Og þá er kominn fiskbrúar

Það er kominn febrúar. Og hann verður fiskbrúar hjá mér eins og undanfarin ár, fiskur og fiskmeti upp á hvern dag. Eða kannski ekki alveg, ég er að fara í aðgerð á hné um miðjan mánuðinn og veit svosem ekki hvernig mér gengur að verða mér úti um fisk fyrst á eftir. Og kannski verður ekkert auðvelt að elda heldur. En það kemur nú í ljós.

Vinstra hnéð og ég erum semsagt búin að gefast upp hvort á öðru eftir margra ára erfiða sambúð svo að það á að skipta því út. Hnjáliðnum alltsvo. Hægra hnéð er í fínu lagi og ég er með þá kenningu að þetta megi allt rekja til þess að ég stakk búrhníf sem ég hafði tekið í óleyfi á kaf í vinstra hnéð þegar ég var sirka átta ára og sat uppi á fjárhúsþaki að flá hrossalappir. Það er eina örið sem ég er með á öllum skrokknum – en það reyndar á nú eftir að breytast þegar skipt verður um liðinn – og ég er viss um að þetta hefur valdið óbætanlegum skaða á hnénu. (Eða sennilega ekki, þar sem hnéð var vissulega til friðs í meira en þrjátíu ár eftir óhappið – en samt …) Allavega hef ég ekki flegið hrossalappir síðan, það er háskaleg iðja.

En þetta var náttúrlega útúrdúr því að ég ætlaði að skrifa um fisk. Eða bara koma með fiskuppskrift og nú kemur nýi potturinn minn ekkert við sögu. Þvert á móti, ég notaði meira en hálfrar aldar gamla Husqvarna-pönnu sem er mikið þing.

Ég átti bita af þorskflaki og ákvað að hafa kvöldmatinn snemma til að ná svolítilli birtu – mér finnst alltaf miklu meira gaman að taka myndir í dagsbirtu. (Hér gæti ég þusað heilmikið um klukkubreytingar, sem myndu takmarka verulega þann tíma sem ég hef til matarmyndatöku stóran hluta ársins, en ætla nú ekki að gera það samt.)

_MG_6127

Ég byrjaði á að blanda saman 1 msk af sesamfræi, 1 msk af fræblöndu (salatblöndu; graskersfræ, sólblómafræ og furuhnetur, en það mætti líka nota t.d. bara graskersfræ), 1/2 tsk af kummini, pipar og salti.

_MG_6129

Ég skar svo fiskinn í bita og velti þeim vel upp úr blöndunni.

_MG_6133

Hitaði 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á pönnu, setti fiskinn á hana og steikti hann í svona 3 mínútur við meðalhita áður en ég sneri stykkjunum við.

_MG_6137

Þegar ég var búin að því hellti ég einni dós af haricot-baunum (nú, eða einhverjum öðrum baunum) í sigti og dreifði þeim síðan á pönnuna (ef eitthvað af fræjum og kryddi var eftir á diskinum er fínt að setja það á pönnuna líka) og svo hafði ég skotist út á svalir, ýtt snjónum ofan af grænkálinu sem enn er þar og tekið eitt eða tvö blöð sem ég skar niður og dreifði á pönnuna. En þess þarf svosem ekki. – Ég lét þetta malla í svona þrjár mínútur í viðbót, eða þar til fiskurinn var rétt eldaður í gegn.

_MG_6152

Svo bar ég þetta bara fram með salati og sítrónubát. Alveg ljómandi gott og tók innan við tíu mínútur allt í allt.

*

Fræhjúpaður fiskur

400 g þorskur (eða annar hvítur fiskur)

1 msk sesamfræ

1 msk fræblanda (eða t.d. graskersfræ)

1/2 tsk kummin

pipar

salt

1 msk olía

1 msk smjör

1 dós haricot-baunir eða aðrar baunir eftir smekk

e.t.v svolítið grænkál (eða spínat)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s