Aglio et olio

Ég er að skríða saman eftir lasleika og var ekki í stuði til að elda neitt að ráði en var samt orðin svöng svo að ég ákvað að gera eitthvað einfalt. Átti samt eiginlega ekkert til í ísskápnum nema þá eitthvað þungt eða sem mér fannst ekki henta sjúklingi þó í afturbata væri. Í öllum rómönunum og reyfurunum sem ég las á unga aldri voru sjúklingar aldir á hafraseyði en það var einhvernveginn ekki það sem mig langaði í …

En ókei, það var nú samt til steinselja (flatblaða). Og á eldhúsbekknum var hvítlaukskrukkan, bakki með hálfþurrkuðum chilialdinum og sítrónur (ég geymi þær aldrei í ísskáp). Og svo á ég alltaf til ólífuolíu og það var pakki af rigatoni í skápnum. Svo að ég gat gert pasta aglio et olio. Hvítlauks- og olíupasta. Reyndar er yfirleitt notað spaghettí en ég er búin að elda það svo oft að undanförnu að ég ákvað að nota rigatoni-ið.

Ég setti kalt vatn í pott og á meðan það hitnaði að suðu tíndi ég saman allt sem til þurfti (nema pastað) – hvítlauk, chili, steinselju, sítrónu, pipar, salt, 4 msk af ólífuolíu.

Þegar vatnið bullsauð saltaði ég það og setti svo svona 125 g af rigatoni út í. Hrærði tvisvar eða þrisvar í byrjun svo pastað festist ekki við botninn og sauð það rösklega í opnum potti í um 10 mínútur. Pastavatn á alltaf að bullsjóða, ekkert mall hér.

 

Ég saxaði svo 4 hvítlauksgeira og hálft chilialdin, hitað ólífuolíuna (4 msk) á pönnu og lét hvítlauk, chili, pipar og salt krauma við vægan hita í nokkrar mínútur, þar til hvítlaukurinn var gullinbrúnn en ekki farinn að brenna.

Á meðan saxaði ég steinseljuknippið. Rétt áður en pastað var soðið tók ég frá svolítið af soðinu og hellti pastanu svo í sigti þegar það var tilbúið og lét renna af því.

Svo hellti ég pastanu á pönnuna með hvítlauksolíunni, hellti smávegis pastasoði út á og hrærði, stráði svo steinseljunni yfir og reif börk af hálfri sítrónu yfir allt saman og hrærði vel.

Hellti svo öllu saman í skál og bar fram …

… mrð fullt af parmesanosti. Tilbúið á tólf mínútum (plús þeim tíma sem þurfti til að vatnið færi að sjóða).

Kannski ekki beint sjúklingafæði … en fór ágætlega í mig samt.

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s