Skötuselur er sælgæti

Hluti af fjölskyldunni kom í mat í kvöld og að sjálfsögðu gaf ég þeim eitthvað úr sjónum, það er jú fiskbrúar. En þar sem ég er hálflasin og komst ekki í fiskbúð en átti humar í frysti eldaði ég humarrísottó sem hlaut góðar undirtektir. Uppskriftin kemur kannski á morgun en í staðinn er hér uppskrift að öðrum fiskrétti sem ég eldaði um síðustu helgi.

Ég kom við í Nóatúni, einmitt af því að það er fiskborð þar – það þarf sko ekki fiskbrúar til að ég sé með fisk í matinn – og þar rak ég augun í þennan fallega skötusel. Maður sér hann nú ekki mjög oft í fiskborðum og ég stóðst hann ekki þótt hann væri sosum ekki ódýr. Og þegar ég hugleiddi meðlætið mundi ég að ég átti bæði ananas og vel þroskað mangó heima.

_MG_5838

Fiskurinn var um eitt og hálft kíló, hentar fyrir svona sex manns en auðvitað er hægt að gera minni skammt. Ég byrjaði á að skera burt beinið og rífa himnurnar af skötuselnum og svo skar ég hann í bita.

_MG_5842.jpg

Ég setti 3 msk af ólífuolíu í skál og bætti svo við 1 tsk af túrmeriki, 1 tsk af garam masala, 1 tsk af kummini, pipar og salti og hrærði þetta saman. Velti svo fiskbitunum upp úr blöndunni og lét þá liggja nokkra stund – kannski svona hálftíma. Á meðan flysjaði ég hálfan ananas og eitt mangó og skar í bita.

_MG_5849

Svo hitaði ég pönnu, setti fiskinn á hana og brúnaði þá á báðum hliðum við góðan hita. Það þarf ekki aðra olíu en þá sem er í kryddleginum. Ég skar líka niður einn kúrbít og tvær paprikur og steikti á annarri pönnu (ef maður er að gera minni skammt er hægt að setja allt á sömu pönnuna.

_MG_5853

Ég steikti líka ananasinn og mangóið á enn einni pönnu (já, ég veit, ég á ótal pönnur – en ef maður á það ekki er hægt að byrja á að steikja grænmetið og setja það svo á disk og geyma og steikja ávextina á sömu pönnu). Ég steikti líka einn vorlauk með en það er í sjálfu sér óþarfi.

_MG_5852

Þegar ég var búin að brúna fiskinn hellti ég einni dós af kókosmjólk og 150 ml af rjóma á pönnuna, ásamt afganginum af kryddleginum ef einhver er, og lét malla rólega þar til fiskurinn var rétt eldaður í gegn. Heildareldunartíminn gæti verið svona 8-10 mínútur, eftir stærð og þykkt stykkjanna.Ef sósan verður of þykk má bæta við dálitlu vatni. Svo setti ég grænmetið á pönnuna, smakkaði og bragðbætti eftir þörfum og bar þetta fram á pönnunni.

_MG_5862

Ég hafði steiktu ávextina sér og bar fram soðin hrísgrjón og salat með.

Ekki sem verst.

*

Karríkryddaður skötuselur með ananas og mangói

1-1,5 kg skötuselur

3 msk ólífuolía

1 tsk túrmerik

1 tsk garam masala

1 tsk kummin

pipar

salt

1 kúrbítur

1-2 paprikur

1/2 ananas

1 mangó

1 vorlaukur (má sleppa)

1 dós kókosmjólk

150 ml rjómi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s