Ostur, pipar og pasta

Mig var búið að langa í cacio e pepe um tíma og hugsaði alltaf með mér ,,já, ég geri þetta næst þegar ég á pecorino romano“. En svo á ég aldrei pecorino romano og mig langaði meira og meira í cacio e pepe. Svo að á endanum hugsaði ég ,,skítt með það, ég nota bara það sem ég á til“.

Ítalski – eða nánar til tekið rómverski – pastarétturinn cacio e pepe er með því einfaldasta sem hægt er að gera en um leið alveg ótrúlega góður. Engir tómatar eða annað grænmeti, ekkert kjöt, ekkert krydd nema pipar, ekki einu sinni hvítlaukur. Bara pasta, smjör (eða olía), ostur og pipar.

Og svo er þetta fljótlegt, tekur kannski tólf mínútur eða svo. Nema það þarf náttúrlega einhvern tíma til að hita pastavatnið.

Fyrst hitaði ég svona þrjá lítra af vatni að suðu, saltaði það og setti svo pastað út í. Óbrotið. (Ekki nota hitaveituvatn. Til að flýta fyrir hita ég stundum vatn í hraðsuðukatli og bæti í pottinn.) Ég lét svo suðuna koma upp aftur og sauð pastað við meðalhita þar til það var rétt tæplega al dente. Hrærði nokkrum sinnum á fyrri hluta suðutímans.

Image

Nota bara það sem ég á til, sagði ég, og ég átti til Prima Donna og Parmigiano Reggiano. Ég skar vænan bita af hvorum um sig.

Image

Ég reif svo ostinn niður, þarf ekki að vera mjög fínt.

Image

Svo setti ég svona eina matskeið af svörtum piparkornum í mortélið og grófsteytti þau.

Image

Hitaði 2 msk af smjöri og 2 msk af ólífuolíu á pönnu, henti piparnum út í, hrærði og lét piparinn krauma í svona eina mínútu.

Image

Á meðan tók ég svona 200 ml af pastasoðinu frá en hellti svo pastanu í sigti og lét renna af því. Hellti svo helmingnum af soðinu á pönnuna (það er ástæðan til þess að ekki er ráðlegt að sjóða pastað úr hitaveituvatni) og hvolfdi svo pastanu á hana.

Image

Ég hristi pönnuna og hrærði þar til pastað var þakið soði, setti svo ostinn út á og hélt áfram að hrista og hræra þar til osturinn var bráðinn.

Image

Ég bætti mestöllu soðinu sem eftir var á pönnuna en það er ekki víst að þess þurfi; pastað á bara að vera mátulega þakið sósu. Þetta allt tekur kannski 3-4 mínútur.

Image

Og þá er það bara tilbúið og má hvolfa á fat. Basilíkan sem sést í er bara skraut. En auðvitað má krydda þetta með basilíku ef maður vill; það er samt óþarft.

Image

Einfaldara gerist það bara ekki.

Image

En mig vantar ennþá pecorino romano …

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s