Brauð og vín getur verið ágætt en það er vínberjabrauð líka

Já, svo var það vínberjabrauðið. Schiacciata con l’uva. Sæt vínberjapítsa, mundu sumir segja.

Þetta er ein af þessum ofboðslega einföldu uppskriftum sem er samt til í ótal útgáfum sem allar eru jafn ekta ítalskar. Ég hef alltaf gert það úr ósætu gerdeigi en það er líka hægt að gera það úr sætu gerdeigi og jafnvel lyftiduftsdeigi. Stundum er helmingurinn af álegginu settur á hálft deigið, hinn helmingur deigsins brotinn yfir og afgangurinn af álegginu settur ofan á. Stundum er áleggið bara vínber, sykur (eða hunang) og ólífuolía. Stundum er bætt við rósmaríni, muldum valhnetum, anís og fleiru. Stundum er notaður heldur minni sykur en hér, stundum mun meiri. Og eiginlega á ekki að nota steinlaus vínber því að það er partur af bragðinu/upplifuninni að bryðja steinana og finna þá bresta. Fyrir utan að steinlausu vínberin eru yfirleitt fullsafarík.

Ég notaði hluta af deiginu sem ég bjó til í gærkvöldi og átti í ísskápnum en annars má nota bara venjulegt einfalt gerdeig (pítsudeig). Ég teygði það og togaði með vel hveitistráðum höndum og setti það svo á pappírsklædda bökunarplötu og hélt áfram að þrýsta og teygja til að fá deigið eins ferkantað og ég gat (auðveldara en að fá það fallega kringlótt) og sem jafnast að þykkt. Svo lét ég það lyfta sér í svona 45 mínútur.

 

Á meðan setti ég 2 msk af ólífuolíu í pott, saxaði nálar af tveimur rósmaríngreinum gróft, setti út í og hitaði. Tók svo af hitanum og lét hálfkólna.

Svo tók ég um 500 g af dökkum vínberjum, sleit af þeim alla stilka og raðaði þeim fremur þétt á deigið. Skildi eftir smákant.

 

Ég þrýsti berjunum svo vel niður með flötum lófa.

Svo stráði ég um 3 matskeiðum af sykri nokkuð jafnt yfir og dreypti rósmarínolíunni yfir allt saman. Setti svo brauðið á næstneðstu rim í ofninum og bakaði það við 200°C í hálftíma.

Það má búast við að einhver safi renni úr berjunum en þessi voru líklega óvenju safarík, ég man ekki eftir svona miklum safa áður. Þess vegna er tvennt mikilvægt: að hafa bökunarpappír undir brauðinu og láta hann þekja plötuna alveg og að taka brauðið strax af plötunni og setja á grind (ég renni bara grindinni undir það og lyfti því þannig). Annars er hætt við að pappírinn festist við brauðið um leið og safakaramellan fer aðeins að kólna.

 

Vínberin verða hálfgerðar rúsínur þegar þau eru bökuð svona.

En mikið góðgæti er þetta.

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s