Jú, það verður brauðterta í ár …

,,Það verður engin brauðterta í ár“ söng Bjartmar hér einu sinni í texta um það þegar fyrirmyndarbarnið fór út af sporinu og hætti í menntaskóla og allir skildu tilvísunina; brauðterta þýddi veisla – stúdentsveisla, fermingarveisla, skírnarveisla, eiginlega hvaða veisla sem var. Nú held ég að brauðtertum hafi fækkað dálítið og kannski skilja þetta ekki allir, að minnsta kosti var fyrir fáeinum árum einhver sem skrifaði blogg um nýjung sem hún hafði fundið á útlendri vefsíðu og kallaði samlokuköku, en slíkt fyrirbæri yrði að ,,teljast nokkur nýlunda hér á landi. Að minnsta kosti njóta þær ekki mikilla vinsælda.“

En við sem eldri erum þekkjum nú flest brauðtertur og höfum borðað þær ófáar í alls konar veislum og samkvæmum. Brauðtertur komu held ég fyrst til sögunnar á sjötta áratugnum en áttu sitt mesta blómaskeið á þeim sjöunda og áttunda. Þegar ég var í MA á árunum 1973-77 voru þar haldnar tvær veislur á vetri, 1. des og dimission, og ef minnið svíkur mig ekki þeim mun meira voru aðalvetitingarnar í þeim brauðtertur. Allavega annarri og ég held báðum. Þetta voru kringlóttar brauðtertur (þá fengust kringlótt brauðtertubrauð, allavega fyrir norðan), líklega tveggja laga, með miklu majónesi. Það var sérstök nefnd úr hópi nemenda, man ekki hvort hún var kölluð brauðtertunefndin eða eitthvað annað, sem hafði veg og vanda af að smyrja og skreyta brauðterturnar og það tókst yfirleitt ágætlega. Nema árið sem einhver snillingur í nefndinni fékk þá miður góðu hugmynd að spara majónesið með því að drýgja það með súrmjólk.

Ég hef gert ansi margar brauðtertur í áranna rás þótt þeim hafi heldur fækkað seinni árin (enda er ég ekki lengur í því að halda barnaafmælið og útskriftarveislur og svoleiðis). Ég held ég hafi aldrei verið jafnstórtæk í majónesmokstrinum og sumir, nota yfirleitt bara það sem þarf til að halda fyllingunni saman, og aldrei datt mér í hug að sprauta majóneskanta og dúllur með rjómasprautu á terturnar til skreytingar eins og oft var gert. Og smám saman fór ég að blanda majónesið – ekki með súrmjólk þó, heldur sýrðum eða þeyttum rjóma og gjarna hvorutveggja.

Ég er nýbúin að gera tvær sæmilega vænar brauðtertur, næstum alveg eins, aðra fyrir afmælið mitt, sem ég fór með í vinnuna, hina fyrir stórafmæli hjá dóttur minni. Og af því að það eru alls konar veislur framundan hjá fólki og brauðterturnar eru ekki alveg úr sögunni ennþá, þá kemur hér uppskrift. Eða leiðbeiningar, því uppskrift er þetta nú varla.

Hér áður fyrr fannst mér oft dálítið vesen að gera brauðtertur en svo rann upp fyrir mér að aðalvesenið var eiginlega að skera skorpurnar af brauðtertubrauðsneiðunum … og eftir að ég fór að kaupa rúllubrauðsbotna í staðinn fyrir venjuleg brauðtertubrauð var þetta ekkert mál því þeir eru auðvitað alveg skorpulausir. Einn botn dugir í fjögurra laga brauðtertu af svipaðri stærð og lögun og terta úr brauðtertubrauði en terturnar sem ég gerði voru helmingi stærri um sig og ég notaði því tvo rúllubrauðsbotna í fjögurra laga tertu.

Það er alveg hægt að gera stóra, kringlótta brauðtertu líka, þá kaupir maður bara fjóra rúllubrauðsbotna og sker hring úr hverjum þeirra. En það er náttúrlega miklu ódrýgra.

Fyllingin getur auðvitað verið nánast hvað sem er. Það er hægt að hafa sömu fyllingu í öllum lögum, eða tvö lög eins og svo eitthvað annað í miðjunni (t.d. rækjur – egg – rækjur), eða þrjár mismunandi fyllingar – þá þarf bara að huga að því að hráefnið passi saman og að það sé ekki eitthvað eitt sem er bragðfrekt og rífur til sín alla athyglina eða togast á um hana. Til dæmis mundi ég líklega ekki hafa reyktan lax og hangikjöt saman í brauðtertu. En þetta er allt smekksatriði.

