Perur og súkkulaði

Ég átti nokkrar litlar perur sem mig langaði til að gera eitthvað úr – helst einhverja köku, ákvað ég. Reyndar var ég líka að velta fyrir mér að gera eitthvað úr perum og vænum hluta af Auðar-osti sem ég á en það strandaði á því að það fékkst ekkert smjördeig í búðinni og ég átti ekkert heima. Svo var ég með aðra hugmynd líka en hún strandaði á því að þurrkofninn minn er í útláni … jæja, þetta bíður hvorttveggja betri tíma, perur eru nú oftast fáanlegar.

Ég var samt ekki viss hvaða kaka yrði fyrir valinu, var að hugleiða bakaða peruostaköku eða peruböku með hunangi og hnetum en svo endaði ég samt á súkkulaðiperuköku. Það var svosem engin nauðlending …

 

Perurnar voru þroskaðar en samt fremur þéttar. Ég ákvað að sjóða þær smástund í sítrónusykurlegi, ekki vegna þess að það væri strangt tekið nauðsynlegt, heldur til að fá þær aðeins mýkri og til að þær dökknuðu ekki við að vera í kökunni til morguns – það er að segja sá hluti þeirra sem stendur upp úr kökunni, það þarf ekki að hafa áhyggjur af hinu. Ég setti því 1/2 l af vatni í víðan pott, ásamt 100 g af sykri og einni sítrónu, skorinni í sneiðar, og hitaði að suðu.

Ég flysjaði perurnar – það er langbest að nota flysjunarjárn til þess – skar af þeim bláendana og skar svo allar nema eina (já, þær voru sex, gleymdi að nefna það) í tvennt eftir endilöngu. Eina peruna skar ég aftur á móti í sundur þvert yfir og notaði bara toppinn. Hann fer í miðjuna.

Svo stakk ég kjarnann úr peruhelmingunum. Ég notaði kúlujárn en það er alveg hægt að nota teskeið.

Ég setti svo perurnar í sjóðandi sítrónusykurvatnið og lét kúptu hliðina snúa niður. Þær mega alveg standa svolítið upp úr. Ég sauð þær í 5-6 mínútur en tók þær svo upp úr og lét renna af þeim. Á meðan bræddi ég 100 g af suðusúkkulaði og 120 g af smjöri í vatnsbaði (mætti líka bræða þetta í potti við mjög vægan hita og hræra oft á meðan). Ég kveikti líka á ofninum og stillti hann á 190°C.

Ég setti 75 g af sykri og 3 egg í hrærivélarskálina og þeytti þetta mjög vel saman, sennilega í svona 5 mínútur.

 

Þá setti ég 4 msk af apríkósusultu út í ásamt súkkulaðismjörinu og hrærði þessu saman við – á litlum hraða og bara stutt til að pressa ekki allt loftið úr deiginu.

Að lokum sigtaði ég 100 g af hveiti og 1 tsk af lyftidufti yfir og blandaði því gætilega saman við með sleikju.

Ég notaði stórt smelluform vegna þess að perurnar voru litlar og ég vildi ekki að deigið flyti alveg yfir þær (jújú, svo hefði ég líka getað minnkað deigskammtinn en það er alltof einföld lausn …). Ég penslaði það með olíu, klippti út hring úr bökunarpappír og setti á botninn, dreifði svona þriðjungi af deiginu á botninn, raðaði perunum ofan á og hellti svo afganginum af deiginu gætilega í formið.

Svo bakaði ég kökuna á neðstu rim í um 20 mínútur. Hvolfdi henni á grind, losaði bökunarpappírinn af og hvolfdi henni á fat. Eða öllu heldur disk rækilega merktan Félagi matreiðslumeistara.

Mæti með hana í vinnuna á morgun, nema ég gleymi henni heima.

8 comments

  1. Umm nú langar mig í súkkulaðiköku. Mig hefur undanfarið langað mikið að baka mjúka dökka súkkulaðiköku sem er sem allra líkust Betty úr pakka, með þykku gljáandi dökku súkkulaðikremi líku Bettý úr dós! Gætirðu nokkuð bent mér á uppskrift sem gæti verið nærri lagi? Mér tekst ágætlega upp með botnana svosem en gengur ekkert að fá nógu bragðgott og djúsí krem!

    Já og til hamingju með múffubókina, ég gaf sjálfri mér hana að gjöf um daginn og lýst bráðvel á 🙂

  2. Nú skal ég játa eitt: Ég hef aldrei svo ég muni bakað Betty-köku eða notað Betty-krem og er alls ekki viss hvernig það er. Ég man eftir að hafa einu sinni bakað einhverja pakkaköku (ekki Betty), það var fyrir auglýsingu í Gestgjafanum, og hún féll. (Annar starfsmaður tók þá við og bakaði aðra köku en hún féll líka svo það var kannski ekki alfarið mér að kenna.)

    En mér dettur í hug að þessi kaka hér og krem gæti kannski verið eitthvað nærri lagi: http://moderndaybettycrocker.wordpress.com/2012/06/05/my-go-to-chocolate-cake-recipe/

  3. Auðveldasta leiðin til að baka köku líka Betty Crocker með kremi eins og Betty Crocker er jú að kaupa pakka af Betty Crocker kökudufti og dós af kremi 😉

  4. Mér finnst Betty lúmskt góð, ótrúlega sæt reyndar en góð er hún. Takk fyrir linkinn. En ég held áfram að googla hvernig maður býr til svona þykkt, glansandi og dökkt súkkulaðikrem. Ég hef prófað mig áfram með að hafa í því síróp eða bræða sykur og fleira í potti en næ því ekki alveg!

  5. Ætla að gera þessa á morgun – lýtur rosa vel út 🙂

    Annars keypti ég bókina þína um daginn múffur í öll mál og hún er alveg yndisleg. Erum nú þegar búin að baka 2 sortir við mikla lukku !

    • Takk fyrir það, vinnufélagarnir voru allavega ánægðir, heyrðist mér. – Ef formið sem þú notar er af meðalstærð getur verið að deigið fljóti alveg yfir perurnar (sem er svosem allt í lagi upp á bragðið). Þannig að þá gæti verið ágætt að annaðhvort minnka uppskriftina um þriðjung eða svo, eða þá baka hluta af deiginu í öðru formi – þetta er nefnilega ágætis súkkulaðisvampkökubotn sem má setja krem á eða frysta og geyma til síðari nota.

  6. Gleymdi líka að taka fram að það mætti vel nota niðursoðnar perur í þessa köku og þá þarf auðvitað ekki að sjóða þær neitt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s