Fyrir farlama konu

Ég var í skapi fyrir súpu áðan. Það er að segja fiskisúpu. Silungasúpu, nánar til tekið, einhverja dálítið kryddaða og bragðmikla en samt mjög fljótlega. Og vetrarlega, þótt það sé reyndar þokkalegasta veður hér.

Ég ákvað líka að elda skammt sem myndi duga mér í tvær máltíðir og hægt væri að frysta. Ég er nefnilega að fara í liðskiptaaðgerð í fyrramálið og verð svo heima, höktandi á hækjum, í einhverjar vikur og þá er nú líklega gott að eiga eitthvað til í frystinum. Ég veit ekki hvað ég verð dugleg að elda fyrst í stað.

Ég átti líka til bleikjuflak – nokkuð stórt reyndar, svo að ég skar tæplega helminginn af því og stakk beint í frysti. En þá voru svona 200 g eftir til að nota í súpuna. Ég hefði alveg eins getað notað lax, eða einhvern hvítan fisk, eða blöndu af fleiri tegundum, eða rækjur eða eitthvað slíkt – en ég átti semsagt bleikju.

_MG_6544.jpg

Ég byrjaði á að skera einn lauk og tvær (frekar litlar) paprikur í bita og saxa einn hvítlauksgeira smátt. Svo hitaði ég 2 msk af ólífuolíu í potti og lét grænmetið krauma við fremur vægan hita í nokkar mínútur, þar til það var farið að mýkjast. Þá bætti ég 3/4 tsk af þurrkuðu óreganói (ég keypti svo mikið af gæða-óreganói í Grikklandi um jólin að ég nota það í ansi margt núna), 3/4 tsk af reyktri papriku (má alveg vera venjuleg), pipar og salti í pottinn og hrærði því saman við.

_MG_6548

Svo setti ég tvo saxaða tómata, helst vel þroskaða, og kúfaða matskeið af rauðu pestói út í, hellti 500-600 ml af heitu vatni yfir (gleymdi að mæla það nákvæmlega), bætti við 1 tsk af fiskikrafti, hrærði vel, hitaði að suðu og lét malla í örfáar mínútur.

_MG_6552

Að lokum skar ég silunginn (200 g alltsvo) í munnbitastærð, setti hann út í og hellti 200 ml af rjóma út í. Hitaði að suðu og lét malla í 2-3 mínútur. Þá smakkaði ég og bragðbætti eftir þörfum.

_MG_6560

Stráði að lokum lítilli lófafylli af basilíku yfir (má sleppa) og bar súpuna fram. Hún var alveg ágæt og nú á ég súpumáltíð í frysti fyrir farlama konu (mig). Annars er þetta fljótleg súpa, tók mig svona 15 mínútur.

*

Fiskisúpa með papriku

200 g bleikja eða annar fiskur

1 laukur

2 fremur litlar paprikur (helst mismunandi litar)

1 hvítlauksgeiri

2 msk ólífuolía

3/4 tsk óreganó

3/4 tsk paprika (reykt eða venjuleg)

pipar

salt

2 tómatar

kúfuð matskeið rautt pestó

500-600 ml vatn

1 tsk fiskikraftur

200 ml rjómi

basilíka (má sleppa)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s