Undir þrýstingi

Það er orðið nokkuð langt síðan ég fór að velta því fyrir mér að fjárfesta í „multi-cooker“, það er að segja rafmagnspotti sem er bæði hraðsuðupottur (þrýstipottur) og hægsuðupottur – og raunar ýmislegt fleira líka. En það var nú kannski fyrst og fremst hraðsuðu- hlutinn sem ég var spennt fyrir. Ég elda vissulega töluvert með hægsuðu en nota þá fyrst og fremst steypujárnspottana mína, þeir duga oftast ágætlega til hægeldunar. Ég á líka gamlan þrýstisuðupott úr Góða hirðinum, sem ég notaði dálítið um tíma en fannst það svo of mikið vesen. Kannski spilaði það líka inn í að í bókinni Fjöreggið mitt (The Egg and I), sem ég las oft þegar ég var stelpa, áttu slíkir pottar það til að springa og þeyta baunum út um allt eldhúsið og svoleiðis …

En ég lét nú ekkert verða af kaupum; þótt margir séu farnir að framleiða svona potta er ekki mikið úrval af þeim hér þótt Instant Pot hafi stundum fengist í Costco. Af einhverri ástæðu hef ég ekki verið spennt fyrir þeirri tegund þótt ég viti að þeir séu mjög vinsælir og flestir held ég ánægðir með þá. Svo fást víða hægsuðupottar (Crock-Pot og fleiri) og þrýstisuðupottar til að setja á eldavél fást líka, t.d. í Ikea. Og eru örugglega ágætir.

Ég vissi samt alveg hvernig pott mig langaði í: Sage Fast Slow Pro (heitir Breville í Ástralíu og Bandaríkjunum). Virtist fullkomnastur af þeim sem ég hafði skoðað á netinu, langflottastur, og svo er ég svo ánægð með Sage-matvinnsluvélina sem ég keypti í fyrra. Hann fékkst á Amazon í Bretlandi og hægt að fá hann sendan hingað en mér fannst hann bara of dýr miðað við græju sem ég var ekkert viss um hve mikið ég myndi nota.

Svo gerðist það rétt eftir áramótin að ég uppgötvaði að ég var með Amazon Prime-áskrift og var að borga mánaðargjald þar síðan einhverntíma í haust. Ég kannast ekkert við að hafa skráð mig í slíkt en sennilega hef ég gert það óvart … (mér líkt). Allavega, ég gat ekki séð að ég hefði neinn hag af því – allt sem mér leist á eða hélt að ég gæti nýtt mér var „not available in your country“ eða eitthvað svoleiðis og eiginlega allir kostirnir sem taldir voru upp nýttust mér ekki. Svo að ég ákvað að skrá mig úr þessu.

En þá rak ég augun í að Sage Fast Slow Pro pottar voru á tilboði, „Exclusively for Prime Members“. 50% afsláttur af fullu verði. Reyndar bætist við flutningskostnaður og virðisaukaskattur svo að verðið hækkar aftur upp í svipað. En mér fannst þetta samt of gott til að sleppa því … Pottarnir voru ekki til á lager en ég gekk frá pöntuninni til að tryggja mér þetta verð (og þeir hafa núna hækkað töluvert aftur). Og svo skráði ég mig úr Amazon Prime, fannst ég hafa fengið aftur mánaðargjaldið sem ég hafði borgað óvart í einhverja mánuði.

Pottarnir áttu víst ekki að koma aftur fyrr en í febrúar í fyrsta lagi en svo breyttist það og minn kom með DHL í dag: Og ég varð náttúrlega að prófa hann. Í uppskriftabæklingnum sem fylgir eru flestar uppskriftir bæði fyrir hrað- og hægsuðu þótt hráefnið sé nákvæmlega það sama og ég ætla að prófa einhverjar af þeim í báðum útgáfum og bera saman – en ég ákvað samt að byrja á einni hraðsuðuuppskrift til að vígja pottinn.

_mg_5872

Ég kom heim með pottinn rétt fyrir klukkan sex og ákvað að elda kjúklingabaunasúpu og nota þurrkaðar kjúklingabaunir. Venjulega myndi ég annaðhvort leggja baunirnar í bleyti yfir nótt og sjóða svo í kannski einn og hálfan til tvo tíma – eða setja þær beint í pottinn og sjóða í þrjá til fjóra tíma (eða nei, venjulega myndi ég reyndar nota dósabaunir). En allavega:

Ég byrjaði á að þvo innri pottinn og lesa mér aðeins til í notkunarleiðbeiningunum. Svo kveikti ég á pottinum og stillti hann á Sear, stillingu til að brúna og forsteikja. Mér skilst að sumir pottar brúni ekki nógu vel en Sage-potturinn er kraftmikill og innri potturinn húðaður með postulíni en ekki tefloni svo að það ætti ekki að vera vandamál (ef maður setur ekki of mikið í hann í einu, rétt eins og með venjulega potta). Hann var nokkrar mínútur að hitna og á meðan skar ég niður svona 100 g af beikoni, 1 lauk, 3-4 gulrætur og 2 sellerístöngla.

Það má alveg sleppa beikoninu ef maður vill vegan súpu, krydda hana þá bara aðeins meira.

_mg_5876

Potturinn gaf frá sér hljóð þegar hann var orðinn nógu heitur og þá setti ég í hann 2 msk af ólífuolíu. Svo setti ég beikonið út í og steikti í nokkrar mínútur.

