Hálfgert carbonara – með laxi

Ég ákvað að elda pasta, sem ég geri nú ekki mjög oft, allavega ekki nú orðið. En ég var að flýta mér, langaði í eitthvað frekar einfalt og átti bita af reyktum laxi. Sem vissulega er fiskur svo að það passaði inn í fiskbrúarþemað. Svo að reyklaxpasta var niðurstaðan.

Reyndar komst ég að því þegar ég gerði óformlega könnun á Facebook í fyrra að ég er ekki ein um það að elda sjaldnar pasta en ég gerði. Sumir sem svöruðu elduðu auðvitað oft pastarétti, aðrir höfðu aldrei eldað mikið af pastaréttum – en það voru líka ansi margir sem tóku undir það með mér að þeir elduðu mun sjaldnar pasta en fyrir 10-20 árum eða svo. Það geta svosem verið ýmsar ástæður – aukið úrval af öðru hráefni, til dæmis (alls konar korn og grjón og fleira), sem er kannski meira spennandi. Svo eru auðvitað margir sem vilja forðast glúten eða hveiti eða kolvetni og sneiða þar af leiðandi hjá öllu pasta. Og svo er þetta auðvitað spurning um tísku líka – pastaréttir þykja sumir frekara gamaldags og það á reyndar held ég ekki síst við rétti þar sem pastað er í rauninni ekki ýkja stór hluti af réttinum. Síður við pastarétti sem eru bara það. Pastaréttir. Eins og til dæmis cacio e pepe eða aglio et olio, sem ég held hvort tveggja frekar upp á. Þar sem pastað sjálft er málið þótt annað hráefni gefi bragðið.

En allavega, pasta getur verið alveg ágætt, sérstaklega ef ekki er verið að hrúga tuttugu öðrum hráefnum saman við. Ég hefði reyndar alveg getað sleppt ólífunum og jafnvel steinseljunni í þessum rétti. Og þó …

Þetta er skammtur fyrir tvo (ekki mjög svanga) eða fyrir mig og afgangur í nestið á morgun, svo að ég byrjaði á að hita vatn að suðu, salta það og setja svona 150 g af penne rigate út í. Ég notaði penne af því að það var til en ef ég hefði átt skeljar (conchiglie) hefði ég frekar notað þær því að þær henta betur fyrir þessa tegund af pasta – halda betur í sér sósunni og laxabitarnir hreiðra um sig í skeljunum.

_MG_6499

Pastað þurfti ellefu mínútna suðu og það dugir vel til að gera afganginn. Ég byrjaði á að bræða 25 g af smjöri á lítilli pönnu (eða í potti) og þegar smjörið var bráðið setti ég 1 vænan hvítlauksgeira, smátt saxaðan, og 5-6 svartar ólífur, skornar í sneiðar, á pönnuna, lét krauma í svona hálfa mínútu og slökkti svo undir pönnunni.

Svo braut ég tvö egg í skál og hrærði 100 ml af rjóma saman við, ásamt pipar og salti. Beið eftir að pastað væri alveg að verða soðið  (á meðan skar ég 100 g af reyktum laxi í litla bita og saxaði lófafylli af steinselju) og hrærði þá hvítlaukssmjörinu og ólífunum saman við.

_MG_6508

Svo hellti ég pastanu í sigti og sturtaði því svo beint út í eggjablönduna í skálinni og hrærði vel.

_MG_6511

Blandaði að lokum laxinum og steinseljunni saman við.

_MG_6519

Og þá er þetta bara tilbúið. Það má rífa parmesanosti yfir en ég gerði það nú ekki, kannski er ég bara of ítölsk í mér til að nota ost með fiski. Þetta var alveg ágætt fyrir því.

Og tók 15 mínútur, ef tíminn sem fór í að hita pastavatnið er talinn með.

*

Reyklaxpasta

100 g reyktur lax (tilvalið að nota afskurð)

150 g penne eða annað pasta

salt

25 g smjör

1-2 hvítlauksgeirar

6 svartar, steinlausar ólífur (má sleppa)

2 egg

100 ml rjómi

pipar

lófafylli af steinselju

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s