Ég elda ekki sérlega mikið þessa dagana, það skal viðurkennt. Yfirleitt eitthvað mjög einfalt bara, salöt, steiktur fiskur, súpur, eitthvað slíkt. Nema helst þegar fjölskyldan kemur í mat, þá finnst mér góð afslöppun – eða kannski ekki afslöppun, frekar tilbreyting, sem er samt afslappandi út af fyrir sig – að fara í eldhúsið og gera eitthvað skemmtilegt og aðeins meira en það sem ég geri fyrir mig eina um þessar mundir.
Ég er enn að ná mér eftir aðgerðina og þótt það hafi gengið vel kom dálítið bakslag fyrir helgi, ég er með sýkingu í fætinum – ekki í hnénu eða skurðinum þó, þetta er húðnetjubólga (cellulitis) sem er svosem nógu slæm en hitt væri miklu verra. En ég er allavega ekki til stórræða næstu daga, þarf að fara þrisvar á dag á Borgarspítalann í sýklalyfjainndælingu. Eins gott að ég bý ekki uppi í Grafarholti.
Mér fannst samt mjög fínt að fá fólk í mat bæði í gær og í kvöld, það kom mér í betra skap og ég gat gert eitthvað í eldhúsinu, sem mér finnst mun skemmtilegra en að sitja fyrir framan sjónvarpið eða eitthvað …
Sonurinn og tengdadóttirin (og ófædda barnið, sem er orðið svo fyrirferðarmikið að maður er eiginlega farinn að telja það með, það ætti að poppa út eftir svona tíu daga) komu í mat í kvöld og þar sem ég átti lambahakk ákvað ég að gefa þeim grískar kjötbollur með meiru. Ég á líka ennþá eftir úrvalsgott óreganó og kalamata-ólífur sem ég keypti í Þessalóníku og svo átti ég góðan fetaost og fleira.
Ég byrjaði á að skera niður einn rauðlauk og setja í matvinnsluvélina ásamt 3-4 hvítlauksgeirum, 1 tsk af óreganói, 1 tsk af kummini, 1 tsk af möluðum kóríanderfræjum, 1/2 tsk af pipar og 1 tsk af salti (eða eftir smekk). Lét vélina ganga þar til allt var komið í mauk og bætti þá við 1 eggi og góða lófafylli af hafragrjónum. (Ókei, ég veit að lófafylli er ekki nákvæm mælieining. Segjum þá svona 6 msk – það má bæta við meira eggi eða svolitlum vökva ef þetta verður of þykkt.)
Ég var með 600 g af lambahakki. Það má alveg nota annað hakk en lambahakkið er best. Tók sirka þriðjunginn af því og þeytti vel saman við. Svo setti ég afganginn af hakkinu út í en hrærði mjög lítið (notaði bara púlshnappinn á vélinni) – rétt til að blanda þessu saman. Þetta geri ég til að fá mismunandi áferð, þannig að bollurnar tolli vel saman án þess að verða of farskenndar.
Svo mótaði ég litlar kjötbollur – þetta urðu 25-30 bollur en það má alveg hafa þær ívið stærri. Hitaði 3 msk af ólífuolíu á pönnu og brúnaði bollurnar á þremur hliðum við nokkuð góðan hita. Á meðan skar ég niður einn lítinn kúrbít og eina litla rauða papriku og þegar ég var búin að snúa bollunum á þriðju hliðina dreifði ég grænmetinu á milli (ef pannan er ekki þeim mun stærri getur samt verið gott að steikja grænmetið á annarri pönnu, og ég hefði kannski notað meira grænmeti ef ég hefði ekki sett það með bollunum). Svo opnaði ég eina dós af kjúklingabaunum, lét renna af þeim í sigti og hellti þeim svo á pönnuna og blandaði saman. Hellti svo 100-150 ml af vatni á pönnuna og lét sjóða þar til vökvinn var uppgufaður. Ætli steikingin öll taki ekki svona 10-12 mínútur.
Ég bar grænnmetið fram á pönnunni og stráði dálítilli steinselju yfir. En það mættu vera aðrar kryddjurtir – eða bara sleppa.
Og salat með – væn lúka af salatblöndu, 3-4 tómatar, 20 kalamata-ólífur, 200 g fetaostur (þetta var danskur kubbur), safi úr 1/2 sítrónu, ólífuolía, óreganó, pipar og salt. Og steinselja ef vill.
*
Grískar kjötbollur með grænmeti
1 rauðlaukur
3-4 hvítlauksgeirar
1 tsk óreganó
1 tsk kummin
1 tsk möluð kóríanderfræ
1/2 tsk pipar
1 tsk salt (eða eftir smekk)
1 egg
6 msk hafragrjón (haframjöl)
600 g lambahakk (eða annað hakk)
3 msk ólífuolía
1 lítill kúrbítur
1 lítil paprika
1 dós kjúklingabaunir
e.t.v. steinselja (ítölsk)