Þegar ég var lasin í vikunni og leiddist heima hjá mér datt ég ofan í að hlusta á matarþátt á ónefndri útvarpsstöð. Þar voru tvær konur að tala saman um sláturgerð og fleira og fóru svo að tala um lambahjörtu; sögðu hvað eftir annað að þau yrði að elda vel og lengi, helst klukkutímum saman, til að þau yrðu æt. Sem er bara alls ekki rétt.
Jújú, ef maður steikir hjörtun og sýður þau svo þarf vissulega að láta þau malla í klukkutíma eða svo, annars eru þau seig. En það er með hjörtu eins og smokkfisk og ýmislegt fleira, þau eru meyr ef þau eru elduð mjög snöggt eða vel og lengi, allt þar á milli er verra. Sérstaklega ef hjörtun eru látin sjóða rösklega lengi.
Mig fór að langa í hjörtu á meðan ég var að hlusta en samt ekki í langelduð hjörtu (sem geta reyndar verið ágæt). Svo að ég kom við í Nóatúni áðan og keypti – jæja, mér nægir eitt hjarta, sem var eitthvað um 150-170 grömm. Það kostaði mig heilar 57 krónur.
Ef ég hefði eldað það á morgun hefði ég kannski lagt það í kryddmaríneringu í nokkra klukkutíma – kryddlegin hjörtu eru ekki slæm – en ég var frekar sein og fór að elda eiginlega um leið og ég kom heim. Var að hugsa um að steikja hjartað í wok en skipti um skoðun þegar ég var búin að tékka á ísskápnum og tína fram það grænmeti sem mig langaði til að hafa, tók fram litlu grillpönnuna mína og svo aðra pönnu til að steikja grænmetið. – Það má líka alveg steikja hjartað á venjulegri pönnu.
En ég ætlaði semsagt að gera heitt kúskússalat svo að ég byrjaði á að hita vatn, setja kúskús í skál og hella svo sjóðandi vatni yfir og láta standa á meðan ég eldaði hitt. Eftir svona 5 mínútur, þegar kúskúsið hafði drukkið vatnið í sig, hrærði ég skvettu af ólífuolíu og safa úr 1/2 sítrónu saman við ásamt pipar og salti.
Ég byrjaði á að skera niður grænmetið. Það má nota alls konar fljóteldað (eða forsoðið) grænmeti í þetta en ég notaði það sem ég átti – skipti ögn af spergilkáli í litla kvisti, skar hálfa papriku í ræmur, 100 g af sveppum í sneiðar, smábita af fenniku í sneiðar, saxaði einn hvítlauk og hálft chili-aldin smátt; hitaði svo svona 2 msk af olíu á stærri pönnunni, setti grænmetið á hana og steikti við meðalhita í 3-4 mínútur; hrærði oft í því á meðan.
Svo kveikti ég undir litlu grillpönnunni því ég vildi hafa hana mjög vel heita.
Ég skar alla fitu af hjartanu (og ef það hefðu verið einhverjar æðar eða annað hefði ég tekið þær líka en það var nú ekki), skar það í tvennt og svo í þunnar sneiðar (1/2-1 cm) þvert yfir. Kryddaði sneiðarnar svo vel með pipar, nýmöluðu kóríanderfræi og salti.
Í leiðinni skar ég niður tvo vorlauka, bætti á pönnuna, kryddaði með pipar og salti og lét krauma áfram þar til grænmetið var rétt orðið meyrt.
Ég setti svolitla olíu á grillpönnuna og þegar hún var byrjuð að rjúka raðaði ég hjartasneiðunum á hana og stillti eldavélarklukkuna á eina mínútu.
Svo sneri ég sneiðunum og stillti aftur á eina mínútu. – Ætli steikingin hafi ekki tekið þrjár mínútur alls ef reiknað er með tímanum sem fer í að raða sneiðunum á pönnuna og snúa þeim.
Ég setti kúskúsið á disk ásamt nokkrum rifnum salatblöðum, hellti grænmetinu af pönnunni yfir það og setti hjartasneiðarnar ofan á. Skreytti svo með basilíku (en það er nú óþarft).
Alveg ljómandi gott. – Það má líka alveg hafa soðin hrísgrjón í staðinn fyrir kúskús, eða bera þetta fram t.d. með kartöflustöppu.
Þetta finnst mér mátulega steikt hjarta.
Við skerum hjörtun alltaf í frekar þunnar sneiðar, grillum þau í ofni bara með salti og pipar í sirka mínútu á hlið og berum fram með kartöflubátum og bearnaisesósu. Hrikalega góður matur og algjör óþarfi, eins og þú segir, að láta þau malla í marga klukkutíma!
Já, ég hef líka grillað þau á útigrilli í þunnum sneiðum, kom mjög vel út.
Höfðum þetta salat í kvöld nema mér hafði gersamlega yfirsést þetta með kúskúsið og nennti ekki að sjóða hrísgrjón þegar hitt var allt tilbúið til steikingar. (þurfti auðvitað að nota þrjár pönnur, grænmetið komst ómögulega á eina fyrir okkur fimm). Höfðum bara ristað brauð með smjöri með. Ljómandi gott, takk fyrir fína uppskrift 🙂
Já, kúskúsið/hrísgrjónin er nú ekkert möst svosem.