Pækluð kóteletta og fljótsteikt rótargrænmeti

Þegar ég skrifaði um rauðrófur fyrr í vikunni nefndi ég rauðrófu- og svínasíðumáltíð á Ottolenghi fyrir allmörgum árum. Jú, og ýmislegt annað grænmeti en rófurnar voru þar líka á diskinum. En hvað sem því líður er mig búið að langa í eitthvað á þessum nótum á hverjum degi síðan. Ekki þó heila svínasíðu kannski …

En þar sem ég stóð í Nóatúni áðan og var að kaupa inn fyrir múffur sem ég er að fara að baka í fyrramálið (er með kynningu á bókamarkaði Forlagsins á Fiskislóð kl. 2, þar verður hægt að smakka kókos-, kíví- og límónumúffur), þá fór ég að rifja upp hvaða rótargrænmeti ég ætti heima fyrir utan rauðrófurnar. Og svo keypti ég álitlega, þykka svínakótelettu og ákvað að láta hana koma í staðinn fyrir svínasíðuna.

Ég ætlaði samt ekki að fara að ofnbaka einhver ósköp af grænmeti, það hefði tekið þrjú korter eða svo, Nei, ég ákvað að fara aðeins fljótlegri leið – sem hentar líka vel þegar maður er bara að elda fyrir einn eða tvo.

En það fyrsta sem ég gerði var að sjóða svolítið vatn, setja 1 msk af salti í skál, hella heitu vatni yfir og hræra þar til saltið var uppleyst. Þá bætti ég við ísköldu vatni til að kæla pækilinn og setti svo kótilettuna út í – vatnið á rétt að fljóta yfir. Ég lét hana liggja í svona 10-15 mínútur.

Svínakótilettur og áþekkir bitar verða oft þurrir við eldun. En kjöt sem lagt er í frekar léttan saltpækil um stund verður safaríkara og meyrara á eftir. Ég hef gefið uppskriftir þar sem ég geri þetta við kalkúna, kjúkling, lambalæri og fleira, en það er líka hægt að beita þessari aðferð við minni bita. Til dæmis einmitt svínakótelettur. Stundum krydda ég pækilinn en að þessu sinni lét ég saltið nægja.

Á meðan kótilettan var í pæklinum kveikti ég á ofninum og stillti hann á 200°C. Svo tíndi ég til grænmetið sem ég ætlaði að nota – eina litla gulrófu, þrjár litlar nípur (parsnips eða pastinökkur, sem mér sýnist grænmetisdeildir stórmarkaðanna loksins vera búar að átta sig á að eru ekki steinseljurót, ég er búin að nöldra yfir því í meira en áratug) þrjár eða fjórar kartöflur og tvær gulrætur. Ég flysjaði allt grænmetið og skar það niður – kartöflurnar og rófuna í litla teninga, nípur og gulrætur í fjórðunga eða áttundu hluta eftir endilöngu.

Ég tók líka tvo hvítlauksgeira, kramdi þá létt með flötu hnífsblaði (bara til að auðveldara væri að afhýða þá) og skar hvorn um sig í nokkra bita.

Svo hitaði ég 1 msk af olíu á þykkbotna pönnu, setti grænmetið og hvítlaukinn á hana og steikti grænmetið við nokkuð góðan hita þar til það var orðið nærri meyrt, það tók líklega svona 10 mínútur en fer eftir hvað það er smátt skorið. Hrærði oft á meðan og kryddaði með pipar, salti og 1/2 tsk af þurrkuðu timjani.

 

Á meðan tók ég kótilettuna úr pæklinum, þerraði hana vel með eldhúspappír og skar í fituröndina á nokkrum stöðum til að hún ,,krullaðist“ síður. Kryddaði hana svo með nýmöluðum pipar – engin þörf á salti eftir saltpækilinn.

Ég hitaði 1 tsk af olíu og 1 tsk af smjöri á lítilli pönnu, kótelettuna á pönnuna og brúnaði hana við góðan hita í svona 2 mínútur á hvorri hlið.

 

Ég var búin að skera niður tvær (bakaðar) rauðrófur og einn vorlauk og blandaði því saman við grænmetið á pönnunni. Hellti öllu saman í eldfast mót, sem gott er að maður sé búinn að hita í ofninum áður, og lagði kótilettuna ofan á. Þetta form hefði reyndar mátt vera minna …

Svo setti ég þetta í ofninn, líklega í svona 8 mínútur.

Þegar þetta var tilbúið reif ég niður fáein basilíkublöð – af þvi að ég átti þau til – dreifði þeim yfir og bar þetta fram. (Er annars rétt að tala um að maður beri eitthvað fram þegar það er bara fyrir sjálfan sig?)

Hvað sem því líður, þá var kótilettan alveg ljómandi meyr og góð og grænmetið enn betra. Kosturinn við að skera grænmetið svona smátt, fyrir utan að það er fljóteldað, er að fletirnir sem brúnast eru samanlagt mun stærri en ef bitarnir eru stórir – og það er jú ,,brúnið“ eins og annaðhvort barnabarnið mitt segir, sem er best …

Kótilettan er reyndar búin en það er slatti eftir af þessu gómsæta og litríka grænmeti – fínt í hádeginu á morgun, til dæmis í ommilettu. Og auðvitað er hægt að elda grænmetið eitt sér og sleppa kótilettunni alveg. Það er fínt líka, til dæmis með góðu brauði og kannski hrísgrjónum eða salati.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s