Ég hef notað rækjur, lax, túnfisk, skinku, hamborgarhrygg, hangikjöt, smátt saxað roastbeeef, ýmiss konar grænmeti, bæði ferskt, fryst og niðursoðið, aspas, egg, kryddjurtir og fjöldamargt annað. Um að gera að leika sér og leyfa ímyndunaraflinu að ráða – en ef maður er ekki viss er gott að byrja á að búa sér til samloku með álegginu og athuga hvernig hún smakkast …

Í þetta skipti var ég með þrenns konar fyllingu – rækjur, egg og svo hamborgarhrygg og blandað grænmeti. Eggin í miðjunni, mér finns betra þegar ég er bæði með kjöt- og fiskmeti í tertunni, að skilja aðeins á milli.

Ég keypti tvö rúllutertubrauð daginn áður og lét þau þiðna í rólegheitum í ísskápnum. Það er samt ekkert nauðsynleg. Þeim hættir meira við að springa eða rifna ef þau þiðna hratt en það er svosem allt í lagi í svona tertu þar sem allar missmíðar og samskeyti eru falin undir fyllingum og skrauti. Þessi voru fín en það má nota gróf.

_MG_2287

 

Svo hrærði ég saman í skál 500 g af majónesi (keyptu, en ég nota stundum heimagert) og 2 dósir (400 g) af sýrðum rjóma, 36%, sem nú er loksins farinn að fást aftur. Ég hef saknað hans mikið síðan hann hvarf af markaðnum. Það er alveg hægt að nota 18% rjóma líka. En á meðan 36% rjómann vantaði notaði ég yfirleitt 1 dós af 18% rjóma og þeytti svo 250 ml af venjulegum rjóma og blandaði saman við. Það er hægt að nota ýmsar samsetningar. En ekki súrmjólk semsagt.

Ég hrærði majónesi og sýrða rjómann saman í skál og kryddaði með pipar og salti og 1-2 tsk af dijonsinnepi. Tók svo frá dálítið af blöndunni – svona 100-150 ml – setti í majónesboxið, lokaði og stakk því í ísskápinn. Þetta er til að smyrja á tertuna áður en hún er skreytt.

_MG_2288

Ég var búin að láta 500 g af rækjum þiðna og harðsjóða og kæla 8 egg. Nú skipti ég majónesblöndunni (sem eftir var nokkurn veginn jafnt í þrjár skálar. Kryddaði það sem var í einni skálinni með svona 1/2 tsk af paprikudufti og cayennepipar á hnífsoddi og blandaði svo rækjunum saman við.

_MG_2291

 

Svo skar ég harðsoðnu eggin í sneiðar með eggjaskera, tók frá svona 3 miðjusneiðar úr hverju eggi en skar hitt smátt og setti út í aðra skál, ásamt smátt söxuðum grænu blöðunum af 1-2 vorlaukum og 1/2 tsk af þurrkuðu óreganói (eða basilíku) og blandaði þessu vel saman. Eggjasneiðunum sem ég tók frá pakkaði ég í álpappír og setti í kæli.

_MG_2293

 

Ég hafði keypt nokkrar sneiðar af soðnum hamborgarhrygg (en það má líka nota góða skinku, til dæmis) og skar svona 200-250 g af honum í litla teninga. Opnaði litla dós (kvartdós) af blönduðu grænmeti og hellti því í sigti. Hrærði svona 2 tsk af mauki úr sólþurrkuðum tómötum (eða rauðu pestói) saman við majónesblönduna í þriðju skálinni og blandaði svo kjötinu og grænmetinu saman við.

_MG_2296

 

Ég skar svo rúllubrauðsbotnana báða sundur í miðju (fínt að gera það áður en þeim er rúllað út) til að fá fjóra jafnstóra botna. Setti einn þeirra á vinnuborð og það er mjög gott að hafa stífa plastið sem er utan um rúllurnar undir á meðan tertan er lögð saman, þá er auðveldara að færa tertuna eða hvolfa henni yfir á bakka. Hellti svo rækjufyllingunni á botninn og smurði henni jafnt yfir hann allan, alveg út á kanta.

_MG_2299

 

Svo lagði ég annan botn þar ofan á og þrýsti nokkuð vel niður með lófunum. Smurði svo eggjafyllingunni ofan á hann.

