Komin á ról

Æjá, fiskbrúar varð heldur endasleppur hjá mér og svo hefur heldur betur dregist að taka aftur upp þráðinn … Eins og ég sagði frá síðast fór ég í liðskiptaaðgerð á vinstra hné og þótt hún gengi mjög vel og skurðurinn greri vel og ég væri farin að sleppa hækjum inni við eftir þrjár vikur og farin að vinna eftir fjórar, þá hef ég nú ekki verið mikið að elda, nema eitthvað afar einfalt, og heldur ekki haft eirð í mér til að skrifa neitt.

En þetta er vonandi allt að falla í venjulegt horf og núna eldaði ég allavega kvöldmat sem mér fannst ástæða til að mynda og deila með öðrum. Bleikju reyndar, en ég ætla nú ekki að halda fiskbúar áfram (enda mars að verða búinn). Satt að segja hef ég borðað óvenju lítið af fiskmeti undanfarnar tæpar sex vikur (frá aðgerðinni), vegna þess að matarinnkaup mín hafa að mestu farið fram í gegnum netið (hjá Nettó og svolítið hjá Heimkaup) og fiskur er nú eitt af því sem ég vil helst velja sjálf í fiskborði eða fiskbúð en ekki láta aðra velja fyrir mig.

En ég pantaði samt bleikjuflak í Nettó í síðustu sendingu. Það reyndist vera mun stærra en ég hafði haldið – eða öllu heldur, ég hafði talið að þetta væru tvö flök, enda var þyngdin 475 g – en ég ákvað að elda það nú samt allt í stað þess að skera helminginn frá og frysta. Ég hef þá nóg í nestið á morgun og líklega afgang til að nota í buff eða eitthvað.

_MG_6638

Ég byrjaði á því að krydda flakið með pipar og salti. Saxaði svo blöðin af einni eða tveimur rósmaríngreinum (það má nota aðrar kryddjurtir, ferskar eða þurrkaðar, eftir smekk) og dreifði yfir og reif börk af hálfri sítrónu yfir.

Ég hitaði svo pönnu  – eða reyndar er þetta ekki panna, ég notaði sporöskjulaga steypujárnsform, en stór panna dugir alveg – og hellti 2 msk af olíu á hana. Hitaði hana nokkuð vel, setti svo flakið á hana með roðhliðina upp, kryddaði roðið með pipar og salti og steikti bleikjuna við nokkuð góðan hita í svona 2 mínútur …

_MG_6642

… eða þangað til það hafði tekið góðan lit. Þá sneri ég því við (renndi pönnukökuspaða undir það og hvolfdi því) og lækkaði hitann dálítið. Flakið var það þykkt að ég reiknaði með að það þyrfti svona 5-6 mínútur í viðbót.

_MG_6646

Ég var búin að skera stöngulinn úr 2-3 grænkálsblöðum og saxa þau og dreifði þeim í mótið við hliðina á bleikjunni, ásamt nokkrum ólífum. Þessar voru reyndar einstaklega góðar, keyptar í Þessalóníku um jólin, en það má nota hvaða ólífur sem er. Eða sleppa þeim, ef maður er ekkert fyrir ólífur. Ég hrærði aðeins í grænkálinu nokkrum sinnum til að það steiktist jafnar.

_MG_6647

Þegar svona 2 mínútur voru eftir í að fiskurinn væri til tók ég eina dós af haricot-baunum, sem ég var búin að hella í sigti og skola aðeins í vatni, og hellti þeim í kring og hrærði til að láta þær hitna í gegn. Það mætti líka nota einhverjar aðrar baunir. Eða eitthvað annað ef þið eruð á ketómataræði …

Mér fannst vanta aðeins meira grænt svo að ég tók blöð af nokkrum steinseljugreinum sem ég átti og dreifði yfir. En annars er þetta bara tilbúið.

_MG_6671

Og ekkert slæmt.

*

Bleikja með grænkáli, ólífum og baunum

1 stórt bleikjuflak (eða 2 minni)

pipar

salt

1-2 rósmaríngreinar

rifinn börkur af 1/2 sítrónu

2 msk olía

2-3 grænkálsblöð

6-8 ólífur

1/2-1 dós haricot-baunir eða aðrar baunir

e.t.v. ítölsk steinselja

2 comments

  1. Gott að þú ert komin á ról aftur og allt gekk vel. Ég hef saknað þín, fylgist alltaf með færslunum þínum, bæði mynd og máli og hef gaman af.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s