Þorskur og sveppir

Ég hélt ég hefði verið búin að leita af mér allan grun í frystinum og þar væri ekkert fiskakyns til nema hörpuskel og rækjur. Hvort tveggja er afbragðsgott en mig langaði meira í hvítan fisk akkúrat í dag og hélt ég þyrfti að bregða mér í búð. En svo þegar ég var að sækja annað í frystinn í morgun kom þorskpakki upp í hendurnar á mér; tvö flök af smáþorski  – þyrsklingi – sem ég hafði einhverntíma keypt af nágranna mínum þegar hann var að selja fisk ódýrt. Ég keypti nokkra pakka þótt ég sé sjaldan með frosin fisk (hann þarf samt alls ekki að vera verri), var búin að elda hina og þetta var fínasti fiskur. Svo að ég tók þennan bita og lét hann þiðna.

Þegar ég fór að velta fyrir mér hvað ég ætlaði að gera við hann mundi ég að ég átti sveppi – kastaníusveppi – sem voru aðeins farnir að láta á sjá. Þeir verða sannarlega ekki verri við það en samt var líklega komið að því að nota þessa, svo að ég ákvað að gera eitthvað úr þorski og sveppum. Reyndar var ég fyrst að velta fyrir mér að gufusjóða þorskinn (það er gufusuðustilling á nýja þrýstipottinum mínum sem ég er ekkert farin að prófa enn) en svo langaði mig samt meira í pönnusteiktan fisk. Þið hafið örugglega tekið eftir því en þegar ég elda fisk steiki ég hann langoftast á pönnu. Einfaldast, fljótlegast og best …

_MG_6378

Ég byrjaði á því að skera 200 g af kastaníusveppum í sneiðar og saxaði svo 1/2 rauðlauk (má líka vera venjulegur) og 1 hvítlauksgeira og tók líka blöðin af nokkrum timjangreinum. Það má nota 1/2 tsk af þurrkuðu timjani eða nota aðrar kryddjurtir eða krydd.

Ég bræddi 25 g af smjöri á pönnu, setti sveppi, rauðlauk, hvítlauk og timjan á hana, kryddaði með pipar og salti og steikti þetta við meðalhita í nokkrar mínútur; hrærði oft í á meðan.

Svo tók ég fiskinn – þetta voru semsagt tvö lítil flök en það má auðvitað nota eitt stærra. Ég braut stirtluna á hvoru flaki inn undir til að hafa þynnri hlutann af flökunum tvöfaldan, vildi ekki hafa bitana of þunna. Skar hvort flak svo í tvennt og kryddaði með pipar, salti og þurrkuðu óreganói,

_MG_6385

Svo ýtti ég sveppablöndunni út til hliðanna á pönnunni, bætti 25 g af smjöri í viðbót á hana, hækkaði hitann ögn, setti fiskinn á pönnuna og steikti hann í svona 2 mínútur á annarri hliðinni, áður en ég sneri honum við.

_MG_6390

Ég lét fiskinn steikjast í svona 1 mínútu í viðbót áður en ég hellti 125 ml af rjóma á pönnuna, lét suðuna koma upp, lækkaði svo hitann og lét þetta malla í svona 2-3 mínútur, eða þar til fiskurinn var rétt eldaður í gegn og sósan farin að þykkna. Ég smakkaði hana og bætti við ögn af pipar og salti.

Ég var búin að sjóða perlubygg (en það mætti líka nota t.d. hrísgrjón, eða eitthvert hentugt grænmeti ef maður vill sleppa kolvetnunum) og bar fiskinn og sveppina fram með því, ásamt grænum salatblöðum.

_MG_6425Þetta var bara hreinasta afbragð. Dugði í kvöldmatinn handa mér og nesti fyrir morgundaginn.

*

Steiktur þorskur með sveppum

250 g þorskur (eða annar hvítur fiskur)

200 g sveppir

1/2 lítill rauðlaukur

1 hvítlauksgeiri

nokkrar timjangreinar eða 1/2 tsk þurrkað timjan

pipar

salt

50 g smjör

1/4 tsk óreganó, þurrkað

125 ml rjómi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s