparisotto
nokkrir þurrkaðir sveppir (má sleppa en þá kannski krydda ögn meira)
750 ml vatn (þar af 100 til að hella yfir sveppina)
50 g smjör
200 g ætisveppir
10-15 cm bútur af blaðlauk eða 1/2 venjulegur laukur
1 hvítlauksgeiri
timjankvistur og lárviðarlauf (eða aðrar kryddjurtir)
pipar og salt
2-3 tsk grænmetis- eða kjúklingakraftur
200 g arborio-grjón
75 ml hvítvín (eða vatn og sítrónusafi)
50 g parmesanostur
e.t.v. söxuð steinselja
*
Já, og svo gerði ég buff úr afganginum. Skar dálítinn ost í litla bita og blandaði saman við kalt risottoið (það er til að buffin loði betur saman), mótaði buff, velti þeim upp úr hveiti, eggi og raspi og steikti í olíu á pönnu.
[…] ekki eldað nema einn grænmetisrétt, þ.e. súpuna sem ég borðaði á laugardaginn. Já, og svo rísottóið um daginn reyndar. Það var þó ekki vegan en súpan var það. Svo að ég ákvað að nú væri […]
[…] áður hefur komið fram, vegna þess að nú orðið elda ég alltaf rísottó í honum. Ég hef lýst því áður hvað ég geri (og hvernig maður gerir ef svona handy-dandy pottur er ekki til staðar). Grunnurinn er sá sami. […]