Pólentufiskur

Ég ligg í einhverri fjárans flensupest og var ekki í neinu stuði til að elda eitthvað almennilegt. Sem var eiginlega hábölvað því mig langaði í fisk. En ég átti hann ekki til, komst ekki út í búð eftir honum og hefði ekki haft orku til að elda hann þótt ég hefði sent soninn eftir honum.

Ekki að það sé mikil fyrirhöfn að elda fisk, svosem, eða að það taki langan tíma. Hann er hinn eini sanni skyndibiti eins og ég hef oft sagt. Og hér er einmitt uppskrift að fiski sem ég hefð kannski eldað ef ég hefði átt hann til.

Rauðspretta (skarkoli) er góður fiskur sem er einstaklega fljóteldaður því flökin eru þunn. Ég hafði hann í raspi en þó ekki venjulegu brauðraspi, heldur notaði ég pólentu (grófmalað maísmjöl), blandaða kryddjurtum og hvítlauk í staðinn fyrir brauðrasp eða hveiti. Rétturinn hentar því vel fyrir þá sem vilja forðast glúten. Ég hafði salat úr grillaðri papriku með en það má alveg sleppa því og bera fram grænt salat eða soðið eða steikt grænmeti með rauðsprettunni.

Ég gerði uppskrift sem hentar fyrir einn (og þá líka í nesti daginn eftir) eða tvo og notaði til þess þrjú lítil rauðsprettuflök, 300-350 g samtals. Tvær paprikur, mismunandi litar, dálítið af salatblöðum, svona 6 msk af pólentu, lófafylli af steinselju, nokkur basilíkublöð (það má alveg nota aðrar kryddjurtir), 1 hvítlauksgeira, 1 egg, pipar, salt og ólífuolíu.

Ég byrjaði á að þerra rauðsprettuflökin, hreinsa bein (eða reyndar voru engin en ég leitaði að þeim, það er vissara) og svo skar ég þau í tvennt eftir endilöngu. Reyndar lá við að það væri óþarfi, þau voru það lítil. Stráði ögn af pipar og salti á þau og lét liggja meðan ég gekk frá paprikunum og útbjó raspið.

Það má roðfletta rauðsprettuna en er óþarfi.

IMG_9371

 

Ég hitaði grillið í ofninum. Skar svo paprikurnar í fjórðunga, fræhreinsaði þær, raðaði þeim á grind (eða plötu) með hýðið upp og grillaði þær þar til hýðið var orðið dökkt, eða meirihlutinn af því. Þá tók ég þær út og setti þær í poka (má líka breiða álpappír yfir þær) í nokkrar mínútur.

IMG_9374

Ég setti svo pólentu, kryddjurtir og hvítlauk í blandara eða matvinnsluvél ásamt pipar og salti og lét ganga þar til komið var fremur fíngert rasp.

IMG_9376

Ég setti svo raspið á disk og braut svo eggið á annan disk og þeytti það létt með gaffli …

IMG_9378

 

… og síðan tók ég rauðsprettuflökin og velti þeim fyrst upp úr egginu og síðan raspinu.

IMG_9379

Ég þrýstiþeim vel niður í raspið til að reyna að láta það tolla sem best við.

IMG_9385

Ég hitaði svo olíu á pönnu sem rúmapi öll flökin. (Ef uppskriftin er stækkuð og ekki er til nógu stór panna er best að steikja rauðsprettuna í tvennu lagi og geyma fyrri skammtinn í 100°C heitum ofni á meðan lokið er við þann seinni.) Svo steikti ég fiskinn við góðan meðalhita í um 2 mínútur á hvorri hlið; aðeins lengur ef flökin eru þykkari.

IMG_9384

Á meðan tók ég paprikurnar úr pokanum, afhýddi þær svo (það ætti að vera auðvelt að fletta hýðinu eða plokka það af), skar þær í ræmur, setti þær í skál ásamt 2 msk af ólífuolíu og kryddaði með pipar og salti.

IMG_9388

Ég skar svo eða reif niður salatblöð og blandaði saman við paprikuna. Bar salatið svo fram með rauðsprettunni, e.t.v. ásamt soðnum kartöflum eða hrísgrjónum.

Ekki slæmt.

 

Polentu-rauðspretta með grillaðri papriku

300-350 g rauðsprettuflök

2 paprikur, mismunandi litar

2 msk ólífuolía

pipar

salt

6 msk polenta

lófafylli af steinselju

nokkur basilíkublöð (eða aðrar kryddjurtir eftir smekk)

1 hvítlauksgeiri

1 egg

olía til steikingar

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s