Kostir og gallar (en aðallega kostir)

Uppskriftina sem kemur hér einhvers staðar á eftir er hægt að gera í hvaða potti sem er þótt ég gerði hana í nýja hrað-/hægsuðupottinum mínum (hvað á maður annars að kalla svona græju)? Það gildir reyndar um allt sem ég hef gert í honum – það er alveg hægt að nota uppskriftirnar þótt maður noti öðruvísi ílát og aðferðir til eldunar, það tekur bara lengri tíma. Eða reyndar ekki endilega, en potturinn hefur vissulega reynst mjög þægilegur og í þeim tilvikum þar sem hann hefur ekki stytt tímann neitt sem heitir hefur hann vissulega bætt það upp í þægindum.

Nú er ég semsagt búin að eiga hann í rúma viku og hef eldað í honum daglega og ég verð að segja að ég sé ekkert eftir kaupunum. Það þýðir ekki að ég mæli með að allir fái sér svona eða haldi að hann henti öllum. Það er alls ekki svo. En ég ætla að segja ykkur aðeins frá reynslu minni hingað til og kostum og göllum við pottinn.

Potturinn minn er Sage Fast Slow Pro en flest sem um hann má segja á alveg eins við um aðra svipaða, eins og Instant Pot, sem er þekktastur og hefur stundum fengist í Costco, og Crock-Pot sem fæst í Elko. Í búðum erlendis þar sem allir þessir pottar fást er Sage langdýrastur. En hann er langflottastur … Hinir virka sjálfsagt alveg eins vel. En mig langaði bara í Sage. Ég hef mjög góða reynslu af Sage matvinnsluvélinni minni og þegar ég rakst á Sage á rosalega fínu tilboði (miðað við fullt verð sko) stóðst ég hann ekki eins og ég sagði frá um daginn.

Ég er búin að segja frá því að ég byrjaði á að elda kjúklingabaunasúpu með beikoni og svo gerði ég osso bucco og síðan svepparísottó.

_mg_5901 _mg_5946  _mg_5967

Þetta var allt mjög fínt og ég hélt áfram og eldaði kjúkling fyrir fjölskylduna – reyndar var ég með þrjá litla og steikti tvo frekar hefðbundið en setti einn í pottinn (brúnaði hann fyrst í pottinum, myndin er af honum þegar búið var að brúna, og setti svo dálítið vatn í pottinn og eldaði kjúklinginn í 25 mínútur (20 hefðu líklega dugað, hann var það lítill) og bar hann fram með hinum. Það voru skiptar skoðanir um hvort væri betra en munurinn þótti lítill. Og um kvöldið tók ég svo bein og afganga af kjúklingunum þremur, setti í þrýstipottinn með grænmeti og vatni og eldaði í klukkutíma og fékk ansi gott kjúklingasoð til að frysta.

_mg_6010  _mg_6017

Ég var ekkert búin að prófa hægsuðuna í pottinum, enda ekki eins spennt fyrir henni, en um helgina tók ég lambaskanka, tvo og tvo, og eldaði þá eftir nákvæmlega sömu uppskrift, sama krydd, grænmeti og allt, nema tveir voru eldaðir í sex klukkutíma og tveir í  hálftíma. Útkoman var mjög svipuð og vinnufélagarnir sem smökkuðu treystu sér fæstir til að skera úr um hvort væri hvað. Og svo átti ég til uxahala, sem ég eldaði í tómatmauki í 45 mínútur (tekur venjulega 3-4 klst. eða meira).

_mg_6056  _mg_6103

Þessi eldamennska hentar einkar vel fyrir vetrarmat – pottrétti, kássur, súpur, seiga kjötbita sem þurfa að malla lengi (eða stutt undir þrýstingi), baunir og þess háttar og það hefur sannarlega viðrað fyrir slíkt að undanförnu. En það er sannarlega hægt að elda fleira og í kvöld gerði ég blaðlauks- og kartöflusúpu – meira um það seinna.

