Úr múffum í mandarínubleikju með núðlum

Ég var í dag að kynna múffubókina mína og gefa smakk á bókamarkaði Forlagsins á Fiskislóð og það var bara mjög fínt og gekk vel en þegar þeirri törn var lokið langaði mig satt að segja að gera eitthvað mjög mjög ólíkt. Og fljótlegt.

Svo að ég kom við í Krónunni úti á Granda og keypti bleikjuflak og mandarínur og svo rakst ég á afskaplega girnilegt knippi af íslensku selleríi, með fult fullt af laufum og þegar ég gekk úr búðinni út á strætóstoppistöð og laufvöndurinn stóð langar leiðir upp úr innkaupapokanum fannst mér næstum eins og ég væri að koma af markaði í einhverju útlandinu, þetta var svo grænt og gróskumikið eitthvað – venjulega þegar maður kaupir sellerí er búið að skera af því allt lauf. Sem er skaði.

Þetta var það sem ég tíndi saman til að nota í kvöldmatinn: bleikjuflakið, pipar og salt, engiferbiti, tveir hvítlauksgeirar, hálft hálfþurrkað chili-aldin, nokkrir pínulitlir tómatar (má nota venjulega kirsiberjatómata), ein rígvæn og safarík mandarína, fullt af sellerílaufi (bara laufið og allra efsti hluti stönglanna), sojasósa, hunang. Og olía til að steikja úr. Og eggjanúður.

Svo hitaði ég vatn í hraðsuðukatlinum til að hella yfir núðlurnar.

 

Ég skóf roðið á bleikjunni, kryddaði hana á báðum hliðum með pipar og salti, hitaði 2 msk af oíu á pönnu og setti bleikjuna á hana með roðhliðina niður. Steikti hana við góðan hita í 5 mínútur á þeirri hlið.

Ég setti líka núðlurnar í skál, hellti sjóðandi vatni yfir og lét standa í 4 mínútur eins og leiðbeiningar á umbúðum sögðu til um.

 

Á meðan saxaði ég engifer, hvítlauk og chili smátt, flysjaði mandarínuna og tók smábút af berkinum og saxaði hann líka og blandaði þessu öllu saman í skál. Setti svo 1 msk af sojasósu og 1 tsk af hunangi út í og blandaði vel.

Ég dreifði meirihlutanum af sósunni yfir silungsflakið og renndi svo spaða undir það og sneri því. Lækkaði hitann dálítið og steikti flakið í um 2 mínútur, eða þar til það var rétt eldað í gegn. Þá tók ég það af pönnunni.

Ég var búin að skera sellerílaufið gróft og mandarínuna í bita og henti þessu nú á pönnuna ásamt tómötunum, steikti við nokkuð háan hita í 2-3 mínútur og hrærði oft í (það má líka bæta við meiri sojasósu og e.t.v. hunangi ef ástæða þykir til). Á meðan hellti ég vatninu af núðlunum og setti þær á fat.

 

Svo hellti ég öllu sem var á pönnunni yfir núðlurnar og lagði silungsflakið þar ofan á.

Þetta var nú ekkert slæmt. Og hefði ekki getað verið ólíkara múffum. Og öll eldamennskan tók svona tíu mínútur.

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s