Rauðrófur, spínat og afgangar

Ég var aldrei mjög hrifin af soðnum rauðrófum, nema þá súrsuðum, og það var ekki fyrr en ég kynntist bökuðum rauðrófum sem ég tók þær í sátt. En það var frekar seint, mig minnir að ég hafi fyrst fengið þær þegar ég borðaði á Ottolenghi í London, einhverntíma stuttu eftir að sá staður hóf starfsemi. Rauðrófur með steiktri svínasíðu og spínat- og furuhnetusalati, minnir mig; það var góður matur.

Bestar þykja mér litlar rauðrófur og þær þarf líka oft ekki einu sinni að afhýða. Þess vegna var ég nokkuð kát þegar ég rakst á fáeinar litlar og krúttlegar rauðrófur í Frú Laugu um daginn og keypti þær án þess þó að vera með einhverja ákveðna hugmynd í kollinum, vissi að hún kæmi fyrr eða síðar.

Og þegar ég var að hugsa um það í strætó á leiðinni heim áðan hvort ég gæti ekki notað svolítinn afgang af soðnu súpukjöti og kartöflum sem ég átti í eitthvert góðgæti mundi ég eftir rauðrófunum.

Ég skolaði rauðrófurnar og þerraði þær og tíndi svo til tvær rósmaríngreinar og þrjá hvítlauksgeira. Tók svo fremur lítið eldfast fat og setti tvær matskeiðar af andafeiti í það (en það má líka nota ólífuolíu, andafeitin er bara betri, finnst mér …). Hitaði ofninn í 200°C.

Ég skar svo toppinn og botninn af hverri rauðrófu um sig, setti þær í fatið og velti þeim upp úr andafeitinni (sú sem ég átti til var hálffljótandi en ef hún hefði verið í föstu formi hefði ég brugðið fatinu í heitan ofninn smástund til að bræða hana).

Svo flysjaði ég einn rauðlauk, skar í fjórðunga og setti í fatið, ásamt rósmaríngreinunum og hvítlauksgeirunum (léttkrömdum með flötu hnífsblaði). Kryddaði allt með nýmöluðum pipar og salti, breiddi álpappír yfir (ég á ekki lítið fat með loki) og setti í ofninn í um 1 klst.

Ég tók fatið út þegar tíminn var um hálfnaður og sneri rauðrófunum. Bakaði þær svo áfram og fjarlægði álpappírinn þegar svona 10 mínútur voru eftir. Þegar klukkutími var liðinn prófaði ég hvort rófurnar væru bakaðar með því að stinga í þær prjóni. Hann rann í gegn svo að þær voru til. Ég lét þær bíða á meðan ég gerði hitt, þær eiga einmitt ekki að vera brennheitar.

Ég átti til fjórar litlar, soðnar kartöflur, smábita af soðnu súpukjöti og einn plómutómat. Ég skar þetta allt í munnbitastærð og hitaði ögn af olíu á lítilli pönnu.

Ég setti kjötið og kartöflurnar á pönnuna, steikti það við góðan hita og hrærði oft á meðan. Þegar þetta var farið að brúnast nokkuð setti ég tómatana á pönnuna, kryddaði með ögn af pipar og salti og lét krauma áfram nokkra stund á meðan ég setti væna lúku af spínatblöðum á disk og skar hluta af rauðrófunum í tvennt (ég notaði þær ekki allar).

Ég hellti svo kjötinu og kartöflunum yfir spínatið, bætti rauðrófuhelmingunum við og blandaði. Að lokum stráði ég nokkrum muldum pekanhnetukjörnum yfir (má sleppa eða nota valhnetur).

Þetta var nú litríkur og góður kvöldmatur.

Og nú á ég líka nokkrar bakaðar rauðrófur sem ég get geymt í ísskápnum í einhverja daga og notað í eitthvað allt annað.

Ég fór líka að hugsa um það eftir á að það hefði nú ekkert gert til þótt ég hefði ekki átt neitt kjöt, þetta hefði verið fínt bara með steiktum kartöflum og tómötum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s