Og hvað finnst mér svo? og nú tala ég bara um þrýstisuðuna/hraðsuðuna því að ég hef aðallega verið að leika mér með hana. Jú, ég get fullyrt að þetta er eitthvað sem ég á eftir að notfæra mér töluvert. Ég elda yfirleitt ekki pottrétti og annað sem þarf langa eldun nema um helgar en með hraðsuðu get ég allt í einu farið að hafa osso bucco eða lambaskanka eða kalkúnaleggi og margt fleira af því tagi í miðri viku. Hins vegar er ekki hægt að elda litla skammta (fast hráefni + vökvi þarf að vera a.m.k. 1 lítri). En ég fæ nú oft fólk í mat og frysti gjarna afganga.

Maður þarf oft að brúna kjöt eða mýkja grænmeti áður en áfram er haldið og það gildir auðvitað um hefðbundna suðu og aðrar eldunaraðferðir líka. Í Sage-pottinum er hægt að gera þetta í pottinum sjálfum á Sear og Saute-stillingunum og ég held að það sama gildi um Instant Pot en sumir svona pottar hita ekki nægilega til að brúna kjöt svo vel sé og þá er hægt að gera það á pönnu. En það sparar uppþvott að gera þetta í pottinum sjálfum – og vel að merkja, það er mjög auðvelt að þrífa innri pottinn, sem er keramikhúðaður (ekki teflon). Bara heitt vatn og svolítill uppþvottalögur.

Þessi hluti af matreiðslunni tekur jafnlangan tíma, hvaða suðuaðferð sem er notuð. En svo er vökva og öðru bætt í pottinn, honum lokað, stillingar valdar og kveikt – og þá kemur það sem sjaldan er nefnt þegar svona pottar eru dásamaðir: fyrst þarf potturinn að ná upp þrýstingi og sá tími (oftast 5-15 mínútur, fer m.a. eftir þrýstingi sem stillt er á og magni) er ekki talinn með. Þannig að sumt er ekki alveg eins fljótlegt og sagt er … En býsna fljótlegt samt.

Stjórnborðið á Sage-pottinum er rosalega einfalt og auðvelt í notkun og hentar held ég jafnt fyrir algjöra byrjendur og þá sem vilja stýra öllu sjálfir (moi). Það eru forstillt inn allmörg prógrömm en á þeim öllum er hægt að breyta bæði þrýstingi (í 10 þrepum, ekki bara High og Low eins og er á mörgum svona pottum og dugir sjálfsagt ágætlega), tímalengd og því hve hratt þrýstingi er hleypt af pottinum (kjötsoð er t.d. best að láta kólna hægt af sjálfu sér en afýmsu öðru er þrýstingi hleypt strax, eða smátt og smátt í gusum). Og öllum stillingum er hægt að breyta eftir að þrýstisuðan er hafin, ef maður skiptir um skoðun. En það þarf ekkert að gera eftir að búið er að loka pottinum og ýta á Start, hann gefur hljóðmerki þegar suðunni lýkur og aftur þegar óhætt er að opna. Ég held reyndar að flestir aðrir svona pottar láti mann bara vita þegar suðunni lýkur og þá þurfi að opna handvirkt fyrir þrýstilokann til að hleypa þrýstingi af.

Af því að uppgufun er nánast engin notar maður oft minni vökva en venjulega en soðið verður samt kannski of þunnt. Þá er hægt að taka kjötið (ef það er kjöt) upp með spaða og stilla á Reduce í nokkar mínútur til að láta soðið sjóða niður. Ég veit ekki hvort sambærileg stilling er á öðrum svona pottum en þetta virkar ágætlega.

Ég elda mjög oft fisk og ég er ekki viss um að potturinn komi að gagni við það (reyndar er hægt að gufusjóða í honum en það er ég ekki farin að prófa) og nú er fiskbrúar að byrja hjá mér svo að líklega nota ég hann minna næsta mánuðinn, nema fyrir meðlæti og þess háttar. En annars sé ég fyrir mér að ég eigi eftir að nota hann töluvert. Sem er ágætt því að ég átti eftir að nefna ókostina. Þeir eru eiginlega aðallega tveir (fyrir utan að maður getur ekki smakkað sig áfram á meðan rétturinn mallar):

