Jarðarberjaostakaka, taka tvö

Ég setti hér uppskrift að bakaðri jarðarberjaostaköku í vor en hún var reyndar ekki eins og hún átti að vera – tvíklúðruð satt að segja – og hér kemur þess vegna önnur útgáfa. Ekki alveg sama uppskriftin og betur heppnuð í alla staði.

Nema reyndar það er ekki beint jarðarberjatími núna og bandarísku jarðarberin sem ég keypti í Krónunni voru ekki alveg eins góð og þau sem ég kom með beint frá Berlín. En ágæt samt. Og núna bragðbætti ég kökuna með mandarínu. Var reyndar að hugsa um að setja mandarínusneiðar eða bita ofan á kökuna líka en hætti við, ákvað að láta jarðarberin duga.

Ég byrjaði á að hita ofninn í 180°C. Tók svo 225 g (1 pakka) af heilhveitikexi, Haust-kexi reyndar. Sem er heilhveitikex en ekki hafrakex. Ég skil ekki hvernig þessi vitleysa hefur ratað í uppskriftir, merkingar á búðahillum og hvaðeina … Það eru engin hafragrjón í Haust-kexi. Þetta er heilhveitikex, for crying out loud, það stendur á pakkanum og alles …

En allavega, ég braut heilhveitikexið aðeins niður og setti í matvinnsluvélina ásamt 85 g af linu smjöri og 25 g af möndlum. Það má sleppa möndlunum en mér finnst betra að hafa þær.

 

Ég lét vélina ganga þar til kexið var orðið að mylsnu og möndlurnar malaðar. Eins og sjá má er dálítið af stórum möndlubitum þarna, mér þykir það ekki verra en það má auðvitað láta vélina ganga lengur – eða nota möndluflögur í staðinn fyrir heilar möndlur. Ég hellti svo öllu í meðalstórt smelluform.

Ég þrýsti mylsnunni létt niður á botninn og svo upp með hliðunum með fingurgómunum. Þetta þarf ekkert að vera sérlega jafnt eða snyrtilegt sko …

Svo bakaði ég botninn í 7-8 mínútur og tók hann svo út og lét hann kólna aðeins.

 

Ég setti svo 400 g (1 dós) af rjómaosti í hrærivélarskálina og hrærði ostinn aðeins til að mýkja hann. Svo setti ég 100 g af flórsykri út í. Það má nota venjulegan sykur líka en flórsykurinn hrærist betur saman við og blandan verður ekki kornótt. Ég hrærði svo þremur eggjum saman við, einu í einu.

Ég reif börkinn af tveimur mandarínum mjög fínt og setti út í og hrærði svo 200 g (1 dós) af sýrðum rjóma, 18%, saman við. – Það mætti líka nota appelsínubörk og þá dugir 1 appelsína.

Svo hellti ég blöndunni yfir botninn í forminu, lækkaði ofnhitann í 165°C og bakaði kökuna neðarlega í ofni í um 45 mínútur. Bökunartíminn getur verið svolítið misjafn og það er vissara að fylgjast aðeins með kökunni þegar fer að líða á tímann.

Það getur verið ágætt (og reyndar nauðsynlegt ef smelluformið er ekki alveg þétt) að setja álpappírsörk undir það og brjóta hana upp með börmunum til að ekki leki deig niður á botninn á ofninum.

 

Kakan er tilbúin þegar hún hefur lyft sér vel og stífnað út við barmana en dúar enn svolítið í miðjunni (þó ekki fljótandi). Svo slökkti ég á ofninum og lét kökuna standa inni í honum í svona klukkutíma – hafði ofninn ekki alveg lokaðan.

Kakan sígur dálítið þegar hún kólnar og það geta komið sprungur í yfirborðið en það gerist miklu síður ef hún kólnar í ofninum.En ef á að setja eitthvað ofan á hana gerir yfirleitt ekkert til þótt einhverjar sprungur komi.

Svo þarf að kæla hana vel, gjarna til næsta dags. Þegar hún er losuð úr forminu er best að renna hnífsblaði meðfram börmunum og losa svo um botninn með pönnukökuspaða eða flötu hnífsblaði áður en kökunni er rennt yfir á disk.

Ég kreisti safa úr 1 mandarínu (um 75 ml) og hitaði í potti með 1 msk af sykri. Svo setti ég 1 matarlímsblað sem ég hafði látið liggja í köldu vatni nokkrar mínútur út í og bræddi það í safanum. Lét þetta kólna dálítið. Svo skar ég um 300 g af jarðarberjum í tvennt og raðaði þeim ofan á. Svo penslaði ég berin og kantana á kökunni með safanum. Endurtók þetta svo tvisvar eða þrisvar til að fá góðan gljáa á berin.

Ég er reyndar ekki búin að smakka hana, hún þarf að bíða til morguns … en hún er nú dálítið girnileg.

4 comments

  1. falleg kaka – nokkuð sem mælir gegn því að nota bláber, fryst í lok sumars, í staðinn fyrir jarðarber? ég á von á gestum í mat næstu helgi, sko 🙂 þá er spurning með hverju væri best að bragðbæta kökuna, hvort mandarínu/appelsínubörkur blívur enn eða hvort það færi betur að nota eitthvað annað – jafnvel sólberjaþykkni eða eitthvað í þeim dúr?

    • Það er örugglega alveg tilvalið að nota bláber, þá má kannski sjóða nokkur þeirra með smávatni og sykri og þykkja með matarlími og hræra saman við hin berin og hella yfir – eða ef þú átt bláberjasultu, til dæmis.

      Það má alveg nota rifinn börk með bláberjunum, eða vanillu – en ég hugsa að sólberjaþykkni gæti alveg farið ágætlega líka.

  2. Og ég varð ekki vör við annað en vinnufélögunum líkaði kakan bara nokkuð vel – en það er náttúrlega mánudagsmorgunn og þau hefðu kannski verið ánægð með hvað sem er …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s