Úlfur eldar bröns

Við Úlfur gerðum okkur semsagt bröns. Dögurð. Whatever.

Það er hefð fyrir því þegar drengurinn gistir en misjafnt hvort við gerum hann sjálf eða förum eitthvað út og setjumst inn á veitingahús. En honum þykir sá heimagerði reyndar betri. Og yfirleitt betur útilátinn, en ef það hefur ekki komið fram fyrr er drengurinn átvagl þótt það sjáist ekki utan á honum. Svo að við vorum búin að ákveða í gær að það yrði heimabröns. Reyndar var drengurinn farinn að tauta um það upp úr sjö í morgun hvort við ættum ekki að byrja en sættist á að fá jógúrt og súkkulaðiköku.

En um ellefuleytið varð ekki hjá þessu vikist lengur og aðgerðir hófust í eldhúsinu með pönnukökubakstri og beikonsteikingu.

Ég braut tvö egg og aðskildi í tvær skálar og Úlfur þeytti hvíturnar þar til þær voru hálfstífar.

Svo hellti hann 125 ml af mjólk saman við rauðurnar og þeytti þetta vel saman. (Eins og sjá má hafði eitthvað gengið á við hvítuþeytinguna og það var eitthvað af slettum hér og þar …). Svo vigtuðum við 100 g af hveiti (eða það tókst reyndar ekki alveg því vigtin sýndi ýmist 99 eða 101 gramm, sama hvað lítið við tókum af eða bættum við, aldrei 100 grömm – það fór mjög í taugarnar á nákvæmnismanninum Úlfi). Þetta setti Úlfur svo saman við eggjarauðurnar ásamt 1 tsk (rúmlega) af lyftidufti, ögn af salti og 1 msk af olíu og hrærði rólega þar til soppan var slétt.

Svo setti Úlfur hvíturnar út í soppuna og blandaði gætilega saman með sleikju. Við hituðum svo þykkbotna pönnu settum á hana ögn af olíu og smjöri og steiktum 4 fremur litlar pönnukökur (soppan dugði í 10 slíkar) við vægan hita þar til þær voru gullinbrúnar á báðum hliðum.

Þegar hér var komið sögu var áhugi kokksins dottinn verulega niður, enda sá hann ekki um steikinguna, og hann tilkynnti að hann ætlaði að horfa á endursýningu á Merlín þar til brönsinn væri tilbúinn. Svo að þarna lauk afskiptum hans þar til kom að átinu.

Svo að amman sá um að steikja pönnukökurnar, beikonið (það var sett á milli eldhúspappírsarka þegar það var tekið af pönnunni og farg sett ofan á til að pressa úr fitu), egg og kastaníusveppi (sem voru reyndar bara handa ömmunni), skera niður ávexti og bera á borðið.

Þetta leist nú mínum manni vel á og það vildi svo heppilega til að Merlín var akkúrat búinn þegar kræsingarnar komu á borðið.

Drengurinn tók mjög rösklega til matar síns af beikoni, eggjum, pönnukökum og hlynsírópi – en eins og sjá má lét hann ávextina hreint ekki ósnerta heldur. En hann sagðist vera ,,næstum því saddur“ og afþakkaði meira að segja kökunsneið á eftir …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s