Stjáni blái í eldhúsinu

Ég keypti spínat á dögunum. Það er ein af þeim grænmetistegundum sem henta ekkert sérlega vel fyrir einbúa, satt að segja; það er yfirleitt í frekar stórum pokum og það þýðir að þegar maður kaupir sér spínat verður það oftar en einu sinni í matinn. Svo að þegar það gerist breytist ég eiginlega í Stjána bláa (þó ekki þingmanninn, minn gamla bekkjarbróður, sem ég var einmitt að horfa á í Kastljósi áðan).

Ég var með spínat með rauðrófunum og kjötafganginum í gær og notaði spínat aftur í dag en í gjörólíkan rétt. Ég geri oft bökuð egg af þessu tagi en úr ýmiss konar hráefni og ýmist í litlum formum eða stærri; stundum líka á pönnu (en þá eru þau reyndar ekki bökuð, en þó gerð á sama hátt). Ég átti hráskinku, tómata og ýmislegt fleira og ákvað að gera bökuð egg með spínati og skinku.

Ég hitaði ofninn í 200°C og tíndi svo til bréf af parmaskinku, tvö egg, einn vorlauk, nokkra aldraða og vel þroskaða kirsiberjatómata, tvær vænar lúkur af spínati, hálfa papriku, einn hvítlauksgeira og hálft chili-aldin. Já, og nokkur basilíkublöð. Skar paprikuna og vorlaukinn smátt og saxaði hvítlaukinn og chili-ið fínt.

Svo hitaði ég 1 msk af ólífuolíu á pönnu, setti hvítlaukinn, vorlaukinn, paprikuna og tómatana á hana, kryddaði með pipar, salti og dálitlu kummini og steikti við nokkuð góðan hita þar til tómatarnir voru sprungnir og hitt orðið meyrt. Hrærði oft á meðan.

Á meðan penslaði ég tvö lítil eldföst form (mætti líka vera eitt aðeins stærra, eða töluvert stærra ef maður tvöfaldar uppskriftina) með olíu og lagði tvær skinkusneiðar í kross í hvert þeirra.

Ég henti svo spínatinu á pönnuna, steikti hana og hristi pönnuna (eða hrærði) þar til það var farið að … ja, getur maður sagt sölna? Eða hjaðna? Eða bara slappast? Það tekur eina eða tvær mínútur.

Ég setti 2-3 basilíkublöð í hvert form ofan á skinkuna og jós svo spínatblöndunni yfir.

Ég gerði laut í miðjuna á hvorri skál og braut eitt egg þar í. Braut svo endana á skinkusneiðunum inn yfir og setti formin í ofninn í 10 mínútur (heldur skemur ef maður vill hafa rauðuna lina).

Og þá var kvöldmaturinn tilbúnn, þurfti bara gott brauð með.

 

Ég stráði svolitlu paprikudufti yfir en það var aðallega til skrauts, þetta var bragðmikill og góður matur. Og svo tek ég hitt formið með í nesti á morgun.

En það er enn eitthvað eftir af spínatinu, spurning hvað Stjáni gerir úr því …

4 comments

  1. Geri svipaðan rétt með bökuðum eggjum – gaman að sjá þessa útfærslu mun klárlega notfæra mér hana á næstunni enda í sömu vandræðum með spínatið sem liggur inní ískáp og þarf að fara að nota svo því verði ekki hent

    • Það má líka nota mun meira af spínati. – Og svo er hægt að sleppa skinkunni og hafa þetta bara grænmetis- (og eggja-)rétt.

      Ég hef gert fjöldamargar útgáfur af þessu, t.d. notað aðallega tómata og papriku en ekkert grænt nema kannski kryddjurtir, notað baunir, beikon, klettasalat og margt fleira. Eins má nota steikt hakk eða einhvers konar biximat.

  2. Heppnaðist svona líka vel þessi útfærsla 🙂 en já margar útgáfur sem hægt er að gera, þægilegur réttur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s