Ketóbuff

Ég veit, ég var með buff fyrir nokkrum dögum – en þessi eru reyndar allt öðruvísi. Að þessu sinni notaði ég túnfisk úr dós í buffin og enga brauðmylsnu, hveiti eða annað slíkt svo að líklega eru þessi buff frekar mikið ketó ef þið eruð í þeim gírnum … en allavega, þau eru fljótleg og ódýr.

Ég var bara að elda fyrir sjálfa mig svo að þetta er lítill skammtur, passar fyrir einn og afgangur til að hafa t.d. í nestið daginn eftir. En svo er ekkert mál að stækka uppskriftina. Eins má nota eitthvert allt annað grænmeti með og það þarf ekkert að steikja það á pönnunni. Ég hafði enga sósu, sá ekki ástæðu til, en það er tilvalið að gera kalda sósu úr jógúrt eða sýrðum rjóma og t.d. söxuðum kryddjurtum.

Ég notaði túnfisk í olíu eins og ég geri yfirleitt, finnst hann betri en túnfiskur í vatni, en það má alveg nota hann líka.

_MG_6319

Ég saxaði smábita af chilialdini, einn vorlauk og lítinn hvítlauksgeira og setti í matvinnsluvélina ásamt kúfaðri matskeið af majónesi (heimagert er best en ég notaði nú bara Hellman’s), einu eggi, pipar og salti og lét vélina ganga þar til allt var komið í mauk.

_MG_6321

Þá opnaði ég eina dós af túnfiski, hellti olíunni af honum  og setti hann út í, ásamt nokkrum steinseljublöðum. En það má nú alveg sleppa þeim. Ég kreisti líka safa úr einum sítrónubát út í. Ég lét vélina ganga mjög mjög stutt (langbest að nota púlshnappinn, ef svoleiðis ér á vélinni) því að ég vildi ekki að túnfiskurinn færi alveg í mauk. (Nei, ykkur missýnist ekki, hnífurinn í matvinnsluvélinni er tvöfaldur, þ.e. með fjórum blöðum.)

_MG_6323

Ég smakkaði blönduna og bragðbætti eftir þörfum. Hitaði svo 2 msk af olíu á pönnu, setti túnfiskmaukið á hana með matskeið og flatti buffin ögn út með skeiðarblaðinu. Þetta ættu að verða 5-6 buff.

_MG_6328

Ég var búin að skera svona 75 g af spergilkáli í litla kvisti og dreifði þeim á milli buffanna. Steikti þetta við meðalhita í svona 3-4 mínútur áður en ég sneri buffunum við (og spergilkálinu líka).

Þegar ég var búin að snúa buffunum við dreifði ég svona 50 g af maískorni á pönnuna og steikti áfram í nokkrar mínútur, þar til buffin voru fallega brún á báðum hliðum og grænmetið meyrt og heitt í gegn.

_MG_6345

Bar svo buffin og grænmetið fram með salatblöðum.

*

Túnfiskbuff með spergilkáli og maís

1 dós túnfiskur

smábiti af rauðu chilialdini

1 vorlaukur

lítill hvítlauksgeiri (eða 1/2 stór)

kúfuð matskeið af majónesi

1 egg

pipar

salt

nokkur steinseljublöð (má sleppa)

sítrónubátur

2 msk olía

75 g spergilkál

50 g maískorn (fryst eða niðursoðið)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s