Kaka í köldum ofni

Hann dóttursonur minn gisti í nótt og er hjá mér í dag og þegar hann kemur reyni ég nú yfirleitt að gera eitthvað sem honum líkar svo að þegar hans var von í gær bakaði ég köku til að gæða honum á.

Ég velti ýmsum kökum fyrir mér en þóttist vita að hann mundi helst vilja súkkulaðiköku, ekki of dökka eða bragðmikla en ekki dísæta heldur. Reyndar hefði honum líklega þótt best af öllu ef ég hefði bakað handa honum súkkulaðismákökur eins og um daginn en ég vildi hafa þetta sem allra fyrirhafnarminnst – er nú ekki betri amma en svo – því að ég var að keppast við að klára ákveðinn áfanga í skráningu á matreiðslubókasafninu mínu. Sem er verkefni sem er lengi búið að standa til og er sannarlega ekki vanþörf á – ég er þegar búin að finna ýmsar bækur sem ég var búin að steingleyma að ég ætti. Og er þó ekki búin að skrá nema svona fjórðunginn enn.

En allavega, ég ákvað að baka bara einfalda súkkulaðiköku, dálítið þétta í sér en ekki ýkja dökka.

 

Ég byrjaði á að vigta 250 g af sykri og 225 g af linu smjöri og setja í hrærivélarskálina. Hrærði þetta vel saman og skóf niður hliðarnar á skálinni með sleikju nokkrum sinnum.

Svo braut ég fjögur egg í bolla, eitt af öðru, og þeytti þeim saman við smjör- og sykurblönduna. Stoppaði vélina til að skafa niður hliðarnar eftir fyrstu tvö eggin en eftir það var það óþarft. Deigið mærnar (skilur sig) kannski eitthvað en það þarf ekkert að hafa áhyggjur af því, það jafnar sig.

Á meðan vigtaði ég 250 g af hveiti. Svo ætlaði ég að vigta 50 g af kakódufti en komst þá að því að ég átti ekki nema 40 g (hélt ég) svo ég lét það duga en bætti við 10 g af hveiti í staðinn. Semsagt 260 g hveiti, 40 g kakó, og svo setti ég 2 tsk af lyftidufti og 1/4 tsk af salti út í og sigtaði þetta ofan í deigskálina. Mældi svo 200 ml af apríkósumarmilaði og setti það líka út í. (Það má líka nota einhverja aðra sultu.)

Ég hrærði þetta lauslega saman á litlum hraða, bara þar til deigið var slétt – það á aldrei að hræra svona deig lengi eða af miklum krafti eftir að hveitið er komið út í, það gerir kökuna bara seiga.

 

Ég var búin að ákveða að baka kökuna í randformi en það má líka nota venjulegt kökuform eða jólakökuform. Einhvers staðar á ég voða fínt viðloðunarfrítt randform sem ekki þarf að smyrja en ég finn það ekki svo ég tók gamla, beyglaða formið mitt, smurði það vel með smjöri og setti svo dálítið hveiti í það og velti því fram og aftur til að dreifa hveitinu jafnt um allt formið. Hvolfdi því svo yfir vaskinum og sló því snöggt við til að losna við umframhveiti.

Eins og ég sagði hélt ég að ég ætti ekki meira kakóduft en annars hefði ég stráð því í formið í staðinn fyrir hveiti. Það er nefnilega hætt við að það komi eitthvað af hvítum blettum utan á kökuna ef hveiti er notað. Það gerir reyndar lítið til ef á hvort eð er að þekja hana kremi en ef það er ekki meiningin er betra að nota kakó á brúna köku en fíngert rasp á ljósa köku.

Ég setti svo deigið í formið (sem er orðið töluvert beyglað að ofan eins og sjá má) og sléttaði yfirborðið.

Nú var að því komið að setja kökuna í ofninn en það var akkúrat þá sem ég áttaði mig á að ég hafði steingleymt að kveikja á honum.

Það hefði getað verið verulegt babb í bátinn með fljótbakaða köku sem þolir illa að bíða því ofninn minn er ekkert voðalega fljótur að hitna. En af langri húsmóðurreynslu veit ég að kaka af þessu tagi, sem þarf að bakast lengi við tiltölulega lágan hita, getur alveg eins farið inn í kaldan ofn og forhitaðan – það hefur afskaplega lítil ef nokkur áhrif á útkomuna. Svo að ég setti kökuna inn á neðstu rim, stillti hitann á 170°C og ofnklukkuna á 50 mínútur og fór svo og hélt áfram að skrá matreiðslubókasafnið (var komin í bækur frá Karíbahafinu).

Þegar klukkan hringdi tók ég kökuna út og stakk í hana teini til að prófa hana. Hún reyndist alveg fullbökuð (hún var ekki eins dökk að ofan og hún sýnist á myndinni).

Ég lét kökuna hálfkólna í forminu og hvolfdi henni svo á grind til að kólna alveg. Eins og sjá má komu ljósir flekkir af hveitinu en ef ég hefði ætlað að bera hana fram kremlausa hefði ég sigtað kakóduft yfir hana (nú var ég nefnilega búin að finna meira kakó).

 

En ég ætlaði að hafa krem – smjörkrem en þó ekki jafndísætt og þetta venjulega. Svo að ég bræddi 125 g af súkkulaði í vatnsbaði og hellti því svo yfir 125 g af linu smjöri og hrærði þar til blandan var slétt. Þá hrærði ég 1 tsk af vanilluessens saman við. Svo vigtaði ég 225 g af flórsykri og hrærði saman við ásamt 200 ml af sýrðum rjóma (18%) – það er best, finnst mér, að hræra ekki öllu saman við í einu, heldur skipta flórsykrinum og sýrða rjómanum í tvennt og hræra saman við í skömmtum.

Ég smurði svo kreminu þykkt á kökuna og kældi hana þar til það var orðið stíft. Svolítið súkkulaði hafði orðið eftir í pottinum og ég dreypti því yfir til skrauts.

Úlfur var alveg sáttur við þessa köku og fékk sér tvær þykkar sneiðar.

En nú erum við að fara að útbúa okkur brunch.

Smáviðbót: Best að það komi fram að þótt drengurinn væri mjög sátturog æti kökuna eins og hann héldi að hann fengi aldrei aftur að borða voru skiptar skoðanir um kremið hjá öðrum fjölskyldumeðlimum. Ég mundi reyndar ef ég gerði kökuna aftur hafa mun minna krem (Úlfur er ekki sammála) eða jafnvel sleppa því; kakan er ágæt kremlaus.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s