Grillað læri með skagfirskum sveppum

Ég var norður í Skagafirði um helgina, fór með systkinum mínum sem voru að laga girðingar kringum sumarbústaðalandið sitt. Ég kom ekki nálægt girðingavinnunni (nema til að festa hana á filmu) en tíndi í staðinn nokkra sveppi og matreiddi þá. Og svo var grillað læri.

Image

Reyndar var ekkert sérlega grill-legt þegar við komum norður á föstudaginn og Feykirinn var frekar kuldalegur að sjá. En hann var orðinn svo til alveg snjólaus seinnipartinn á laugardag og þá var logn og frekar hlýtt og alveg upplagt grillveður.

Image

Og sveppatínsluveður. Á meðan þau hin luku girðingavinnunni rölti ég og tíndi slatta af ætisveppum til að hafa með kvöldmatnum.

Þegar ég var að alast upp þarna á næsta bæ við sumarbústaðinn hafði ég sveppi oft sem þykjustumat í leikjum. Ég hafði ekki minnstu hugmynd um að hægt væri að borða þá.

Image

Ég þvoði svo sveppina og hreinsaði þá og skar þá í sneiðar. (Calvadosflaskan lenti ekki óvart inni á myndinni, hún kemur við sögu á eftir. Hún var samt aðallega tekin með sem kvefmeðal.)

Image

En áður en lengra var haldið þurfti lærið að fara á grillið. Þetta var rígvænt læri og ég fitusnyrti það örlítið, stakk mjóum hnífsoddi í það á allmörgum stöðum og stakk vænni hvítlauksflís og bút af rósmaríngrein í hverja rifu og kryddaði lærið svo með pipar og salti.

Þegar grillið var orðið heitt var lærið sett í miðjuna, slökkt á brennaranum undir því en hitinn lækkaður dálítið á hinum og grillið svo haft lokað. Lærið var við stofuhita þegar það fór á grillið svo ég reiknaði út að einn og hálfur tími myndi duga þrátt fyrir stærðina. Það var logn, sól og frekar hlýtt (miðað við árstíma) en ef það hefði verið kalt eða hvasst hefði tíminn lengst eitthvað því þá rýkur hitinn burtu. Og það er best að opna grillið sem allra sjaldnast, enda ekki þörf á því, það á ekkert að þurfa að snúa lærinu.

Ég leit á hitamælinn á lokinu öðru hverju; vildi hafa hitann sem næst 180°C og stillti brennarana til að halda því.

Ég bræddi svo smjör á pönnu – líklega svona 75 g – og setti sveppina á hana smátt og smátt (þarna er líklega svona helmingurinn kominn á pönnuna). Kryddaði sveppina svo með pipar, salti og þurrkuðu timjani. Ég hefði kannski sett hvítlauk ef ekki hefði verið hvltilaukur bæði á lærinu og með kartöflubátunum sem mágur minn gerði.

Image

Ég lét sveppina krauma nokkra stund áður en ég hellti svona 50 ml af Calvados á pönnuna og lét malla áfram, líklega í svona hálftíma samtals. Þá var enn töluverður vökvi eftir á þeim svo ég hrærði svolitlum sósujafnara saman við.

Image

Nú var kominn tími til að líta á lærið. Það var einmitt akkúrat tilbúið og ég slökkti á brennurunum og lét lærið standa á lokuðu grillinu í svona 10 mínútur. Ef það hefði verið kaldara í veðri eða hvasst hefði ég líklega farið með það inn og látið það standa þar og jafna sig.

Image

Það var nú ekki mikið að þessu.

Og Calvadossveppirnir voru alveg hreint ágætir líka. Rétt eins og hvítlaukskartöflubátarnir hans Bjarna mágs míns.

Þetta var kannski síðasta grillmáltíð sumarsins, en hreint ekki sú sísta.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s