_MG_2305

 

Og að síðustu smurði ég kjöt- og grænmetisfyllingunni á þriðja botninn og lagði þann fjórða þar ofan á og þrýsti honum dálítið niður með lófunum. Síðan er best að láta tertuna standa í kæli í allavega nokkra klukkutíma eða til næsta dags svo að botnarnir verði hæfilega rakir og mjúkir. Það er líka hægt að skreyta hana strax og bera fram en hún verður semsagt betri ef hún bíður.

_MG_2392

 

Ég tók svo tertuna út, snyrti kantana aðeins og hvolfdi henni yfir á bakka (það má líka bara renna henni og þá kemur plastið sér semsagt vel).

_MG_2394

 

Ég náði svo í majónesblönduna sem ég hafði tekið frá og smurði meirihlutanum ofan á tertuna og afganginum utan á hana.

_MG_2396

 

Náði svo í eggjasneiðarnar sem ég tók frá og raðaði þeim ofan á tertuna. Svo tók ég nokkra kokkteiltómata, skar þá í tvennt og raðaði þeim á kantana með nokkru millibili og saxaði eitt knippi af steinselju (venjulegri) og dreifði utan á tertuna og á brúnirnar. Skreytti svo tertuna smávegis að ofan með öðrum kryddjurtum – fyrri brauðtertan sem ég gerði var með súpuselleríi en hin með fjallasteinselju. En það má nota eitthvað annað, eða bara meira af venjulegri.

_MG_2154

 

Hún er nú dálítið vorleg, er það ekki?

_MG_2194

 

O, ætli það verði ekki brauðterta í ár …

 

Brauðterta

2 rúllubrauðsbotnar

500 g majónes

400 g sýrður rjómi (36%, eða eftir smekk)

1-2 tsk dijonsinnep

pipar

salt

Rækjufylling:

500 g rækjur

1/2-1 tsk paprikuduft

cayennepipar á hnífsoddi

Eggjafylling:

8 harðsoðin egg (mínus þrjár sneiðar úr hverju)

grænu blöðin af 1-2 vorlaukum (má sleppa)

1/2 tsk þurrkað óreganó (eða basilíka)

Kjötfylling:

200-250 g soðnn hamborgarhryggur eða skinka

1 lítil dós blandað grænmeti)

1-2 tsk mauk úr sólþurrkuðum tómötum eða rautt pestó

Skraut:

sneiðar af harðsoðnum eggjum

kokkteil- eða kirsiberjatómatar

steinselja

e.t.v. aðrar kryddjurtir

9 comments

    • Þessi var nú bara keyptur í Bónus og var niðurskorinn, í svona 1/2 cm þykkum sneiðum, ætli hafi ekki verið svona 10-12 sneiðar í pakkanum. En ég hef líka notað t.d. partískinku sem ég kaupi heila og sker í frekar þykkar sneiðar (með hníf) og svo í teninga. Afganginn af partískinkunni má svo frysta, heilan eða í sneiðum, og nota seinna t.d. í salöt, eggjakökur og margt annað.

  1. Aldrei of mikið af brauðtertu! Ég er svo lítið fyrir sætar kökur, fæ mér kannski eina slíka sneið í hverri veislu en brauðterturnar eru bestar.

    • Þessi terta dugði fyrir 25 manns eða svo í afmælinu mínu á dögunum en kláraðist líka alveg. Ég hugsa að það sé nokkuð nærri lagi.

  2. má gera hana daginn fyrir veislunna eða er betra að gera hana samdægurs?

    • Það er í fínu lagi að gera fyllingarnar og setja tertuna saman daginn áður, eiginlega bara betra finnst mér, og geyma hana svo í kæli yfir nótt, en best að skreyta hana ekki fyrr en á að bera hana fram (eða nokkrum klukkutímum áður).

  3. Búin að prófa!Heppnaðist vel og var mjög ljúffeng👍

  4. […] Það er brauðtertuæði í gangi þessa dagana. Sem er barasta hið besta mál, ég hef löngum verið töluverður brauðtertuaðdáandi og það hefur síður en svo dregið úr því eftir að ég hætti að borða sætar kökur og þess háttar. Þá eru brauðterturnar stundum það eina sem ég fæ mér af í kaffiboðum. Ég hef samt aldrei sett hér inn nema eina brauðtertu. […]

Færðu inn athugasemd