Ég hugsa að það sem ég set inn hér næstu dagana muni mótast af því að ég er komin með nýja græju sem ég þarf að prófa og leika mér með. En að vísu bara til mánaðamóta. Þá byrjar nefnilega febrúar = fiskbrúar og ég get ekki ráð fyrir að mér detti í hug margar fiskuppskriftir sem henta fyrir þrýstisuðu eða hægsuðu. Hvorug aðferðin hentar sérlega vel fyrir fisk og það er bara svo margt gott hægt að gera við hann annað. Eða reyndar – nýi potturinn minn er líka gufusuðupottur og þar getur nú fiskur átt vel heima. Svo að hver veit …
En á meðan er ég að prófa aðra hluti. Búin að gera súpu og hægeldaðan kjötrétt og nú var komið að rísottói. Ég var fyrirfram skeptísk; það er sérstök rísottóstilling á pottinum en ég var samt ekki viss um að þetta myndi skila árangri.
Rísottó er eiginlega uppáhalds-notalegheitamaturinn minn og ég hef ekki tölu á því hve oft ég hef staðið við eldavélina (með hvítvínsglas á kantinum) og hrært í rísottói og bætt við vökva smátt og smátt og hrært meira, alveg þangað til rísottóið er tilbúið og passlega al dente. Ég kann vel við það en maður má ekki alltaf vera að því.
Og svo var ég búin að uppgötva að maður getur líka sett allt saman í pott eða eldfast mót með loki og bakað í ofni (sjá mismunandi uppskriftir bæði í Pottur, panna og Nanna og í Beint í ofninn. Það er fínt en áferðin verður ekki nákvæmlega sú sama – samt alveg nógu nálægt, finnst mér.
En ég ákvað að prófa pottinn. Og af því að ég átti bakka af kastaníusveppum og það var ekki von á neinum af sveppahöturunum í fjölskyldunni í mat gerði ég svepparísottó.
Ég byrjaði á að taka pottinn og stilla hann á Saute. Sem er stilling til að láta grænmeti, lauk og þess háttar krauma. Setti svona 25 g af smjöri út í og lét bráðna á meðan ég skar niður 200 g af kastaníusveppum, sem ég setti út í ásamt blöðum af 2 timjangreinum (eða 1/2 tsk af þurrkuðu timjani) og lét kraum í nokkrar mínútur. Bætti svo við hálfum söxuðum lauk og einum fínsöxuðum hvítlauksgeira og lét krauma í 2-3 mínútur í viðbót.
Svo vigtaði ég 200 g af arborio-hrísgrjónum, setti þau út í, lét krauma í 1-2 mínútur og hrærði oft í og hitaði á meðan 600 ml af vatni í hraðsuðukatlinum. Hellti fyrst 75 ml (3/4 dl) af þurru hvítvíni út í og lét sjóða nærri alveg niður (það má líka bara nota aðeins meira vatn og kreista ögn af sítrónusafa út í).
Svo hrærði ég 1 1/2 tsk af grænmetiskrafti saman við sjóðandi vatnið, hellti því yfir og hrærði, kryddaði með pipar og salti og lokaði pottinum.
Stillti svo á rísottóprógrammið. Þrýstingurinn er lægri en í hinu sem ég gerði áður (40 kPa, sem nú er búið að fræða mig um að er sama og 400 millibör) og vatnið og allt hráefnið var sjóðheitt svo að potturinn var ekki nema um 5 mínútur að ná réttum þrýstingi og svo var suðutíminn bara 7 mínútur.
Í þessu prógrammi var þrýstilosunin forstillt á Quick release, sem tók 2-3 mínútur. Þá opnaði ég pottinn, hrærði lófafylli af nýrifnum parmesanosti og svona 25 g af smjöri saman við, smakkaði og bragðbætti með aðeins meiri pipar.
Og þá var rísottóið bara tilbúið og ég bar það fram með með meiri parmesanosti. Og hvítvíni, auðvitað.
Það var hreint ekkert að þessu rísottói. Mér fannst afskaplega lítill munur á því og rísottóinu sem ég geri þegar ég stend við eldavélina og hræri. Það tekur venjulega 22 mínútur (fyrir utan undirbúning og forsteikingu), nú tók þetta svona 15 mínútur. Og ég gat gert annað á meðan. Til dæmis setið inni í stofu með hvítvínsglasið mitt …
Svepparísottó í þrýstipotti
200 g kastaníusveppir (eða venjulegir)
50 g smjör
2 timjangreinar eða 1/2 tsk þurrkað timjan
1/2 laukur
1 hvítlauksgeiri
200 g arborio-hrísgrjón (eða önnur rísottógrjón)
600 ml vatn
75 ml þurrt hvítvín
1 1/2 tsk grænmetiskaftur
pipar
salt
60 g parmesanostur