Gums og stappa

Ég hef verið eldað dálítið mikið af notalegheitamat að undanförnu, það er að segja þegar einkasonurinn kemur í mat, sem hann gerir nokkuð oft núna, enda sambýliskonan úti í Cambridge í doktorsnámi. Og um helgina bauð ég honum upp á vetrarlegan pottrétt sem hann var bara kátur með; sagðist nokkuð sáttur við að fá gums og stöppu á svona dögum.

Ég var eitthvað að tala um blankheitamat hér á dögunum og þetta getur nú eiginlega fallið undir það því ég notaði hrossakjöt sem ég keypti í Bónus; hrossastroganoff, var það kallað og kostaði ef ég man rétt átta hundruð og eitthvað krónur kílóið. Sem er ágætlega sloppið þegar kjöt er annars vegar. Og afgangurinn af hráefninu var bara það sem ég fann í ísskápnum.

Ekki að það sem maður finnur í ísskápnum sé ókeypis, sko. En málið er bara að nota það sem maður á og kaupa ekki alltaf allt nýtt fyrir hvern rétt á meðan kannski er eitthvað að skemmast í skápnum sem alveg eins mætti nota þótt það standi kannski ekki í uppskriftinni (ef maður er með uppskrift, sem ég var reyndar ekki). Út á þetta – að nota það sem maður á og nýta í stað þess að henda – gengur til dæmis bókin mín, Maturinn hennar Nönnu, sem verið er að endurprenta, svo ég noti nú tækifærið og plöggi aðeins. Hún ætti að koma einhverntíma eftir páskana.

En það var pottrétturinn. Þetta voru semsagt 500-600 g af hrossakjöti og rétturinn ætti að duga fyrir 3, jafnvel 4; kjötið var skorið í stroganoffstrimla en ef maður er með stærri bita eða stykki er best að skera það í fremur mjóa strimla eða litla bita. Jú, og svo má auðvitað alveg nota annað kjöt. Nautakjöt eða lambakjöt, til dæmis.

_MG_2248

 

Ég byrjaði á að saxa 2 lauka og 2 hvítlauksgeira. Hellti 1 msk af olíu eða svo í þykkbotna pott (eða á pönnu) og lét lauk og hvítlauk krauma við meðalhita þar til laukurinn var farinn að mýkjast og verða glær. Þá tók ég laukinn upp með gataspaða og setti á disk.

_MG_2253

Ég bætti aðeins meiri olíu í pottinn, setti helminginn af hrossakjötinu út í, kryddaði með pipar og salti og brúnaði við góðan hita í nokkar mínútur. Hrærði oft á meðan. Tók það svo upp með gataspaða og setti hjá lauknum.

_MG_2255

Svo setti éga afganginn af kjötinu í pottinn, ásamt svona 100 g af beikoni, skornu í bita, kryddaði og brúnaði það líka í nokkrar mínútur. Setti svo fyrri kjötskammtinn og laukinn aftur í pottinn.

_MG_2260

Skar svo 3-4 gulrætur og 2 sellerístöngla í bita og setti út í ásamt nokkrum timjangreinum (eða 1/2-1 tsk af þurrkuðu timjani), 1 tsk af þurrkuðu óreganói og 2 lárviðarlaufum. Hrærði þessu saman við og hellti svo 1/2 l af vatni yfir og hitaði að suðu. Setti þétt lok á pottinn, lækkaði hitann eins og hægt var og lét malla í rólegheitum í svona 1 1/2 klst.

_MG_2261

 

Ég leit varla á þetta á meðan, hrærði kannski einu sinni eða tvisvar, en ef lokið á pottinum er ekki þétt og þungt getur verið vissara að gæta að þessu öðru hverju og bæta við svolitlu vatni ef þarf. En það á aldrei að fljóta yfir, soðið á að vera fremur lítið en bragðsterkt og kraftmikið.

_MG_2264

 

Þegar kjötið var orðið meyrt og soðið bragðmikið og gott tók ég lokið af, hellti 100 ml af rjóma út í (mætti líka vera mjólk en þá er kannski betra að þykkja sósuna örlítið), hækkaði hitann aðeins og lét malla í opnum poitti í nokkrar mínútur.

_MG_2266

 

Á meðan pottrétturinn mallaði útbjó ég kartöflustöppu: Byrjaði á að flysja tvær stórar bökunarkartöflur, skar þær í bita, setti í pott ásamt vatni og örlitlu salti og sauð þær uns bitarnir voru vel meyrir. Þá hellti ég vatninu af þeim og setti svo pipar, salt, svolítið af þurrkaðri basilíku og 3 msk af ólífuolíu í pottinn.

_MG_2268

Svo stappaði ég kartöflurnar vel með kartöflustappara (eða hverju því tóli sem hentar að stappa með) .

_MG_2270

 

Að síðustu hrærði ég einni eggjarauðu saman við stöppuna og þynnti hana örlítið með mjólk (en bara lítið, ég vildi hafa hana frekar þykka).

_MG_2272

 

Ég bar gumsið fram í pottinum. Svo var bara að setja stöppu á disk og gera holu í miðjuna, ausa kjöti og sósu í holuna og svo skreytti ég með smávegis steinselju af því að ég átti hana til.

_MG_2285

 

Gums og stappa, gjörsvovel.

 

Hrossapottréttur með kartöflustöppu

500-600 g hrossakjöt (stroganoff)

2 laukar

2 hvítlauksgeirar

2-3 msk olía

100 g beikon

pipar

salt

nokkrar timjangreinar eða þurrkað timjan

1-2 lárviðarlauf

1 tsk óreganó

3-4 gulrætur

2 sellerístönglar

500 ml vatn

100 ml rjómi

 

Kartöflustappa með basilíku 

600 g bökunarkartöflur

3 msk ólífuolía

pipar

salt

þurrkuð basilíka (1/4-1/2 tsk)

1 eggjarauða

svolítil mjólk

 

One comment

  1. Frábært að geta fjárfest í bókinni, hún er búin að vera á óskalistanum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s