Tætt kjúklingabrauðterta

Það er brauðtertuæði í gangi þessa dagana. Sem er barasta hið besta mál, ég hef löngum verið töluverður brauðtertuaðdáandi og það hefur síður en svo dregið úr því eftir að ég hætti að borða sætar kökur og þess háttar. Þá eru brauðterturnar stundum það eina sem ég fæ mér af í kaffiboðum. Ég hef samt aldrei sett hér inn nema eina brauðtertu.

Brauðtertur eru til í ótal myndum og í sjálfu sér er hægt að nota næstum því hvað sem er í brauðtertu. Ég hef séð myndir af ótal tertum að undanförnu, sumum mjög girnilegum, öðrum ekki alveg eins … Flestar eru hefðbundnar að því leyti að þær eru eins og lagkökur, brauð og álegg til skiptis, og þannig eru mínar líka flestar. En ég geri samt stundum tertur af því tagi sem mætti kalla tæting og vinur minn einn kallaði andabrauðstertu, þar sem brauðið er einfaldlega rifið niður og blandað saman við áleggið (eða hitt hráefnið, kannski hæpið að kalla það álegg í því tilviki).

Auðvitað er hægt að bera þetta fram í skál eða formi eins og hvern annan kaldan brauðrétt en það er líka hægt að hvolfa þessu á fat þannig að það haldi lögun (kringlótt eða ferkantað) og þá er það brauðterta. Blandan má bara ekki vera of blaut því að þá verður þetta fljótt ólöguleg hrúga, a.m.k. þegar farið er að skera af tertunni.

Hér er einmitt ein svona „terta“ sem ég gerði fyrir bókina Kjúklingaréttir Nönnu. Þetta er nefnilega kjúklingabrauðterta og varð til sem leið til að nýta kjúklingaafgang. Kjúklingur er kannski ekkert algengur í brauðtertum og það er fleira þarna sem er frekar óhefðbundið.

En ég hafði einhverntíma séð mynd á erlendri vefsíðu af kjúklingasalati sem var skreytt næstum eins og brúðarterta.  Það fannst mér einum of mikið – eða ríflega það – en greip hugmyndina og ákvað að gera brauðtertu. Auðvitað þarf ekkert að nota afgang, það má líka bara sjóða eða steikja bringur og nota út í. Og ef notaður er afgangur er betra að hann sé ekki sterkkryddaður.

Kjúklingaterta1

Kjúklingabrauðterta

300-350 g eldaður kjúklingur, hamflettur og beinlaus

5-8 sneiðar af góðu brauði

150 g ferskur ananas (eða 1 lítil dós niðursoðinn)

100 ml majónes (heimagert eða keypt)

150 ml sýrður rjómi

½ tsk timjan, þurrkað

½ tsk karríduft (eða eitthvert annað krydd eftir smekk)

pipar

salt

lófafylli af basilíku

40 g þurrkuð trönuber (má sleppa)

100 g blandaðar hnetur, grófsaxaðar

nokkrir niðursoðnir ferskjuhelmingar

 

Skerðu kjúklinginn í litla bita. Skerðu skorpuna af brauðinu og skerðu eða rífðu það smátt. Saxaðu ananasinn. Hrærðu majónes, sýrðan rjóma, krydd og hluta af basilíkunni (saxaðri) saman í stórri skál og blandaðu svo kjúklingi, brauði, ananas og trönuberjum, ef þau eru notuð, saman við. Bættu við meira brauði ef blandan virkar frekar blaut. Klæddu meðalstórt smelluform innan með plastfilmu, settu brauðblönduna í formið, sléttaðu yfirborðið, breiddu plastfilmu yfir og kældu vel, gjarna til næsta dags. Taktu þá plastfilmuna ofan af, hvolfdu forminu á tertufat og losaðu það utan af. Dreifðu hnetublöndunni utan á kantana og ofan á tertuna, e.t.v. ásamt saxaðri basilíku. Skreyttu með ferskjum og basilíkublöðum.

Kjúklingabrauðterta2

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s