_mg_5880

Setti svo lauk, gulrætur og sellerí út í, lét krauma áfram í nokkrar mínútur og hrærði nokkrum sinnum. Svo bætti ég tveimur smátt söxuðum hvítlauksgeirum, 2-3 timjangreinum, 2 lárviðarlaufum,, smáklípu af chiliflögum, pipar og salti út í.

_mg_5883

Svo setti ég 200 g af þurrkuðum kjúklingabaunum (beint úr pokanum) út í og hellti 2 l af vatni yfir. Ég notaði sjóðheitt vatn, sem ég hitaði í hraðsuðukatli eins og ég geri yfirleitt þegar ég bæti vatni í súpur og pottrétti, en það hefði alveg eins mátt vera kalt – þá lengist bara upphitunartíminn.

_mg_5884

Potturinn er með alls konar stillingum – það er hægt að stilla inn ákveðna tegund rétta og þá stillast þrýstingur (og þar með hitastig) og tími sjálfkrafa eftir því, en svo getur maður líka stillt þetta allt handvirkt eftir eigin höfði. Ég ákvað að nota forritaða stillingu svona í fyrsta skipti allavega og stillti á baunir fremur en súpu. Forritaða prógrammið var 30 mínútur, þrýstingur 80 kPa, sem ég veit svosem ekki hvað er (en sama og 12psi, ekki að ég sé neinu nær).

_mg_5886

Og svo ýtti ég á Start. En það þýðir nú ekki að 30 mínútna þrýstisuðutími hefjist strax, neinei. Fyrst þarf potturinn að ná upp þrýstingi, það tók svona 10-15 mínútur. Þá gaf hann frá sér hljóðmerki og byrjaði að telja niður. – Ég hef tekið eftir því að þegar gefinn er upp tími í þrýstisuðuuppskriftum (og ég tala nú ekki um auglýsingum) er nánast aldrei minnst á þennan aukatíma. Ég vissi af honum og reiknaði með viðbótartíma  en einhverjum gæti fundist þetta hálfgert svindl …

_mg_5896

Og eftir hálftíma gaf potturinn aftur frá sér hljóðmerki. En það er samt ekki hægt að opna hann strax, þrýstingurinn þarf að fara niður. Sage-potturinn gefur möguleika á Natural release (lækkun smátt og smátt), Quick pulse og Quick release. Ég hafði ekki athugað þegar ég stillti hann að Natural release var innifalið í forstillingunni sem ég notaði. Það er hins vegar hægt að breyta því og eftir níu mínútur, þegar ég var orðin leið á að bíða eftir matnum, breytti ég í Quick release …

_mg_5899

… og þá var bara svona mínúta þar til ég gat opnað pottinn, spennt að sjá hvernig til hefði tekist. Og hvort kjúklingabaunirnar væru soðnar eftir svona stuttan tíma.

_mg_5901

Og það voru þær. Og allt saman mátulega eldað. Og þetta var bara alveg hreint ágæt súpa, bragðmikil, sjóðheit og nokkuð matarmikil. Tilbúin svona klukkutíma eftir að ég byrjaði undirbúninginn en þar af voru það bara fyrstu 10 mínúturnar sem ég þurfti eitthvað að gera.

Ég sé fram á ýmiss konar tilraunastarfsemi á næstunni.

*

Kjúklingabaunasúpa með beikoni

100 g beikon

1 laukur

3-4 gulrætur

2 sellerístönglar

2 msk ólífuolía

2 hvítlauksgeirar

2-3 timjangreinar (eða 1 tsk þurrkað timjan)

2 lárviðarlauf (má sleppa)

smáklípa af chiliflögum eða cayennepipar á hnífsoddi

pipar

salt

200 g þurrkaðar kjúklingabaunir (eða aðrar baunir)

2 l vatn

 

5 comments

  1. Á heimili æskuvinar míns var til þrýstisuðupottur sem settur var á eldavél. Ég minnist þess ekki að í honum hafi nokkuð verið soðið nema slátur, svið og reyndar baunasúpa (með saltkjöti). Það verður fróðlegt að sjá hvað fleira kemur úr þessum potti.

    Og 80 kílópasköl heita í daglegu tali 800 millibör. Þrýstingurinn í pottinum er sem sagt um 80% yfir andrúmsloftsþrýstingi.

      • Já, allir sem hlusta á veðurfréttir þekkja þau. Reyndar eru veðurfræðingarnir margir komnir yfir í SI-kerfið og tala um hektópasköl frekar en millibör – en það er sem sagt annað nafn á sömu einingu.

  2. Mamma átti pott sem var með þrýstiloki frá Husqvarna og það sem gaf sig í honum á endanum var gúmmíhringur sem var til þéttingar. Hef alltaf séð eftir þessum potti sem hún notaði í nær tuttugu ár. Fékk mér svona pott, franskan að mig minnir og hann gafst vel. Vantreysti svona sjálfstæðum pottum með tölvugumsi að utan en þetta eru þarfatæki.

    • Já, gömlu Husqvarna-pottarnir voru fínir. Ég á gamlan þrýstipott, ekki Husqvarna þó, og notaði hann dálítið um tíma en fannst fullmikil fyrirhöfn að nota hann af því að maður þurfti eiginlega að vakta hann. Tölvugumsið passar upp á þetta fyrir mann en svo á eftir að koma í ljós hvernig það endist.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s