Leitað í frystinum

Þegar svona viðrar og það er helgi reyni ég eftir bestu getu að forðast að fara út fyrir hússins dyr og tekst það venjulega ágætlega. Ekki síst núna þegar maður getur gert flest helgarinnkaup á netinu. Það gerði ég einmitt í gær – pantaði til dæmis humarinn i rísottóið sem ég eldaði úr Nettó ásamt öðru – en ég steingleymdi að gera ráð fyrir fiskmeti í sunnudagsmatinn. Var nú samt nokkuð viss um að ég ætti eitthvað í frysti og minnti allavega að ég ætti þorskflök.

En svo þegar ég fór að leita í morgun fundust engin þorskflök, og raunar fátt úr sjó eða vötnum. Risahörpuskel, jú, en ég ákvað að geyma hana til síðari tíma. Þá var ekki um margt að velja en ég fann samt poka af rækjum, soðnum og skelflettum. Ég kaupi reyndar miklu fremur hráar rækjur, en sá að ég hlyti að geta gert eitthvað úr þessu. Rækjusalat ef ekki vildi betur til. Svo að ég tók svona 150 g af rækjunum og lét þær þiðna í sigti.

En mig langaði samt meira í eitthvað eldað í kvöldmatinn, ekki bara kalt salat. Svo að mér datt í hug að gera rækjubuff (eða rækjulummur).

_MG_6183

Það þarf að vera eitthvað til að halda lummunum saman og þá er brauðmylsna nærtæk. Ég átti ekkert rasp (nema litað gult og rautt sem ég keypti einhverntíma til að nota í myndatöku og hef ekki fundið hjá mér neina löngun til að nota síðan svo að líklega ætti ég að henda því) svo að ég tók tvær sneiðar af grófu brauði og setti í matvinnsluvélina ásamt einum hvítlauksgeira og nokkrum basilíkublöðum (svona tíu eða tólf).

 

Ég lét svo vélina ganga þar til brauðið var orðið að grófri mylsnu (ef maður vill fína mylsnu þarf að þurrka brauðið).

_MG_6185

Þá skar ég tvo vorlauka í bita og setti út í, ásamt svona þremur fjórðu af rækjunum. Bætti við smáklípu af chiliflögum, pipar og salti og lét vélina ganga mjög stutt (notaði púlshnappinn) því að ég vildi ekki hafa þetta mjög smátt – ekki fars allavega.

_MG_6188

Setti þetta svo í skál og bætti við afganginum af rækjunum, 50 g af maískorni og 50 g af grænum baunum (hvorttveggja fryst og má fara frosið eða hálffrosið út í) og tveimur eggjum. Það er reyndar bara eitt á myndinni en þegar ég hrærði þetta saman sá ég að þau þyrftu að vera tvö. Hrærði þetta vel saman og lét standa í 15-20 mínútur, þá dregur brauðið í sig vætuna og blandan tollir betur saman.

_MG_6192

Ef blandan er mjög sundurlaus þegar hún er búin að standa má bæta við ögn meiri brauðmylsnu. Svo hitaði ég svona 4 msk af olíu á pönnu og mótaði frekar lítil buff – ég notaði skeið, kúffyllti hana með rækjublöndu, þrýsti lófanum ofan á og renndi þessu svo gætilega yfir í heita olíuna – það er betra en að hvolfa úr skeiðinni, þá er meiri hætta á að þetta molni í sundur.

_MG_6197

Ég steikti buffin við ríflega meðalhita í svona 3 mínútur og sneri þeim svo gætilega við með spaða og steikti þau á hinni hliðinni. Þetta gætu orðið svona 10-12 buff, fínn skammtur fyrir tvo með meðlæti.

_MG_6211

Ég var búin að sjóða hrísgrjón til að hafa með og gerði chilimajónes – bara majónes og sriracha-sósa eftir smekk, hrært saman.

Litrík og góð buff sem mætti líka bera fram sem fingrafæði í veislu. Svo má auðvitað líka nota hvítt brauð ef manni sýnist svo.

*

Rækjubuff með baunum og maís

150 g rækjur, soðnar og skelflettar

2 brauðsneiðar, grófar eða hvítar

1 hvítlauksgeiri

nokkur basilíkublöð

2 vorlaukar

klípa af chiliflögum

pipar

salt

50 g grænar baunir, frystar

50 g maískorn, fryst

2 egg

olía til steikingar

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s