Um jólin og áramótin gefast áreiðanlega mörg tækifærit til að bera fram gómsæta smárétti af ýmsu tagi, bæði forrétti, partínasl og margt annað, og þá er upplagt að prófa ýmislegt nýtt.
Hér eru hráskinkusneiðar ofnbakaðar þar til þær eru stökkar og notaðar undir fyllingu. Best er þó að setja ekki fyllinguna í bollana fyrr en skömmu áður en þeir eru bornir fram því að hún bleytir bollana smám saman upp. Ef þeir þurfa að bíða eitthvað að ráði mætti þó setja hvern bolla t.d. á kexköku eða hrökkbrauð og festa hann e.t.v. með örlitlum sýrðum rjóma, pestói eða majónesi.
En ég byrjaði á því að hita ofninn í 200°C. Svo var ég með stórar, þunnar hráskinkusneiðar sem ég skar í tvennt.
Svo tók ég múffuform úr málmi – þetta er reyndar fyrir frekar litlar múffur. Það má líka nota litlar, eldfastar skálar eða annað hentugt. Ég hvolfdi forminu og penslaði það með ögn af olíu. Svo lagði ég einn skinkusneiða helming ofan á hvern múffubolla og bakaði í um 5 mínútur, eða þar til skinkan var stökk en ekki farin að brenna. Best er að fylgjast vel með. Það má líka leggja tvo skinkubita ofan á hvern bolla, eða skipta ekki skinkusneiðunum, heldur brjóta þær saman í miðju. Þannig fær maður þykkari og sterkari bolla.
Ég létskinkubollana kólna örlítið en losað9 þá svo gætilega og létþá kólna alveg á grind. Þeir verða óreglulegir en þannig eiga þeir líka að vera.
Ég var með einn geira af vatnsmelónu og annan af hunangsmelónu en það má nota aðrar tegundir (eða bara eina tegund). Ég skar melónurnar í litla teninga og skar líka 125 g af ferskum mozzarellaosti í teninga og setti melónur og ost í skál.
Ég blandaði lófafylli af söxuðum basilíkublöðum saman við, kryddaði með pipar, hellti 1 msk af góðu balsamediki yfir og blandaði vel.
Svo setti ég 1 msk af blöndunni í hvern skinkubolla og skreytti með aðeins meiri basilíku (eða öðrum kryddjurtum).
*
Skinkubollar með melónu- og mozzarellafyllingu
20-24 stk.
10-12 stórar, þunnar hráskinkusneiðar
olía til penslunar
geiri af vatnsmelónu
geiri af hunangsmelónu
125 g ferskur mozzarellaostur
lófafylli af basilíku
svolítill pipar
1 msk gott balsamedik
dvergbasilíka eða aðrar kryddjurtir
e.t.v. kex eða hrökkbrauð