Þegar ég var að velta fyrir mér hvað ég ætti að gera við afganginn af spínatpokanum (líklega um 100 g) rifjaðist upp fyrir mér linsubauna- og spínatsúpa sem ég gerði hér á árum áður í ýmsum tilbrigðum. Svo að í strætó á heimleiðinni ákvað ég að gera hana – reyndar að þvi gefnu að ég ætti linsubaunir, sem ég mundi alls ekki. En ég var nú samt með Plan B.
Ég hafði gjarna beikon til bragðbætis í þessari súpu en ákvað að fara aðra leið núna, langaði ekki í beikon (merkilegt nokk) en aftur á móti langaði mig í eitthvað frekar sterkt og helst norður-afrískt. Og það er til allrar hamingju ekkert mál að útfæra það í svona súpu.
Ég leitaði í skápunum þegar heim kom og fann linsubaunir, reyndar Puy-baunir sem mér finnst betri sem meðlæti en í súpu en þær duga samt alveg. Og í leiðinni datt mér í hug að baka marokkóskt flatbrauð á meðan súpan væri að malla.
Ég tíndi til það sem ég ætlaði að nota: Lauk, tvo sellerístöngla, tvær gulrætur, dós af tómötum, 200 ml af linsubaunum, spínatið, tvo hvítlauksgeira og krydd:1/2 tsk af kóríanderfræi, 1/2 tsk af kummini, 1/2 tsk af nýmöluðum svörtum pipar, salt og 1 tsk af marokkósku kryddblöndunni ras al hanout. Eða ég held að það hafi verið ras al hanout, miðinn er dottin af pokanum … Ras al hanout ætti að fást í flestum stórmörkuðum (ekki með öðru kryddi, heldur marokkósku vörulínunni sem víða fæst) og hefur líka fengist í Tiger. En það má líka alveg nota paprikuduft ásamt dálitlum cayennepipar. Eða bara eitthvað …
Ég hitaði 2 msk af olíu í potti og skar niður lauk, sellerí og gulrætur og saxaði hvítlaukinn smátt. Lét þetta krauma í olíunni í nokkrar mínútur, þar til laukurinn var byrjaður að mýkjast.
Þá setti ég kryddið út í, hrærði og lét krauma í 1-2 mínútur, þar til allt var farið að ilma vel.
Ég hellti svo linsubaununum í pottinn og hrærði þar til þær voru þaktar olíu …
… og þá hellti ég innihaldi tómatdósarinnar í pottinn, ásamt 1/2 l af vatni og 1 tsk af grænmetiskrafti. Hitaði súpuna að suðu og lét hana malla í hálfopnum potti í um hálftíma, eða þar til linsubaunirnar voru soðnar en þó enn dálítið þéttar undir tönn. – Tíminn fer annars eftir því hvaða tegund linsubauna er notuð. Ég vil ekki hafa þær mauksoðar en það er ekki víst að allir séu sammála. Líklega þarf að bæta við slatta af vatni þegar líður á suðutímann, fer eftir hvað maður vill hafa súpuna þykka.
Á meðan súpan mallaði gerði ég flatbrauðið, sem er eins einfalt og það getur verið. Ég vigtaði 150 g af hveiti (venjulegu) og blandaði saman við það 1/2 tsk af kummini, 1/2 tsk af steyttu kóríanderfræi, 1/4 tsk af pipar og 1/2 tsk af salti. Ekkert lyftiduft eða neitt. Og engin olía eða önnur feiti.
Setti þetta í matvinnsluvélina og lét hana ganga á meðan ég hellti 5 msk af ísköldu vatni saman við smátt og smátt. Það gæti þurft örlítið meira eða minna, bara það sem þarf til að þessi mylsna hnoðist saman í þétt deig sem ekki klessist en er ekki heldur þurrt.
Svo skipti ég deiginu í fjóra jafna hluta og flatti hvern þeirra út á hveitistráðu borði, eins þunnt og ég mögulega gat – ekki alveg laufabrauðsþunnt.
Hitaði þykkbotna pönnu mjög vel og steikti eitt brauð í einu á þurri pönnu við háan hita í um 1 mínútu á hvorri hlið, eða þar til dökkir blettir voru komnir á það. Tók það svo af og breiddi viskastykki yfir á meðan ég steikti hin.
Þessi flatbrauð eru í rauninni mjög lík mexíkóskum hveititortillum, mjúk og henta vel til að vefja utan um fyllingar.
En nú var súpan soðin og ég henti spínatinu út í hana og hrærði. Hellti henni svo í tarínu og bar hana fram.
Ég var að hugsa um að pensla heitt brauðið með krydduðu, bræddu smjöri en ákvað að vera svo ekkert að standa í því, en ég prófaði að taka svolítið af súpunni, sía vökvann frá og nota sem fyllingu í flatbrauðið, það var mjög fínt.
Alveg ágætt bara. – En svo harðna þessi brauð fljótt; eru ekkert verri á bragðið fyrir það samt.
Sæl Nanna og takk fyrir yndislegt blogg 🙂
Ég nota bloggið og bækurnar þínar mjög mikið í eldamennskuna og baksturinn fólkinu mínu til gleði ::)
En ég er að leita að svona potti eins og þú notar í þennann rétt, þessi sem er hvítur að innann , veistu hvar ég get keypt svona grip ?
Bestu kv
Sigurbjörg
Þakka þér fyrir það.
Þetta er Le Creuset-pottur. Þeir fást t.d. í Búsáhöldum í Kringlunni, Kokku og kannski Líf og list – eða allavega á fleiri stöðum. Þeir eru dýrir en endast líka alveg ótrúlega vel. Pottinn á myndinni keypti ég í Góða hirðinum á 1900 krónur, hann var mjög dökkur og ljótur að innan en eftir rækilega hreinsun með ýmsum ráðum varð hann nánast eins og nýr – en hann er nokkurra áratuga gamall.
´Takk innilega fyrir þetta 🙂
Og þakka þér fyrir brauðuppskriftina , ég á alltaf deig inni í ísskáp og ég sverð það , þetta er besta brauð i heimi !