Ég hef nú ekki staðið mtig alveg nógu vel með fiskuppskriftirnar. Það er fiskbrúar hjá mér og ég hef vissulegan borðað fisk á hverju kvöldi (nema í gærkvöldi, þá voru nýsteiktar kleinur í kvöldmatinn en það er önnur saga) en fiskréttirnir sem ég eldaði mér á mánudag og þriðjudag voru í báðum tilvikum svo líkir einhverju sem ég hef birt uppskriftir að áður að mér fannst ekki ástæða til að koma með þær aftur.
Ég hefði reyndar getað sett inn ýmsar fiskuppskriftir sem ég á óbirtar (á þessum vettvangi allavega). Og ég geri það örugglega á næstunni, ég er jú að fara í aðgerð um miðja næstu viku og veit ekkert hversu dugleg ég verð að elda fyrst á eftir. En ég var allavega þokkalega hress þegar ég kom heim í dag. Ákvað að gera eitthvað mjög fljótlegt því að klukkan var nærri orðin hálfsex og lítið eftir af birtu – eins og oft hefur komið fram vil ég langhelst nota dagsbirtu við myndatökur.
Ég átti bleikjuflak, sem tekur nú ekki langan tíma að steikja, og svo ákvað ég að gera kúskús, sem er nú með fljótlegasta meðlæti sem hægt er að hafa – allavega ef það á að vera heitt, auðvitað er hægt að gera ýmis salöt og fleira slíkt á enn styttri tíma. En þetta var komið á borðið innan við 15 mínútum (líklega nær 10) eftir að ég kom heim.
Ég byrjaði á að hita pönnuna (reyndar notaði ég ílangt steypujárnsmót en flestir myndu nú bara nota pönnu) og kryddaði bleikjuna með reyktri papriku (má nota venjulega), pipar og salti. Ég setti líka 150 ml af kúskús í skál og hellti yfir sjóðandi vatni í samræmi við leiðbeiningar á umbúðum, setti disk/lok yfir og lét standa í nokkrar mínútur.
Ég hellti svo 1 msk af olíu í formið (pönnuna) og setti svo bleikjuna í það með roðhliðina upp. Steikti hana við góðan hita í 2-3 mínútur, eða þar til hún hafði tekið góðan lit, og þá renndi ég pönnukökuspaða undir hana og sneri henni við.
Ég var búin að skera hluta af tveimur paprikum (svona fjórðung af hvorri) í litla bita, ásamt einum vorlauk, og setti það á pönnuna þegar ég var búin að snúa bleikjunni. Þegar bleikjan var rétt steikt í gegn tók ég hana af pönnunni og setti á disk en steikti grænmetið aðeins lengur.
Á meðan hrærði ég upp í kúskúsinu með gaffli, kryddaði með pipar, salti og safa úr svona hálfri sítrónu og hrærði 1 msk af ólífuolíu saman við. Svo hellti ég grænmetinu af pönnunni (ásamt olíunni sem því fylgdi) út í og hrærði.
Blandaði að lokum lófafylli af salatblöðum saman við, setti á disk/lítið fat og lagði bleikjuflakið ofan á.
Gott, fljótlegt og bara nokkuð hollt (ekki veitir af til mótvægis við kleinurnar í gær). Ætti að duga fyrir tvo. Eða allavega tvisvar í matinn handa mér.
*
Steikt bleikja með kúskús
1 bleikjuflak, 300-350 g
1/2 tsk reykt paprikuduft
pipar
salt
2 msk olía
150 ml kúskús
sjóðandi vatn eftir þörfum
1/4 rauð og 1/4 gul eða appelsínugul paprika
1 vorlaukur
1/2 sítróna
1 msk ólífuolía
lófafylli af salatblöðum