Sko, kakan sem ég setti inn uppskrift að áðan er nú ekkert voðalega holl sosum. En það gegnir sko öðru máli með þetta hér, sem er bara alveg vaðandi í hollustu.
Eða það hlýtur að vera. Hnetur, fræ, þurrkaðir ávextir – engin chia-fræ reyndar, sem eru víst töframeðal allra töframeðala, en það eru goji-ber og allskonar ofurfæði í þessu. Það er alveg hreinasatt. Og súkkulaðið auðvitað, það er í fyrsta lagi ávöxtur (eða gert úr ávexti kakótrésins allavega) og svo eru alltaf að koma fram fleiri og fleiri vísbendingar um hollustu þess …
En ég var í Nóatúni í dag. Og það var búið að stilla upp litlu jólamatreiðslubókinni þeirra – ekki þessari sem ég gerði, heldur bókinni sem þeir gerðu seinna. Mér fannst það nú kannski fullsnemmt en þetta varð samt til þess að ég fór að hugsa um jólanammi. Og í framhaldi af því um nammi. Og þá mundi ég eftir silíkonmottu sem ég eignaðist ekki alls fyrir löngu … Til að gera langa sögu stutta, þá gerði ég nammi. Það er engin uppskrift þannig séð, þetta er bara súkkulaði og allskonar, en myndirnar segja sína sögu.
Maður þarf auðvitað ekkert svona sílikonmottu, bökunarpappír dugir, en súkkulaðiplattarnir verða óneitanlega fallegri í laginu svona.
Ég byrjaði á að tína til nokkrar sortir af góðgæti til að setja ofan á. Þarna er Maldonsalt (ekki notað eitt sér þó), ristuð graskersfræ, ofurberjablanda, eitthvað sem heitir Cranberry Burst, Hawaii-blanda og pekanhnetur.
Sílikonmottan er með 25 mjög grunnum hringjum, svona 4-5 cm í þvermál. (Það er líka hægt að snúa henni við, hinum megin á henni eru minni hringir.) Ég bræddi 250 g af súkkulaði í vatnsbaði og setti svona matskeið í hvern hring.
Svo dreifði ég góðgætinu á súkkulaðiplöturnar. Stráði svolitlu Maldon-salti yfir pekanhneturnar. Lét svo súkkulaðið storkna alveg.
Og þá er bara að losa súkkulaðiplöturnar af sílikonmottunni.
Sko bara, eintóm hollusta …
Það er nú alls ekki kominn tími til að gera jólanammið. En það gæti verið gott að hafa þetta í huga í desember ef mann vantar hugmynd að ætri jólagjöf.
Smáviðbót: Ég pantaði mottuna gegnum amazon.co.uk en þær hafa líka fengist hjá salteldhus.is.
Hvar fást svona mottur??
Ég satt að segja veit ekki hvort þær fást hérlendis. Þessi var pöntuð gegnum amazon.co.uk.
Heldur þú að þessi virki? http://www.ikea.is/products/15357. Þetta virkar nefnilega audvelt og skemmtilegt
Ég er ekki viss um það, sé ekki að þessi motta sé með hringjum eða öðrum formum sem mundu henta – en þyrfti að sjá hana í návígi til að vera viss. Það má líka alveg teikna hringi á bökunarpappír og smyrja súkkulaðinu á þá. En það er óneitanlega auðveldara að gera þetta með svona mottu (sem er reyndar hugsuð fyrir makrónubakstur). Það eru til ýmsar gerðir en ég veit ekki hvort einhverjar þeirra gætu verið fáanlegar hér: http://www.google.com/search?q=macaron+mat&hl=en&client=safari&rls=en&prmd=imvns&tbm=isch&tbo=u&source=univ&sa=X&ei=hdFcULeFH8LX0QXV94GoBA&ved=0CCoQsAQ&biw=1150&bih=586
Það fást að ég held einhvers konar svona mottur í Kosti…
Mætti skoða það. Ég hef aldrei komið í Kost, búðin liggur ekki sérlega vel við strætóferðum héðan frá mér.
[…] Súkkulaðimedalíur. Mjög einfaldar. […]
[…] birti reyndar uppskrift að einföldum súkkulaðidoppum hér fyrir nokkrum árum (vá, ég er búin að blogga hérna það lengi að ég get farið að […]