Hráefni sem er ekki í tísku

Kunningi minn og mataráhugamaður sagði einhverntíma að ég mætti alls ekki blogga um gott hráefni sem ekki væri í tísku og þar af leiðandi ódýrt því þá væri segin saga að það kæmist í tísku og verðið snarhækkaði. Hann nefndi kálfakjöt, uxahala, osso buco … Ég held reyndar að ekkert af þessu hafi á nokkurn hátt verið mér að kenna. En ég er líka viss um að mér er alveg óhætt að segja frá því hvað ég hafði í kvöldmatinn, það mun ekki komast neitt sérstaklega í tísku eða hækka upp úr öllu valdi. Þótt það sé mjööög ódýrt (innan við 300 krónur kílóið) og gott (finnst mér alltsvo).

Ég fór semsagt í Nóatún á heimleiðinni, vantaði eitthvað af grænmeti og ávöxtum og fleiru. Ætlaði eiginlega ekki að kaupa neitt í kvöldmat því ég á afgang af túnfisksalati sem ég ætlaði að breyta í túnfiskgratín (en það get ég alveg eins gert á morgun, það geymist alveg þangaðtil). Ég gekk framhjá kjötborðinu og rak þá augun í lambalifur. Og allt í einu langaði mig svo í lifur.

Mér hefur alltaf þótt lifur góð (sýnir kannski bara hvað ég er spes) og ein af mínum betri veitingahúsaminningum er grilluð kálfalifur á Vasco and Piero’s Pavillion í Soho. (Sem ég mæli nú alveg með en stelpur, passið ykkur á kvensama þjóninum ef hann er þar enn.) En oftast læt ég mér lambalifur nægja. Og mér þykir hún sérlega góð með marokkósk/arabísku kryddi. Svo að ég ákvað að það yrði kvöldmaturinn.

Ég byrjaði á að flysja lauk (átti bara einn en hefði helst viljað hafa tvo), skera hann í tvennt og skera svo hvorn helming um sig í þunnar sneiðar. Svo þerraði ég lifrina með eldhúspappír, skar burt himnur og æðar og skar hana svo á ská í sneiðar, 1 cm eða þynnri.

 

Ég hitaði 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á þykkbotna pönnu, setti laukinn á hana og lét hann krauma við vægan hita í 10-15 mínútur. Hrærði oft á meðan og passaði að hann brynni ekki.

 

Á meðan blandaði ég saman 3 msk af hveiti, 1 tsk af kummini, 1 tsk af steyttu kóríanderfræi, 3/4 tsk af reyktri papriku (má vera venjuleg), cayenne-pipar á hnífsoddi og dálitlum pipar og salti.

Ég velti sneiðunum vel upp úr hveitiblöndunni, raðaði þeim á bakka, stráði því sem eftir var af hveitiblöndunni yfir og lét þetta liggja á meðan laukurinn kláraðist.

Þegar laukurinn var orðinn ljósgullinbrúnn og meyr tók ég hann af pönnunni og geymdi á diski. Bætti svo um 2 msk af olíu á pönnuna og hitaði hana. Raðaði svo lifrarsneiðunum á hana og steikti þær við meðalhita.

Þær þurfa tvær mínútur á hvorri hlið. Ekki meira.

 

Svo bar ég þær fram á salati með sítrónubátum og dreifði lauknum yfir.

Og til að krydda meira: Pistasíu-dukkah, reykt paprika og súmak.

Sko, þetta finnst mér nú góður matur. YMMV.

En ég hefði alveg viljað hafa meiri lauk.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s