Þrumuréttur

Barasta þrumur og eldingar, það munar ekki um það … Núna er veður og árstími fyrir góðan pottrétt og þá dettur mér í hug þessi norðurafríski lambapottréttur sem ég gerði í fyrravetur. Litirnir í honum fríska sannarlega upp á vetrarmyrkrið og hann hlýjar í slagviðrinu.

Ég hef stundum tautað eitthvað um að þegar maður kaupir lambagúllas sé það skorið í of smáa bita en í þessum rétti finnst mér reyndar best að kjötið sé sé skorið fremur smátt. Ég var hérna reyndar með bita af læri sem ég skar sjálf niður en annars fæst lambagúllas nú mun víðar en áður. Þetta voru svona 600 g af kjöti.

IMG_7448

Ég byrjaði á að rífa börkinn af einni sítrónu fínt í skál, kreisti safa úr hálfri sítrónu yfir og hrærðu 2 msk af ólífuolíu, 2 tsk af kummini, 1 tsk af kóríanderdufti, 1/2 tsk af túrmeriki, 1/2 tsk af kanel, pipar og salti saman við. Setti kjötið út í, blandaði vel og lét standa í a.m.k. 1 klst. (má vera í kæli yfir nótt).

IMG_7449

Svo hitaði ég ofninn í 170°C. Saxaði 2 lauka og 2 hvítlauksgeira, hitaði  2 msk af olíu í steypujárnsfati (það má líka nota eitthvert annað eldfast fat sem setja má á eldavélarhellu, steypujárnspott, nú eða bara pönnu) og lét lauk og hvítlauk krauma í nokkrar mínútur án þess að brúnast.

IMG_7452

Þá tók ég laukinn upp með gataspaða, setti á disk og lét til hliðar. Setti kjötið í fatið (eða á pönnuna) og brúnaðu það létt á öllum hliðum.

IMG_7453

Svo setti ég laukinn aftur aftur saman við, ásamt tveimur söxuðum sellerístönglum, hellti 400 ml af sjóðandi vatni yfir, setti lok á fatið/pottinn (það má líka bara breiða álpappír þétt yfir, og ef steikt var á pönnu má hella öllu saman yfir í eldfast fat með loki), setti það í ofninn og lét malla í 45 mínútur.

IMG_7629

Á meðan flysjaði ég butternut-grasker (svona 800 g), fræhreinsaði það og skar í bita, 3–4 cm á kant.  Tók svo fatið út, dreifði butternutbitunum í það, setti lokið aftur á og réttinn krauma í 30–40 mínútur í viðbót, eða þar til allt var orðið vel meyrt. Þá dreifði ég svona 150 g af spínati yfir og lét malla undir loki í 3–4 mínútur.

IMG_7700

Að lokum hrærði ég í til að blanda spíantinu saman við og bar réttinn svo fram, t.d. með soðnu bulgurkorni, kúskús eða hrísgrjónum.

*

Norðurafrískur lambakjötspottréttur

600 g lambagúllas

1 sítróna

4 msk ólífuolía

2 tsk kummin

1 tsk kóríanderduft

1/2 tsk túrmerik

1/2 tsk kanell

pipar og salt

2 laukar

2 hvítlauksgeirar

2 sellerístönglar

400 ml vatn

800 g butternut-grasker

150 g spínat

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s