  1. Hann tekur pláss. Þetta er 5,7 lítra pottur (algengasta stærði á svona pottum) og þótt hann sé ekkert níðþungur er þægilegast að láta hann standa á eldhúsbekknum ef maður hefur pláss. Ég hef það núna en ekki í neinu eldhúsi sem ég hef áður haft til umráða. En minn er líka svo flottur að ég vil endilega hafa hann uppivið.
  2. Hann kostar. Svona pottar eru ekkert endilega dýrir (Instant Pot kostaði um 13.000 krónur í Costco í fyrra) en Sage er líklega sá dýrasti en líka sá flottasti (var ég búin að nefna að hann er flottur?)  Ég borgaði 32.000 fyrir minn, með flutningskostnaði, innflutningsgjöldum og öllu, en það var sérstakt tilboðsverð svo að hann yrði dýrari ef ég ætlaði að panta hann núna. Ég las góðan slatta af dómum um hann áður en ég ákvað mig og flestir voru sammála um að hann væri bestur (en kannski bara 10% betri en helstu keppinautar) og sögðu eitthvað í líkingu við „the best choice for those that don’t mind paying a premium for quality“

Sem sagt: Ég er mjög ánægð og þetta er græja fyrir mig. En líklega ekki fyrir alla.

Og svo var það uppskriftin, já. Ég er búin að fá nóg af kjötáti í bili svo að ég eldaði blaðlauks- og kartöflusúpu og hafði hana vegan. Uppskriftin er bæði fyrir þrýstipott og venjulegan og tímasparnaðurinn er lítill en þetta var mjög þægilegt. Hún er hugsuð fyrir tvo til þrjá.

_mg_6108

Ég byrjaði á að hita 2 msk af ólifuolíu (á Saute í þrýstipotti en það má líka nota bara þykkbotna pott á eldavélarhellu), Skar svo niður einn frekar lítinn blaðlauk og tvo sellerístöngla og saxaði tvo hvítlauksgeira smátt, setti í pottinn/þrýstipottinn og lét krauma í nokkrar mínútur án þess að brúnast.

_mg_6109

Á meðan flysjaði ég tvær meðalstórar bökunarkartöflur, skar þær í bita og setti þær svo út í ásamt einu lárviðarlaufi (má sleppa), einni teskeið af þurrkuðu timjani, salti og pipar.

_mg_6113

Svo hellti ég 1/2 l af sjóðandi vatni út í (þarf ekki að vera sjóðandi en það flýtir fyrir og ég hita yfirleitt vatn sem ég set í súpur og þess háttar í hraðsuðukatli hvort eð er), lokaði pottinum og stillti hann á 50 kPa og 15 mínútur, það tók svona 5 mínútur að ná upp þrýstingi. Ef ég hefði notað venjulegan pott hefði ég notað heldur meira vatn vegna uppgufunar, hellt því út í og látið þetta malla í hálflokuðum potti í svona 25-30 mínútur. Hrært öðru hverju og bætt við vatni ef þörf hefði verið á. Þegar potturinn var opnaður reyndust kartöflurnar mjög meyrar en ekki komnar í mauk. Ég veiddi lárviðarlaufið upp úr og hellti svo öllu saman í matvinnsluvél.

_mg_6118

… og lét hana ganga þar til allt var orðið að sléttu, silkimjúku mauki. Það tekur 20 sekúndur í vélinni minni, kannski eitthvað lengur í sumum öðrum. Ef þetta á ekki að vera vegan má þeyta dálitlum rjóma saman við, en það er óþarfi.

_mg_6122

Ég smakkaði, bætti við dálitlum pipar og salti (mér finnst gott að pipra svona súpu nokkuð vel), jós henni á disk og skreytti með svolitlu sellerílaufi.

Þetta var ekkert mikið fljótlegra en í venjulegum potti en ég þurfti ekkert að fylgjast með suðunni og það er ekkert í húfi þótt maður gleymi sér – það brennur ekkert við eins og myndi gerast í venjulegum potti (hér er talað af reynslu) og það er náttúrlega mjög hentugt fyrir fólk sem er utan við sig …

*

Blaðlauks- og kartöflusúpa

2 msk ólífuolía

1 blaðlaukur, fremur lítill

2 sellerístönglar

2 hvítlauksgeirar

2 bökunarkartöflur, meðalstórar

1 lárviðarlauf (má sleppa)

1 tsk timjan, þurrkað

pipar

salt

1/2 l vatn (heldur meira ef ekki er notaður þrýstipottur)

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s